Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:32:25 (4302)

1998-03-03 18:32:25# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Út af síðustu fyrispurninni sem kom fram hjá hv. þm. þá stendur það alveg örugglega ekki til, a.m.k. ekki á þessu ári, því að það væri ekki löglegt eins og hefur komið fram. Ég get ekki útilokað að það geti gerst einhvern tíma síðar enda finnst mér munurinn vera harla lítill orðinn á því hvort samið er við einkaaðila á ábyrgð ríkisins áfram, ég tek það fram, á ábyrgð ríkisins því hún hverfur ekki, eða hvort samið er um það við mann að hann verði starfsmaður í hálfu opinberu starfi til þess að geta gert nákvæmlega sama hlutinn. Það er önnur saga.

Varðandi það að EES-reglurnar hafi ekki krafist þess að við gerðum breytingar sem voru gerðar á sínum tíma, það var nú aldeilis þannig. Ég vitna bara til ágæts manns, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem reyndist hafa rétt fyrir sér í þeim efnum. Hv. þm. getur lesið ræðu hans sem var flutt á sínum tíma þegar við vorum að ræða um EES-samninginn.

Þegar ég talaði um Ragnar Reykás var ég að segja að mér fyndist málflutningur hv. þm. vera eins og hjá Ragnari Reykás. (ÖJ: Ég hélt að þú værir að tala um sjálfan þig.) Nei, það er bara einn sem misskilur það, enda skil ég af hverju hann misskilur það. Það er vegna þess að hann tók ekki eftir því sjálfur þegar hann stóð í ræðustólnum að hann hamaðist á mér fyrir það að ganga erinda Verslunarráðsins og segja: Og hann er að auka framboð á brennivíni, þessi maður, hann gengur erinda Verslunarráðsins. Það er annað en við, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Við ætlum að tala á morgun um okkar mál og það ætlum við að gera. Við ætlum að fjölga þessum sjoppum út um allt land þannig að allir geti fengið nóg af þessu brennivíni. Við ætlum að auka framboðið.

Þetta kalla ég að vera eins og Ragnar Reykás og þetta er dæmigert um allan tvískinnunginn sem er í umræðunni.