Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 17:47:16 (4296)

1998-03-03 17:47:16# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[17:47]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég held að eftir eigi að láta á það reyna að hvaða marki verði tekið tillit til sjónarmiða Framsfl. í þessu máli. Hið sama gildir reyndar um ýmis önnur sem eru á borði ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um gjald af áfengi. Í frv. eru lagðar til nokkrar breytingar um gjald á áfengi. Talað er um flokkun í þrjá flokka og að upp verði tekið mishátt áfengisgjald eftir flokkum.

Í grg. með frv. er vísað til þess að samhliða fyrirhugaðri lagasetningu eru lögð fram önnur frv. þar sem kveðið er á um ýmsar breytingar í áfengismálum hér á landi. Helstu frv. sem hér er vísað til eru í fyrsta lagi að rekstur áfengisútsala verði háður eftirliti og sambærilegum skilyrðum og rekstur vínveitingastaða. Í öðru lagi að leyfisveitingar vegna innflutnings og heildsölu áfengis og yfirumsjón eftirlits með allri verslun með áfengi verði á vegum lögregluyfirvalda. Jafnframt verði leyfi til rekstrar vínveitingahúsa og áfengisútsala háð samþykki viðkomandi sveitarstjórnar.

Þetta frv. er hluti af annarri lagasmíð og stærri sem ætlað er að taka á skipulagi þessara mála í víðari skilningi en hér er gert. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að eðlilegra hefði verið að ræða þessi mál öll saman og í heild sinni.

Það er ástæða til að vera á varðbergi þegar hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hreyfir við lagasetningu um ÁTVR. Ástæðan er öllum þingheimi kunn. Hún er sú að í allri lagasetningu sem hæstv. fjmrh. hefur staðið fyrir og snertir ÁTVR hefur verið gerð tilraun til þess að grafa undan Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og einkavæða starfsemina. Hæstv. fjmrh. er heiðarlegur maður og leynir hvorki Alþingi né landsmenn þessum ásetningi sínum. Áðan ræddi hann um að hann hefði viljað fara lengra en samstarfsflokkurinn, Framsfl., leyfir honum í þessu efni.

Staðreyndin er sú að af áfengis- og tóbakssölu er mikill ágóði og peningalyktin hefur borist til Verslunarráðs Íslands. Og það er fyrir hagsmunum Verslunarráðsins sem hæstv. fjmrh. fer. Hann gengur erinda Verslunarráðsins í þessu efni. Ég leyfi mér að efast um það að sagan muni dæma hæstv. fjmrh. á hagstæðan hátt þegar hann ræðir um það að fara hratt annars vegar og hægt hins vegar í þessum efnum. Hann sagðist vilja komast hraðar en Framsfl. leyfir honum.

Þegar litið er til þeirra sem eru framsæknastir á þessu sviði, t.d. í Bandaríkjunum, þá reyna menn þar að setja skorður við áfengis- og tóbaksnotkun í miklu ríkari mæli en við erum að gera hér. Á veitingastöðum í New York eru reykingar t.d. bannaðar. Sams konar bann á að taka upp í Kaliforníu, til verndar starfsfólki sem vinnur á veitingastöðum. Ekki einungis hafa menn skoðað heilsufar einstaklinganna heldur tilkostnað samfélagsins í þessu samhengi.

Að mínum dómi er það því mikill misskilningur hjá hæstv. fjmrh. ef hann telur að það að þjóna hagsmunum Verslunarráðsins og einkavæða þessa starfsemi sé að stefna hraðbyri til framtíðar. Þetta er mikill misskilningur. Hann er í forsvari fyrir afturhaldssöm sjónarmið. Í þessu tilviki heldur Framsfl. fram hinum framsæknu sjónarmiðum. Ég fagna því hve fast Framsfl. hefur staðið á málum varðandi tóbakið. Eins og hæstv. fjmrh. sagði þá hefði hann viljað einkavæða alla þá verslun.

Til er tvenns konar fyrirkomulag varðandi dreifingu á áfengi og tóbaki og það eru tvenn sjónarmið sem liggja til grundvallar. Annars vegar það sjónarmið að þetta eigi að tengja heilbrigðisstefnu, reyna að stuðla að aðhaldssemi eða hófsemd eins og segir í 1. gr. frv. sem liggur fyrir Alþingi og kemur að öllum líkindum til umræðu á morgun eða fimmtudag. Í 1. gr. frv. til áfengislaga segir, með leyfi forseta: ,,Tilgangur laga þessara er að miða að hófsemd í meðferð áfengis.`` Hér er um dreifingu og fyrirkomulag á áfengissölu í landinu að ræða. Þetta er sú stefna sem við höfum fylgt á Íslandi.

Hins vegar er til annars konar fyrirkomulag. Það er að fela markaðnum dreifingu á þessari vöru eins og annarri. Einkavæðing þessarar starfsemi er einmitt það sem vakir fyrir hæstv. fjmrh.

Hafa menn einhverjar efasemdir um það að markaðurinn muni standa sig vel í að koma áfengi og tóbaki á framfæri? Nei, síður en svo. Það er ástæða þess að menn hafa efasemdir um að fela markaðnum algjörlega dreifingu á þessum vörum. Markaðurinn yrði duglegri við að troða brennivíni ofan í landsmenn og fá þá til þess að reykja en gert er með því fyrirkomulagi sem við búum við. Þetta er ástæða þess að við höfum þetta á vegum opinberra aðila. Við viljum ekki virkja markaðslögmálin þegar kemur að dreifingu á áfengi og tóbaki.

Hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson talar fyrir markaðsvæðingu þessa og allar götur frá alþingiskosningum árið 1995 hefur hann róið að því öllum árum. Hann byrjaði á því að losa um innflutning á áfengi til landsins. Hér voru haldnar miklar og langar ræður og höfð uppi varnaðarorð. Menn sögðu t.d. að þetta mundi leiða til þess að eftirlit með áfengissölu yrði erfiðara, það yrði torveldara að fylgjast með áfengissölu í landinu.

Öll þessi varnaðarorð hafa gengið eftir. Eftirlit með áfengissölu í landinu er í algjörum molum. Þetta fæst staðfest í svari fjmrn. við fsp. sem ég setti fram fyrir nokkrum vikum síðan og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vísaði í hér áðan.

Þar kemur fram að eftirlit með áfengissölu í landinu er algjörlega í molum. Enda segir í svari hæstv. fjmrh.:

,,Að lokum skal tekið fram í tilefni af fyrirspurninni að um nokkurt skeið hefur verið talið að nauðsyn bæri til að efla og skipuleggja betur eftirlit með dreifingu á áfengi innan lands. Ekki er síst talin þörf á að styrkja þann lagagrundvöll sem eftirlit byggist á og færa það undir lögregluyfirvöld.``

Eftirlitið er í molum og nú eru menn að velta því fyrir sér hvernig þeir geti smíðað nýjar reglugerðir og ný lög til þess að koma á raunhæfu eftirliti með áfengissölu í landinu. Vegna þess að það er alveg rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði um. Hún staðhæfði það reyndar ekki en spurði hvort fjmrh. væri kunnugt um að heildsalarnir væru farnir að selja áfengi yfir borðið, ekki aðeins til veitingahúsa, heldur til annarra kúnna. Hún spurði hvort fjmrh. væri kunnugt um að þetta væri gert.

Í svari fjmrn. kemur fram að þörf sé á að gera stórátak í þessum efnum. Það þarf að virkja lögregluna, smíða nýjar reglugerðir og hugsanlega setja ný lög. Og hvers vegna? Vegna þess að það sem við vöruðum við vorið 1995 reyndist rétt. Sú breyting sem þá var gerð var að okkar áliti til þess að eftirlitið færi í mola. Og það hefur gerst. Þetta var mjög einfalt mál hér áður fyrr. Hver einasta brennivínsflaska sem kom til landsins var merkt. Hver einasta flaska sem fór inn á veitingastað hafði þetta merki. Ef hún hafði það ekki þá var það smygl.

Nú er ekkert hægt að fylgjast með þessu. Það er hægt að senda lögregluna á staðinn og hugsanlega hægt að smíða nýjar reglugerðir og ný lög til að koma böndum yfir þessa starfsemi. Hér í svari fjmrn. er viðurkennt að þörf sé á slíku. Eftirlit með áfengissölu í landinu er í molum. Varnaðarorð okkar reyndust rétt.

[18:00]

En það er ekki nóg með þetta. Fyrir því eru engin takmörk hve langt hæstv. fjmrh. hefur reynst viljugur að ganga til að torvelda starfsemi ÁTVR og grafa undan þeirri stofnun. Gera menn sér t.d. grein fyrir því, þegar verið er að tala um það hér í greinargerð með frv. að það sé þörf á að rýmka möguleika sveitarfélaga og landsbyggðarinnar til að fá útsölur, að það er hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson sem staðið hefur í vegi fyrir því? Gera menn sér grein fyrir því að hann hefur staðið í vegi fyrir því að ýmsir staðir á landsbyggðinni fengju áfengisútsölur? Gera menn sér almennt grein fyrir þessu? Til hvers halda menn að þetta sé gert? Það er til að sverta þessa starfsemi og þessa stofnun. Til þess að fá fólk andvígt henni, til að snúa landslýð gegn stofnuninni þannig að Verslunarráðið fái betur komist yfir þessa starfsemi. Þetta er ástæðan fyrir þessu og hverjir skyldu það vera sem vilja rýmka hér um? Það er sá sem hér stendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og við munum tala fyrir okkar frv. á fimmtudag eða föstudag. Það er hæstv. fjmrh. sem hefur staðið í vegi fyrir sjálfsögðum réttindum landsbyggðarinnar í þessu efni.

En það er ekki nóg með þetta --- og nú ætla ég að gerast nokkuð stóryrtur. Hæstv. fjmrh. hefur skipað stjórn sem er sett til höfuðs ÁTVR. Þetta eru stór orð en ég stend við þau. Á einum fyrsta fundi sem boðað var til með starfsmönnum stofnunarinnar var greint frá því að til stæði að leggja þessa starfsemi niður. Þetta er enginn einfaldur rekstraraðili. Þetta er aðili sem lítur á sig með pólitískt hlutverk, enda hefur oft verið vísað til þess að þar sé farið að vilja hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar um að einkavæða starfsemina. Og nú síðast hefur það fengist staðfest eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að áðan og vitnaði í fundargerð með verkstjórum ÁTVR þar sem segir að sú endurskoðunarnefnd sem á að skoða reglugerðir um ÁTVR eigi að athuga hversu nýta megi heimildir laga um ÁTVR og laga um fjárreiður ríkisins til að losa um þau verkefni sem ÁTVR hefur nú með höndum. Auðvitað var það þetta sem vakti fyrir þeim þegar þeir festu í lög, í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, heimildarákvæðið sem við ræddum hér nokkur úr þingflokki Alþb. og óháðra og vöruðum við því að gefa hæstv. fjmrh. heimild til að ráðskast með eigur ríkisins með þeim hætti sem hann ætlar að reyna að gera.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á að ummæli formanns fjárln. og varaformanns fjárln. væri að finna sem gæfu tilefni til að ætla að hæstv. fjmrh. kæmist ekki upp með þetta. Það er vonandi að svo sé. Það er þetta sem ég á við þegar ég sagði í upphafi máls míns að vonandi reynist hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sannspá um það að Framsfl. geti staðið í vegi fyrir þeim áformum hæstv. fjmrh. að einkavæða ÁTVR bakdyramegin. Það er það sem verið er að reyna að gera. Það er ekkert einsdæmi að Sjálfstfl. skipi nefndir til höfuðs stofnunum, það hefur oft gerst. Iðulega hafa verið settir í útvarpsráð fulltrúar peningafrjálshyggjunnar sem hafa viljað Ríkisútvarpið feigt, hafa helst viljað leggja það niður. Þeir eru settir í stjórn slíkra stofnana. Þetta er fullkomið siðleysi að sjálfsögðu af hálfu ráðherra sem gera slíkt og af hálfu þeirra einstaklinga sem taka þessi verkefni að sér, en þetta hefur gerst varðandi ÁTVR. Þar hefur verið skipuð stjórn til höfuðs starfseminni og hún hefur lýst því yfir að það sé verkefni sitt að leggja starfsemina niður. Gera menn sér grein fyrir því að stjórn stofnunar sem maður mundi ætla að leitaði álits innan stofnunar um hvað væri eðlilegt og heppilegt, jákvætt og neikvætt, leitar allt annað? Þessi stjórn leitar allt annað. Hún leitar fyrst til brennivínssalanna og tóbaksinnflytjendanna. Síðan er hlustað á rödd starfsfólksins, ef yfirleitt er hlustað á þá rödd. Þetta er nú ástæðan fyrir því að við hefðum viljað að þessi umræða héngi öll í einni spyrðu og væri skoðuð í heild sinni. Vegna þess að ekki er nóg að taka á þessum lagafrv. sem slíkum. Það verður að fylgjast með því hvað gerist milli þinga. Ég hvet fulltrúa Framsfl. við þessa umræðu, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, til að ganga eftir upplýsingum um þetta. Hvort það sé virkilega rétt sem fram hefur komið í opinberum gögnum og vitnað er til, að búið sé að fela nefnd manna að leita leiða til að einkavæða þessa starfsemi. Það er verkefni hennar. Þetta eru því hlutir sem við þurfum að fá alla upplýsta áður en þessari umræðu lýkur, en mér finnst eðlilegt að við umræðu um önnur frv. sem tengjast þessum málum og heyra undir dómsmrh. verði hæstv. fjmrh. einnig viðstaddur. Það er ekki nóg að afnema eftirlitið eins og hefur verið gert og segja síðan bara: Þetta er mál lögreglunnar og mál reglugerðasmiða og lagasmiða, mér kemur þetta ekki lengur við. Á meðan hefur sest að störfum nefnd manna sem hefur verið falið að koma þessari stofnun fyrir kattarnef.