Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 14:06:45 (4258)

1998-03-03 14:06:45# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[14:06]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það urðu mér nokkur vonbrigði að heyra áðan í hæstv. menntmrh. sem gaf augljóslega til kynna að hann hefur lítið lært af reynslu undangenginna ára og telur að enn nægi fögur fyrirheit í orði og ekkert þurfi að fylgja þeim eftir með fjárframlögum. Hann telur nefnilega að ekki hafi verið fjársvelti í skólakerfinu. Það stangast reyndar á við aðrar upplýsingar sem við höfum eins og þær að ef tekið er tillit til þjóðarframleiðslu er Ísland langneðst á lista OECD-ríkjanna þegar litið er til fjárframlaga til menntamála. Það er alvarlegt mál. Það útskýrir ýmislegt sem hæstv. menntmrh. hefur greinilega ekki áttað sig á enn þá.

Hæstv. ráðherra sagði samt að það þyrfti að hafa skólann þannig í stakk búinn að hann gæti mætt nemendum af því að þeir ættu rétt á kennslu við hæfi. Þá hljótum við að spyrja: Hvað með þau 45%, helming íslenskra ungmenna, sem er að flosna upp og hefur flosnað upp frá námi? Af hverju hefur hann þá ekki fengið kennslu við hæfi ef ekki er um fjárskort að ræða? Af hverju er þeim hópi ekki mætt eins og staðan er í dag?

Auðvitað vantar rannsóknir á íslensku skólakerfi, svo sannarlega. Menntmrh. upplýsti áðan að hann væri búinn að ákveða 5 millj. kr. framlag svo hægt væri að vinna úr þeim rannsóknum sem fyrir eru.

Herra forseti. Tillaga stjórnarandstöðunnar einmitt þessa efnis var felld í fjárlagaumræðunni. Þá þurfti hæstv. ráðherra ekki leiðbeiningu. En sem betur fer hefur hann áttað sig á því hvers virði það er að unnið sé úr þessum rannsóknum og hann er búinn að ákveða að setja þessa peninga í það. Það segir mér, herra forseti, að undir niðri viðurkennir hann að fögur fyrirheit ein og sér nægja ekki því einnig hér eru peningar það afl hlutanna sem verður að vera.