Hollustuhættir

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 16:54:08 (4291)

1998-03-03 16:54:08# 122. lþ. 77.1 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[16:54]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka heldur hlýleg orð hv. þm. sem talaði síðast í garð þess sem hér stendur nú, en læt liggja milli hluta mat hans og álit á öðrum þingmönnum og reyndar á öðrum mönnum utan þings einnig enda er það hans mál að sjálfsögðu. Ég vísa til fyrri svara minna við þeim spurningum sem hann bar hér fram. Sveitarstjórnir þurfa auðvitað að koma sér saman um fjölmörg verkefni að loknum sveitarstjórnarkosningum eins og hér er gert ráð fyrir, þ.e. að sveitarstjórnir komi sér saman um --- fleiri en ein og fleiri en tvær --- kosningu fulltrúa í þessa nefnd eins og margar aðrar nefndir sem sveitarfélög þurfa að tilnefna sameiginlega í. Ég hygg að flestir þingmenn þekki fjölmörg dæmi þess og sama á auðvitað við um náttúruverndarnefndirnar.

Það sem ég sagði um atvinnurekendurna áðan var að ef engin samtök atvinnurekenda væru á viðkomandi heilbrigðisnefndarsvæði, þá yrði leitað eftir því við samtök vinnuveitenda að þau hlutuðust til um það hvernig yrði staðið að því máli. Ég lýsi engri sérstakri ánægju með það eða fagna því ekkert sérstaklega að það verði mitt hlutverk að reyna að koma slíkum samtökum á í hverju einasta kjördæmi eða hverju svæði heilbrigðisnefnda. Það er hins vegar mál sem samtök vinnuveitendanna verða kannski að huga að fyrir sína parta. Ég mun leita eftir því að þau hlutist til um það að tilnefningar komi frá atvinnurekendum í þessar nefndir eins og rætt var um við þá við gerð frv. á sínum tíma eins og ég hef áður gert hér grein fyrir.