Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 18:36:29 (4304)

1998-03-03 18:36:29# 122. lþ. 77.4 fundur 480. mál: #A gjald af áfengi# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[18:36]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum aðeins doka við og átta okkur á því hvað sá sem hér stendur hefur sagt í málinu um þá stefnu sem hann fylgir. Það er ósköp einfaldlega það að ég tel, og ég er í minni hluta í þessum þingsal hugsa ég, en ég tel að sömu reglur eigi að gilda um opnun áfengisútsölustaða og um vínveitingarekstur í landinu. Ég tel að lögregluyfirvöld á staðnum og sveitarstjórnir á staðnum eigi að hafa um þetta mál að segja en ekki fjmrh. sem situr í Arnarhvoli. Þetta er það sem ég hef sagt og ef hv. þm. heldur að allar sveitarstjórnir í landinu og lögregluyfirvöld ætli að troða brennivíni inn í allar mjólkurbúðir á landinu er ég honum ekki sammála. Um þetta snýst málið.

Ég lenti í þeirri lífsreynslu að ágætur maður sem sat á Alþingi um skeið, fulltrúi flokks sem er horfinn af sjónarsviðinn, nákominn ættingi eins þeirra sem hér eru í salnum hringdi í mig og hótaði að kæra mig fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Hann býr á Raufarhöfn og hann sagði: Hvernig stendur á því að hægt er að opna tvo bari hér á staðnum en ég verð að fara til Húsavíkur til að kaupa brennivín? Ég tek alveg undir þetta. Þetta er tvískinnungurinn hjá okkur. Ég held að okkur væri nær að horfa svona á efni málsins en að gera mönnum ekki upp skoðanir. Ég hef ekki lagt til að þetta færi inn í allar búðir. Það eina sem ég hef sagt er að ég tel að yfirvöld á viðkomandi stað eigi að ráða þessu en ekki karlinn í Arnarhvoli. (ÖJ: Ráðherrann stendur gegn því að þeir fái vilja sínum framgengt.) Það er alrangt hjá hv. þm. Það eru lögin sem segja að það megi ekki opna þetta á Raufarhöfn vegna þess að það er innan við þúsund íbúa staður.