Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:30:56 (4279)

1998-03-03 15:30:56# 122. lþ. 76.12 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv. 5/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[15:30]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér fer fram 3. umr. um frv. til laga um kosningar til sveitarstjórna. Þetta er að mörgu leyti ágætur lagabálkur að því leytinu til að verið er að framkvæma ýmsar þarfar og sumar mjög löngu tímabærar breytingar á þessum lögum. Hitt er annað mál að enn kunna að vera ýmsir hnökrar á sem þörf verður að leiðrétta síðar, eins og fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á brtt. sem minni hluti félmn. leggur fram og lýtur að því að tryggja og treysta leynilegar kosningar í landinu, en tillaga okkar hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Skráning kjósenda sem neyta atkvæðisréttar er þó ávallt óheimil af hálfu umboðsmanna eða fulltrúa þeirra.``

Þessi brtt. er í ætt við lagafrv. sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur ítrekað flutt á Alþingi og gengur út á að koma í veg fyrir að fulltrúar stjórnmálaflokkanna eigi lögvarða kröfu til að hafa eftirlit með kjósendum, þ.e. hvort þeir greiði atkvæði, hvenær þeir greiða atkvæði og skrá það niður á kjörstað.

Njósnir á kjörstað finnst mörgum stríða gegn því yfirlýsta markmiði, sem auk þess er bundið í lög, að kosningar séu leynilegar því það er afstaða í sjálfu sér hvort fólk fer yfirleitt á kjörstað. Sú staðreynd að mörgu fólki finnst óaðgengilegt og slæmt að á kjörstað séu fulltrúar stjórnmálaflokka sem skrái niður þegar það kemur til að greiða atkvæði, er næg ástæða í sjálfu sér til að afnema þetta eftirlit stjórnmálaflokkanna, ella þyrftu að koma önnur og gild rök. Þau rök virðast hins vegar vera vandfundin. Ég lít á þá staðhæfingu að um sé að ræða nauðsynlegt eftirlit með því að kosningarnar fari heiðarlega fram sem hreinan og kláran fyrirslátt.

Sönnunarbyrðin þykir mér liggja hjá þeim sem vilja lögbinda heimild stjórnmálaflokka til að hafa eftirlit af þessu tagi á kjörstað. Ef menn telja sig ekki rísa undir þeirri sönnunarbyrði og vilja standa vörð um einstaklinginn, friðhelgi einstaklingsins og leynilegar kosningar, þá greiða þeir atkvæði með þessari brtt. minni hluta félmn.