Kosningar til sveitarstjórna

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 15:40:44 (4282)

1998-03-03 15:40:44# 122. lþ. 76.12 fundur 225. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (heildarlög) frv. 5/1998, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Hér er um tæknilegar breytingar að ræða eins og hv. þm. sagði. En frv. til laga um kosningar til Alþingis gengur væntanlega annaðhvort til hv. allshn. eða þá til lausanefndar um kosningalögin. Það gengur áreiðanlega ekki til hv. félmn. þó að hún sé alls góðs makleg. Það verða því aðrir sem fjalla um þetta og við höfum út af fyrir sig enga tryggingu fyrir því að lög um kosningar til Alþingis verði samhljóða þessu lagafrv. En aðalatriðið er að hafa skýr lög og framkvæmanleg til að standa að kosningum til sveitarstjórna í vor.

Varðandi þetta með kjörkassana þá hef ég ekki sterkar skoðanir á því nema að ég held að vanda þurfi mjög til allrar meðferðar kjörgagna. En jafnvel þó að það kosti líkamlegt erfiði fyrir lögregluna að snúast með kjörkassana þá held ég að við eigum að kappkosta að hafa þetta vandað. Nú þekki ég ekki kjörkassa Þjóðverja en mér skilst að þetta sé nú dálítið í öskutunnustílnum og úr plasti og ekki alveg eins traustvekjandi eins og okkar gömlu, þungu, úreltu kjörkassar. (KÁ: Mjög fallegir.)