Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 17:01:59 (4293)

1998-03-03 17:01:59# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[17:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum. Frv. er 480. mál og er að finna á þskj. 815. Tillögur sem er að finna í frv. byggjast á niðurstöðum nefndar sem skipuð var fulltrúum fjmrn., heilbrrn., dómsmrn. og viðskrn. um nýja skipan í áfengis- og tóbaksmálum en nefnd þessi starfaði á síðasta ári. Í nefndinni sátu aðstoðarmenn viðkomandi ráðherra.

Tillögur þær sem nefndin setti fram miðuðu m.a. að því að eftirlit með dreifingu og markaðssetningu áfengis hér á landi verði aukið og spornað verði við neyslu áfengis og henni stýrt með gjaldtöku á viðkomandi vörur. Þessar tillögur koma fram í frv. því sem hér er mælt fyrir svo og öðrum frv. sem lögð hafa verið fram á Alþingi en þar er um að ræða frv. til nýrra áfengislaga en fyrir því mun hæstv. dómsmrh. væntanlega mæla á morgun, frv. til laga um breytingu á lögreglulögum sem sömuleiðis heyra undir dómsmrn. og loks frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð sem nýlega var sent til 2. umr. og viðkomandi hv. þingnefndar. Þessi þrjú frv. eru unnin samhliða af sömu mönnum.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í umræddum frv. eru í fyrsta lagi að rekstur áfengisútsala verði háður eftirliti og sambærilegum skilyrðum og rekstur vínveitingastaða. Í öðru lagi að leyfisveitingar vegna innflutnings og heildsölu áfengis, svo og yfirumsjón eftirlits með allri verslun með áfengi, verði á vegum lögregluyfirvalda. Jafnframt verði leyfi til rekstrar vínveitingahúsa og áfengisútsala háð samþykki viðkomandi sveitarstjórnar. Í þriðja lagi að áfengi verði flokkað í þrjá flokka, þ.e. öl, létt vín og annað áfengi, og að tekið verði upp mishátt áfengisgjald eftir flokkum.

Í frv. því sem hér er mælt fyrir er lagt til að áfengi verði flokkað í þrjá meginflokka við ákvörðun áfengisgjalds. Þar er um að ræða í fyrsta lagi öl, í öðru lagi vín og aðrar gerjaðar drykkjarvörur að hámarki 15% að styrkleika og í þriðja lagi annað áfengi. Tilgangurinn með slíkri flokkun er að löggjafarvaldinu sé kleift að beita mismunandi gjaldtöku á einstaka flokka áfengis og hafa þannig áhrif á neysluna --- á verð og neyslu og beina henni frá þeim vörum sem út frá áfengisvarnasjónarmiðum þykja skaðlegri en aðrar.

Neyslustýringu af þessu tagi hefur verið beitt í ýmsum nágrannaríkjum okkar.

Ekki er lögð til breyting á gjaldi af öli að þessu sinni. Hins vegar er lagt til að áfengisgjald af víni, sem í daglegu tali er kallað léttvín, lækki um 10% frá því sem nú er, þ.e. fari úr 58,70 kr. í 52,80 kr. á hvern sentilítra af vínanda í hverjum lítra áfengis. Gert er ráð fyrir að gjaldfrelsismörk, þ.e. 2,25 sentilítrar af vínanda í hverjum lítra áfengis verði óbreytt á víni. Áætlað er að útsöluverð á algengum tegundum af rauðvíni muni lækka um 5--6% við þessa lækkun á áfengisgjaldinu, svo dæmi sé tekið.

Af öðru áfengi en öli og víni er gert ráð fyrir að gjaldið lækki lítillega á hvern sentilítra af vínanda í hverjum lítra áfengis eða úr 58,70 kr. í 57,50 kr. Hins vegar mun gjaldið leggjast á allt vínandamagn áfengisins, þ.e. að núverandi gjaldfrelsismörk sem eru 2,25 sentilítrar af vínanda í hverjum lítra áfengis falli brott. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að sú breyting muni leiða til nokkurrar hækkunar á áfengi. Hækkunin yrði mest á veiku áfengi, til að mynda áfengisblöndum og áfengum gosdrykkjum en með auknum styrkleika áfengis dregur úr áhrifum breytingarinnar.

Ég vil taka fram í þessu sambandi fyrir þá sem ekki þekkja til, að fyrir stuttu hófst innflutningur á gosdrykkjarvörum sem eru blandaðar áfengi, og miðað við það kerfi sem við notumst við til að verðleggja áfengismagnið, þá sluppu þessar tegundir betur en aðrar.

Áætlað er að áfengisgjald hækki um 60--90 kr. á hverja flösku af flestum tegundum áfengis. Gera má ráð fyrir að útsöluverð á algengum tegundum af vodka hækki um 3--4%. Þeirri breytingu er í fyrsta lagi ætlað að leiðrétta þá röskun er gjaldfrelsismörk, sem ég nefndi áður og eru 2,25%, þykja hafa á gjaldtöku af brenndu áfengi í þeim tilvikum sem áfengi hefur verið blandað með gosdrykk eða ávaxtasafa, en við það verður hlutfallslega stór hluti vínandamagns undanþeginn gjaldi.

Í annan stað þykir æskilegt út frá áfengisvarnasjónarmiðum að beina neyslu frá slíkum drykkjarvörum.

Í frv. er lagt til að gjald af áfengi sem flutt er inn til eigin nota verði hið sama og af áfengi sem er flutt inn í atvinnuskyni, þ.e. til endursölu. Samkvæmt gildandi lögum reiknast gjald af áfengi sem flutt er inn til eigin nota sem tiltekin fjárhæð á hvern lítra vörunnar. Gjaldið er óháð styrkleika þegar um öl eða vín er að ræða en af öðru áfengi hækkar gjaldið í þrepum við aukinn styrkleika. Mismunandi gjaldtaka af áfengi sem flutt er inn í atvinnuskyni annars vegar en til eigin nota hins vegar hefur haft í för með sér að umtalsverður munur er í mörgum tilvikum á gjaldtöku af sams konar vöru eftir því hvort hún er flutt inn til landsins í atvinnuskyni eður ei. Æskilegt þykir að samræma gjaldtökuna að þessu leyti.

Hvað varðar áhrif fyrrgreindra breytinga á tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi er gert ráð fyrir að lækkun á áfengisgjaldi af víni dragi úr tekjum ríkissjóðs um allt að 70 millj kr. á ári. Breyting á gjaldtöku af öðru áfengi en öli og víni leiðir á hinn bóginn til hækkunar á gjaldi af áfenginu. Ljóst er að tekjur ríkissjóðs munu aukast nokkuð við þá breytingu og má ætla að sá tekjuauki geti numið um 100--120 millj. kr. allt eftir því hve mikil áhrif þessi verðbreyting hefur. Í heildina má því gera ráð fyrir að tekjuaukning vegna breytinga á fjárhæð áfengisgjalds muni nema um 30--50 millj. kr.

Í frv. er gert ráð fyrir að 0,3% af gjaldi af áfengi sem flutt er inn til sölu eða vinnslu eða sem svarar um 15 millj. kr. renni til áfengiseftirlits lögregluyfirvalda. Þeirri fjárhæð er ætlað að standa straum af nýjum verkefnum sem lögregluyfirvöldum er ætlað að sinna vegna áfengiseftirlits, m.a. eftirliti með birgðageymslum áfengisheildsala og sölu og dreifingu áfengis í vínveitingahús.

Í gildistökuákvæði frv. er kveðið á um brottfall laga nr. 58/1970, um skemmtanaskatt. Skemmtanaskattur hefur verið innheimtur af veitinga- og samkomuhúsum þar sem vínveitingar eru hafðar um hönd, kvikmyndasýningum og skemmtanahaldi sem aðgangur er seldur af. Skemmtanastarfsemi hefur tekið miklum breytingum frá því að lög nr. 58/1970 tóku gildi á sínum tíma. Veitinga- og samkomuhúsum sem bjóða upp á vínveitingar hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og eru þau jafnframt orðin fjölbreytilegri. Af þeim sökum þykja lög um skemmtanaskatt um margt vera orðin úrelt. Enn fremur eru lögin ekki talin uppfylla kröfur sem nú eru gerðar til skattlagningarheimilda þar sem þau fela ráðherra ákvörðun um skattlagningu. Í því sambandi má minnast á að samkvæmt framkvæmd á lögum um skemmtanaskatt hafa kvikmyndahús greitt skemmtanaskatt önnur en þau sem eru félagsheimili sem samkvæmt þeirri skilgreiningu hafa fengið lán úr Félagsheimilasjóði eða eru rekin á vegum samtaka eins og t.d. Tónlistarfélagsins, sjómannadagsráðs eða Sáttmálasjóðs Háskólans en í þeim tilvikum hefur samsvarandi upphæð og nemur skemmtanaskattinum verið haldið eftir hjá viðkomandi aðilum.

Innheimtur skemmtanaskattur til ríkisins hefur á undanförnum árum verið um það bil 70 millj. kr. á ári. Samkvæmt lögum nr. 58/1970 er skattinum ráðstafað til áfengis- og fíkniefnavarna en einnig rennur hluti hans til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Menningarsjóðs félagsheimila. Með skemmtanaskatti hefur einnig verið innheimt gjald í Menningarsjóð sem hefur verið um 10 millj. kr. á ári.

Frv. gerir ráð fyrir að tekjuaukning vegna hækkunar áfengisgjalds komi að hluta til í stað þeirra tekna sem ríkissjóður hefur haft af skemmtanaskattinum. Miðað er við að þær stofnanir sem notið hafa tekna af skemmtanaskatti samkvæmt fjárlögum fái áfram framlög úr ríkissjóði. Eins og áður segir hafa árlegar tekjur af skemmtanaskatti numið um 70 millj. kr. Auknum tekjum af áfengisgjaldi, sem gert er ráð fyrir að muni nema um 30--50 millj. kr. á ári, er ætlað að vega að hluta til upp tekjutap ríkissjóðs við afnám skemmtanaskattsins. Gera má því ráð fyrir að ríkið tapi nokkrum tugum milljóna á þessari breytingu ef reikningsaðferðir þær sem frv. byggist á standast.

Ég tel rétt, virðulegi forseti, að hér komi fram að mín skoðun hefur verið sú að gera eigi meiri breytingar en hér er lagt til og þá einnig breytingar á öðrum lögum, lögum um verslun með áfengi og áfengislögunum sjálfum. Ég tel að einkarétt ríkisins til innflutnings og heildsöludreifingar á tóbaki eigi að afnema og í stað álagningar ÁTVR á tóbak verði gjald af tóbaki innheimt í tolli á sama hátt og áfengisgjald. Gert er ráð fyrir þeim breytingum í frv. sem ég lagði upphaflega fram í ríkisstjórninni en jafnframt var gert ráð fyrir að gjaldtaka á tóbaki mundi aukast og tóbak þannig hækka í verði. Ég vil taka þetta sérstaklega fram en um það er samkomulag á milli stjórnarflokkanna að leggja frv. fram með því sniði sem hér er en eins og gefur að skilja í samsteypustjórn og þar sem menn ætla að vera saman í hóp verður auðvitað að taka tillit til allra sjónarmiða og fara eins hægt í breytingar og sá sem hægast vill fara.

Enn fremur, virðulegi forseti, var ég hlynntur hugmyndum sem komu fram við undirbúning þessara frv. í undirbúningsnefndinni um að einkaréttur ÁTVR til smásölu á áfengi yrði afnuminn.

[17:15]

Ég taldi eðlilegt að í stað einkaréttar ÁTVR kæmu almennar reglur sem t.d. yrðu notaðar við að veita vínveitingaleyfi hjá þeim sem reka vínveitingastaði og að ekki sé óeðlilegt að sömu reglur gildi um sölu á áfengi út úr búð að degi til. Því miður náðist ekki samstaða um þessar breytingar heldur í hæstv. ríkisstjórn að þessu sinni og því fela tillögur frv. þess sem hér er til umræðu ekki í sér jafnmiklar breytingar í áfengis- og tóbaksmálum og ég hefði talið eðlilegar. Ég tek að sjálfsögðu fram að ég styð frv. eins og það kemur fram nú en taldi rétt að láta þetta heyrast hér vegna þess að ég hef áður úr þessum ræðustól lýst skoðunum mínum á þessum málum og meira að segja tvívegis áður flutt frv. til breytinga á tóbaksmálunum með það í huga að lagt sé á sérstakt tóbaksgjald. Ég vil taka fram í því sambandi af því að nokkur misskilningur er á ferðinni að hvergi á Norðurlöndum er um að ræða einkaleyfi ríkisins til innflutnings og dreifingar á tóbaki. Þar sem það þekkist er það yfirleitt vegna þess að menn eru að verja innlendan tóbaksiðnað eins og t.d. í Frakklandi.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum þessa lagafrv. sem hér hefur verið lagt fram um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, og ég legg til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og 2. umr.