Skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 14:09:09 (4259)

1998-03-03 14:09:09# 122. lþ. 76.92 fundur 238#B skólakerfið í ljósi TIMSS-skýrslna# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[14:09]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ekkert hefur komið fram í rannsóknum sem bendir til þess að meginvandinn í íslenska skólakerfinu sé fjárhagslegs eðlis. Hv. þm. getur ekki staðið á því föstum fótum og haldið því fram að hægt væri að leysa allan þann vanda sem hún telur að ríki í íslenska skólakerfinu með því einu að auka fjárveitingar. Svo er ekki. Ef það væri svo einfalt hefðu menn áreiðanlega gripið til þess ráðs því að það er ekkert nýtt heldur á þessu ári eða á undanförnum áratug að brottfall úr framhaldsskólum sé mikið. Þvert á móti hefur þróunin verið sú sem betur fer að æ fleiri hafa tækifæri til framhaldsnáms og þróunin hefur verið sú einnig hér á landi að æ fleiri nýta sér þau tækifæri. Þess vegna á ekki að gera of mikið úr þeim vanda þótt hann sé alvarlegur og þurfi að takast á við hann. Rannsóknir sýna einnig að brottfallið fer frekar minnkandi en hitt. Það hefur komið fram í rannsóknum sem nefnd um símenntun hefur látið gera að frekar dregur úr brottfallinu en hitt.

Menntmrn. mun á næstu dögum fara af stað með umræður undir kjörorðinu ,,Enn betri skóli``. Þar verða kynnt meginmarkmið í nýjum námskrám fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Þau verða kynnt í sérstökum bæklingi, sem sendur verður inn á hvert heimili, á fundum og með öðrum hætti og þá geta menn tekið til við að ræða um inntak á nýrri skólastefnu á grundvelli mikillar vinnu sem hefur farið fram á vegum ráðuneytisins um nýja námskrá fyrir grunnskólann og framhaldsskólann. Á næstu vikum mun gefast gott tækifæri til að ræða um innra starf í skólunum og þau markmið sem við viljum setja skólanum, bæði grunnskólanum og framhaldsskólanum, og ráðuneytið mun beita sér fyrir þeim umræðum.