Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 18:03:06 (4239)

1998-02-25 18:03:06# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[18:03]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson virðist telja að það þurfi að vera eitthvert náttúrulögmál að báðir vísar klukkunnar vísi beint upp, þ.e. að klukkan sé 12 þegar sólin er hæst á lofti. Það er hins vegar alger reginmisskilningur. Fólk hagar vinnutíma sínum og hvíldartíma sínum eftir því sem því hentar best og klukkan og sumartími og hvenær vinnutími byrjar og hvenær honum lýkur er fyrst og fremst spurning um leikreglur í samfélaginu sem gagnast sem allra flestum. Það er t.d. enginn eðlismunur á því sem við flm. þessa frv. erum að leggja til hvort það væri t.d. sett í lög að allir vinnustaðir ættu að hefja vinnu klukkutíma fyrr í lok mars og byrja síðan klukkutíma seinna í lok október eða færa klukkuna fram og til baka. Þess vegna vísa ég tali hv. þm. algerlega á bug um að það hafi mikil áhrif á heilsufar fólks hvort það byrjar klukkutímanum fyrr eða seinna.

Það væri fróðlegt að kanna t.d. hug hv. þm. til þess hvort hann teldi það vera heilsufjandsamlegt í landinu ef allir tækju sig til og byrjuðu klukkutíma fyrr á sumrin, ekki bara skrifstofufólk heldur allt þjóðfélagið, og byrjuðu svo klukkutíma seinna á vetrum. Mér heyrðist hv. þm. öfundast sérstaklega út í skrifstofufólki sem flytur einmitt til vinnutíma sinn milli sumars og vetrar og hv. þm. virtist telja að hin mesta heilsubót væri í því fólgin.