Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 18:01:07 (4238)

1998-02-25 18:01:07# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[18:01]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að ég sé að gera lítið úr fólki sem býr í þröngum fjörðum og vill njóta sólar. Ég gat sérstaklega um það áðan að ég skildi það vel en ég gat þess þá um leið að ekki væri úr vegi fyrir hvert sveitarfélag að breyta starfsemi sinni ef svo þætti rétt og eðlilegt.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kom inn á það áðan að hann væri hissa á því að það virtist ekki nein áhrif hafa á þann fjölda fólks sem breytti sínum vinnutíma yfir sumartímann.

Meginhluti þjóðarinnar byrjar almennt að vinna kl. 8 á morgnana en skrifstofufólk hefur getað byrjað kl. 9 á morgnana á vetrardögum. Margir vildu geta haft þann háttinn á en það hefur ekki áhrif á það vegna þess að fólk er almennt komið á stjá milli kl. 7--8 á morgnana. Þess vegna hefur það ekki áhrif.

Ég endurtek að ég geri ekki lítið úr skoðunum fólks. Það getur haft skoðanir sínar en ég hef þær líka og ég hef þá trú að meginhluti þjóðarinnar sé á móti þessu hringli með klukkuna og ég er að tala fyrir hönd þess hóps en geri ekki lítið úr skoðunum annarra í því sambandi.