Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 13:35:16 (4247)

1998-03-03 13:35:16# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[13:35]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Sá helmingur ungmenna sem finnur nám við hæfi í íslenska framhaldsskólanum stendur jafnöldrum sínum erlendis fyllilega á sporði þegar kemur að þekkingu í raungreinum. Það eru góðu niðurstöðurnar úr nýju TIMSS-könnuninni. En þær varpa því miður einnig ljósi á þá staðreynd að nær helmingi íslenskra ungmenna er hvorki boðið upp á nám við hæfi né þann stuðning sem þarf til að takast á við það nám sem í boði er. Skólameistarar framhaldsskólanna benda á grunnskólann sem sökudólg þegar kemur að ástæðum hins mikla brottfalls úr framhaldsskólanum. Háskólastigið bendir síðan á framhaldsskólann til útskýringar á slöku gengi á því skólastigi. Þetta þekkjum við.

Hitt var öllu nöturlegra þegar menntmrh. Sjálfstfl., flokks sem farið hefur með menntamálin auk fjmrn. í u.þ.b. 12 ár af síðustu 15 árum skyldi firra sig og sinn flokk ábyrgð og varpa sök á hinum neikvæðu hliðum könnunarinnar á grunnskólann. Það var ótrúlegt. Er grunnskólinn girnilegri blóraböggull fyrir menntmrh. nú þegar hann hefur verið settur á ábyrgð sveitarfélaganna eða á hvers ábyrgð er það að ekki hefur orðið raunhækkun á útgjöldum ríkisins til menntamála sl. tíu ár þótt heildartekjur ríkisins hafi aukist um 23,5 milljarða? Á hvers ábyrgð er það að í mörg ár hefur verið daufheyrst við óskum framhaldsskólanna um meira fjármagn, m.a. til þróunar starfsmenntabrauta og raunverulegra valkosta fyrir hinn stóra hóp nemenda?

Í fjársveltu skólakerfi urðu bóknámsbrautirnar auðvitað ofan á, þær eru svo miklu ódýrari. Niðurstaðan er sú að nánast helmingur íslenskra ungmenna fær ekki nám við hæfi. Fallskattur var síðan settur á til að lakar settum nemendum mætti vera ljóst hversu velkomnir þeir eru í framhaldsskólann og hve skilningsrík yfirvöld menntamála eru á ástandinu. Á hvers ábyrgð var það?

Veik skilyrði til skólastarfs er sú einkunn sem Einar Guðmundsson hjá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála gefur ástandinu. Aðrir tala um að skólakerfið sé í kreppu, sama hvort borið er niður á grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi, kreppu sem lýsir sér m.a. í óánægju foreldra vegna ónógrar þjónustu, síendurteknum verkföllum kennara, að námsgagnagerð er í fjársvelti, að rannsóknir skortir og fjármuni til að vinna úr þeim rannsóknum sem til eru, að langvarandi fjársvelti háskólastigsins hefur komið niður á þróun kennslu og rannsókna.

Herra forseti. TIMSS-skýrslurnar draga upp ákveðna mynd af stöðu íslenska skólakerfisins í samanburði við aðra. Það gerir matsskýrsla OECD frá síðasta ári líka. Hún bendir á hve litlu fjármagni er varið hér á landi til menntamála í samanburði við aðra.

Menn tala um svartar skýrslur. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann telji að niðurstöður TIMSS-skýrslnanna séu áfellisdómur yfir menntastefnu síðasta áratugar. Á liðnum árum og áratugum hefur margoft verið bent á að efla þurfi starfsnám og auka fjölbreytni í námsmöguleikum ungmenna án þess að menntamálayfirvöld hafi brugðist við nema þá í orði. Hver telur hann að sé ástæða þess? Til hvaða aðgerða telur ráðherra að hefði þurft að grípa á liðnum árum til að koma í veg fyrir það alvarlega ástand að stór hluti ungmenna flosnar upp frá námi og er ekki boðið upp á nám við hæfi?

Að lokum. Ef tekið er tillit til þjóðarframleiðslu er Ísland hlutfallslega langneðst af OECD-ríkjunum hvað varðar framlög til menntamála. Hvaða áhrif telur menntmrh. að þetta fjársvelti hafi haft á þróun menntamála undanfarinn áratug í samanburði við aðrar þjóðir, og hver telur hann að áhrif þessa verði á samkeppnisstöðu Íslands í framtíðinni? Hér þurfa yfirvöld menntamála að kannast við sína ábyrgð og læra af reynslu undangenginna ára.

Sjálfstfl. hefur bæði haft tögl og hagldir varðandi stefnumótun og fjárframlög til menntamála mörg undanfarin ár. Það hefur eina ferðina enn verið brugðist við í orði, ný lög hafa verið sett. En, herra forseti, við hljótum að horfa til þess bæði í ljósi reynslunnar og þess að fjármagn hefur ekki enn verið aukið til framhaldsskólans, þó að byrjað sé að vinna eftir þessum nýju lögum.