Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 13:45:04 (4249)

1998-03-03 13:45:04# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[13:45]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Nýlega gátu Íslendingar glaðst yfir góðum árangri nemenda sem höfðu tekið þátt í enn einni TIMSS-könnuninni. Það er auðvitað alltaf gleðilegt þegar ungu fólki gengur vel í prófi, og þá sérstaklega þegar um er að ræða alþjóðlegan samanburð. Við vorum líka ákaflega lukkuleg með það mörlandarnir þegar skoðanakönnun leiddi í ljós að við værum einhver hamingjusamasta þjóð í heimi. Og sú könnun var einmitt gerð þegar við vorum djúpt í harðvítugri efnahagslægð. Ráðamenn menntamála voru líka mjög glaðhlakkalegir með niðurstöður framhaldsskólakönnunarinnar þegar fyrst var rætt við þá eftir að niðurstöður birtust og var helst á þeim að skilja að þetta sýndi vel hversu vel framhaldsskólanum tækist að vinna upp það sem miður færi í grunnskólanum og vísuðu þar til annarrar könnunar sem einnig er kennd við TIMSS. En Adam var ekki lengi í paradís. Það kom sem sé í ljós að umrætt próf var tekið af nemendum sem voru um það bil að útskrifast úr framhaldsskóla og þar að auki aðeins þeim sem vildu spreyta sig. Ekki liggur fyrir hvernig samanburðarúrtakið hjá hinum þjóðunum var fengið. Þegar þarna var komið var sem sagt búið að hrista af skólakerfinu með einum eða öðrum hætti þau 45% nemenda sem hverfa frá námi í framhaldsskóla áður en þau hafa náð nokkrum lokaáfanga. Þessum 45% íslenskra nemenda hef ég lengi haft áhyggjur af og vísa m.a. til þáltill. sem er lögð fram á Alþingi í dag. Ég hef líka lengi haft áhyggjur af því hvernig þeim muni reiða af í framtíðinni þar sem allt atvinnuumhverfi verður sífellt sérhæfðara og sú hætta vofir yfir að þeir sem ekki byggja á einhverju starfsnámi muni eiga erfitt uppdráttar í atvinnulífi framtíðarinnar. Það er knýjandi nauðsyn að nú fari yfirvöld menntamála að taka á þessu mesta vandamáli í íslensku skólakerfi og virkilega leggja peninga og vinnu í að efla starfsmenntun í samstarfi við atvinnulífið. Það er búið að tala of lengi. Nú er runninn upp tími framkvæmda.