Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:21:33 (4274)

1998-03-03 15:21:33# 122. lþ. 76.12 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv. 5/1998, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[15:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja almenna umræðu um það frv. sem hér er til 3. umr. en gera með nokkrum orðum grein fyrir brtt. sem ég hef flutt. Hana er að finna á þskj. 848. Þess ber að geta að eftir breytingar við 2. umr. eiga þessar brtt. mínar við 96. gr. og 97. gr. en ekki þær greinar sem tilgreindar eru á skrifaðri tillögu. Ég legg það hins vegar algerlega í vald forseta hvernig þetta skuli leiðrétta, hvort hann telji þörf á að prenta skjalið upp eða hvort hægt er að ganga til atkvæðagreiðslunnar með einföldum skýringum á borð við þær sem ég hef gefið.

Efnislega eru þessar brtt. mínar ákaflega skýrar og einfaldar. Hér hefur komið fram að eitt markmið þessara laga er að sem mest samræmi sé í framgangi kosninga og formlegum umbúnaði í sveitarstjórnarkosningum annars vegar og alþingiskosningum hins vegar. Til að auka enn frekar á þetta nauðsynlega og mikilvæga samræmi geri ég það að tillögu minni að á sama hátt og alþingismenn fá sitt umboð strax að afloknum kosningum þegar yfirkjörstjórn hefur úrskurðað um niðurstöðu þeirra, verði sveitarstjórnarmaður hæfur og fái sitt réttmæta umboð um leið og kosningaúrslit liggja fyrir en ekki 15 dögum eftir kjördag eins og gildandi sveitarstjórnarlög hafa raunar kveðið á um. Ef ég man rétt komu þau ákvæði inn í lögin 1986. Ég þekki það nokkuð vel að það getur skapað ákveðna óvissu að eftir kosningar skuli gamla sveitarstjórnin vera að völdum í 15 daga með skert umboð. Hún er þar með skert umboð eins og segir í núgildandi lögum, og raunar í þessu frv. líka. Hún hefur því ekki heimild til að framkvæma neina þá gjörninga sem venjulegar sveitarstjórnir með fullkomið umboð annars geta. En svo er líka um hnútana búið að nýja sveitarstjórnin hefur ákveðnu hlutverki að gegna, þó með takmörkuðum hætti sé. Hún hefur heimild til þess óska eftir frestun á gildistöku hugsanlegra ákvarðana hinnar gömlu. Hér er algerlega ástæðulaus réttaróvissa í gangi og einfalt að taka af öll tvímæli um það hver hafi rétt og hæfi til að stýra viðkomandi sveitarfélagi. Með öðrum orðum yrði það eins og við alþingiskosningar að um leið og yfirkjörstjórn hefur úrskurðað um niðurstöður kosninga taki sveitarstjórnin við og þeir sveitarstjórnarmenn sem kjörnir voru.

Með þessari breytingu eru þær útskýringar sem er að finna í 2. mgr. 96. gr. óþarfar. Þar er kveðið á um hvað gamla sveitarstjórnin megi og megi ekki. Einnig yrði 2. mgr. 97. gr. óþörf en hún fjallar um það hvað nýja sveitarstjórnin megi og megi ekki á þessum 15 dögum. Ég þekki það nokkuð af eigin reynslu að þessi 15 daga frestur hefur í rauninni engum tilgangi þjónað og er því fullkomlega óþarfur. Ég hef ekki heyrt þau rök með þessu fyrirkomulagi. Sumir hafa haldið því fram að þetta sé nauðsynlegt til að gefa nýrri sveitarstjórn ráðrúm til þess að mynda nýjan meiri hluta. Við sem hér erum þekkjum hins vegar að slíka meiri hluta má mynda á einum degi, en þá væri einnig hægt að mynda á mörgum mánuðum. Þess eru jafnframt dæmi að enginn meiri hluti sé í sumum sveitarstjórnum en mál hafi þrátt fyrir það gengið ágætlega fyrir sig.

Hér liggja, að mínu áliti, engin rök að baki og því legg ég á það áherslu, virðulegi forseti, að menn geri þessa nauðsynlegu lagahreinsun og skýri rétt sveitarstjórnarmanna að afloknum kosningum.