Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:28:11 (4276)

1998-03-03 15:28:11# 122. lþ. 76.12 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv. 5/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[15:28]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Með fullri virðingu fyrir hv. 14. þm. Reykv. þykja mér þetta ekki nein rök inn í málið. Ég get svo sem ekki svarað því hvers vegna sveitarstjórnarmenn tiltóku ekki þetta sérstaka atriði í umsögnum sínum. Kannski er það einfaldlega vegna þess að það er óbreytt frá gildandi ákvæðum í sveitarstjórnarlögum og hefur því ekki vakið sérstaka athygli þeirra við athugun á frv. Ég held hins vegar að við verðum einfaldlega að horfa á þetta mál með efnislegum rökum. Ég reyndi að beita efnislegum rökum í ræðu minni áðan og við þurfum að byggja niðurstöðu okkar á grundvelli slíkra raka. Ég get ekkert fullyrt um afstöðu sérhvers sveitarstjórnarmanns til þessa tiltekna atriðis. Ég veit um marga sem eru mér sammála. Ég veit líka um marga sem eru mér ósammála. Við eigum einfaldlega að taka afstöðu til þessa máls á grundvelli raka og þeirra atriða sem ég nefndi: Hvaða tilgangi þjónar það að skapa 15 daga óvissu í sveitarfélagi, óvissu þar sem í raun engin sveitarstjórn hefur fullgilt umboð? Í raun eru tvær sveitarstjórnir í gangi á sama tíma, báðar með takmarkað umboð? Ég vil sjá þessa óvissu hverfa.