Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 13:50:03 (4251)

1998-03-03 13:50:03# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[13:50]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Eftir niðurstöður TIMSS-rannsókn\-ar\-innar á frammistöðu grunnskólabarna í raungreinum fyrir rúmu ári kom skemmtilega á óvart að íslenskir framhaldsskólanemar hefðu lent í þriðja sæti í sambærilegri rannsókn. Við nánari athugun er rétt að halda aftur af fagnaðarlátum.

Í fyrsta lagi mættu aðeins 73% útskriftarárgangsins í prófið sem rýrir gildi niðurstöðunnar.

Í öðru lagi er erfitt að bera saman námsárangur milli landa í framhaldsskólum vegna mismunandi skólakerfa. Rannsóknin dregur þó athyglina að tveimur megingöllum íslenska framhaldsskólans sem oft hafa verið ræddir í þingsölum. Þar ber fyrst að nefna þá staðreynd að einungis 55% árgangs útskrifast úr framhaldsskóla í samanburði við 71% í Svíþjóð og 84% í Noregi og Frakklandi. Þetta sýnir að 45% nemenda finnur ekki námsframboð við sitt hæfi og þetta hlutfall er mun hærra hér en í flestum nágrannalanda okkar.

Þessi könnun var gerð vorið 1995. Ári síðar voru sett ný framhaldsskólalög sem ekki hafa breytt neinu að þessu leyti. Við stjórnarandstæðingar bentum á að auka þyrfti fjölbreytni og setja meira fé í starfsnám af ýmsu tagi en það hefur ekki gerst enn.

Hitt atriðið sem er verulegt áhyggjuefni er aldur íslensku framhaldsskólanemanna. Þeir eru að meðaltali rúmlega 21 árs í könnuninni, sem var gerð rétt fyrir útskrift meðan nemarnir í flestum öðrum löndum eru 18 til 19 ára. Þetta bentum við stjórnarandstæðingar á við setningu síðustu framhaldsskólalaga en ekki var á það fallist að stytta framhaldsskólann þó að íslensk ungmenni komi einu til þremur árum seinna en jafnaldrar þeirra til æðra náms eða á vinnumarkaðinn.

Virðulegi forseti. TIMSS-rannsóknirnar sýna okkur svart á hvítu að íslenska menntakerfið þarf að taka sig á og að þingið og fjárveitingavaldið þurfa að taka á með bættri löggjöf og með því að veita mun meira fé til menntamála, ekki síst til fjölbreyttara starfsnáms, þannig að þau 45% ungmenna sem nú finna ekkert við sitt hæfi, fái þar viðunandi nám. Við síðustu TIMSS-rannsókn var boðuð bætt kennaramenntun og átak í tölvu- og raungreinanámi. Það bólar lítið á slíku átaki og úr því verður að bæta.