Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:23:37 (4298)

1998-03-03 18:23:37# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég minnast á það sem ég spurði hæstv. ráðherra um varðandi áfenga gosdrykki eða ávaxtasafa. Það kann að vera minni vandi eða minni hætta á ferðum þegar um er að ræða léttvínsblöndur sem þynntar hafa verið með gosdrykkjum eða ávöxtum. Út af fyrir sig held ég að það breyti ekki öllu hvernig vínandinn er upprunninn ef varan er að mestu leyti sambærileg. Ég endurtek það að ég tel ástæðu til að hafa varann á sér miðað við reynslu nálægra þjóða af þessum nýja og skeinuhætta vímugjafa

Í öðru lagi fullvissaði hæstv. ráðherra okkur um að ekki stæði til að brjóta fjárreiðulögin. Í heild fannst mér hæstv. ráðherra reyna að gera lítið úr þessu endurskoðunarstarfi eða nefndarstarfi. Hann gaf til kynna að þetta væri reglugerðarvinna í góðu samstarfi við starfsmenn og forstjóra stofnunarinnar. Ef svo er og engar grundvallarbreytingar eða strúktúrbreytingar standa til í rekstrarfyrirkomulagi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þá er málið í góðu lagi. Ég hef þá ekkert út á það að setja og vona að ég megi án andmæla gefa mér það sem niðurstöðu af svörum hæstv. ráðherra.

Í þriðja lagi, í sambandi við stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, er það að vísu rétt að tillaga um hana kom ekki í sjálfu stjfrv. Hins vegar var hv. þm. Vilhjálmur Egilsson mikill áhugamaður um að koma þessari stjórn inn og hafði vitanlega samráð við hæstv. fjmrh. um að gera þá tillögu. Hér skiptir þó mestu máli sá rökstuðningur fyrir stjórninni sem kynntur var hv. þingmönnum. Sagt var að hér væri eingöngu á ferðinni rekstrarleg og fagleg stjórn. Annað hefur síðan komið á daginn í framkvæmdinni eða annað hefur orðið upp á teningnum og það er gagnrýni vert. Ég held að þar hafi hæstv. fjmrh. náttúrlega haft heilmikil áhrif enda hefur hann ekki neitað því að stjórnin hafi verið framlenging á sér. Stjórnin hefur verið armur hans og unnið samkvæmt fyrirmælum frá honum.