Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 13:57:35 (4254)

1998-03-03 13:57:35# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[13:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er staðreynd að tæplega helmingur íslenskra nemenda fær ekki nám við hæfi. Það er staðreynd að hinn helmingurinn nær svipuðum árangri og jafnaldrar þeirra í öðrum löndum, en það er aðeins helmingur nemenda. Það er staðreynd að hérlendis er skortur á námsráðgjöf og fjöldi nemenda flakkar um í skólakerfinu í leit að námi við sitt hæfi og gefst síðar upp og hættir. Það er staðreynd að sóun er á tíma, orku og fjármunum. Það er staðreynd að á Íslandi er hlutfall ungs fólks einna hæst innan OECD-ríkjanna. Þrátt fyrir það er staðreynd að við verjum einna minnstu fé til menntamála allra OECD-ríkjanna, aðeins fjögur eru fyrir neðan okkur. Það er staðreynd að ef litið er til þjóðarframleiðslu erum við hlutfallslega langneðst OECD-ríkjanna í framlögum til menntamála. Það er staðreynd að ekki hefur verið raunhækkun á fjárveitingum til menntamála á síðustu tíu árum þótt tekjur ríkissjóðs hafi hækkað um 23,5 milljarða. Það er staðreynd að menntamálin hafa verið undir stjórn sjálfstæðismanna 12 undanfarin ár af 15 og svipað gildir um fjármálin. Afleiðing þessa er sú staðreynd að íslenska skólakerfið er í lamasessi, rannsóknir vantar, starfsnám er af skornum skammti, verkföll eru árviss og um helmingur nemenda flosnar upp frá námi. Sveltistefna og vanræksla sjálfstæðismanna í menntamálum blasir hvarvetna við. Og hver eru svo viðbrögð ráðherra Sjálfstfl.? Það er lítið um svör. Aðeins fögur orð og fyrirheit um framtíðina en, herra forseti, sporin hræða.