Fjarstörf og fjarvinnsla í ríkisrekstri

Þriðjudaginn 03. mars 1998, kl. 19:08:37 (4307)

1998-03-03 19:08:37# 122. lþ. 77.9 fundur 403. mál: #A fjarstörf og fjarvinnsla í ríkisrekstri# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 122. lþ.

[19:08]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um fjarstörf og fjarvinnslu í ríkisrekstri. Tillagan gengur út á það að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli með því að innleiða með markvissum hætti ,,fjarstörf`` og ,,fjarvinnslu`` í ríkisrekstri.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að fábreytni atvinnulífs í dreifbýlinu er ein af meginorsökum þess að fólk leitar út fyrir sitt heimasvæði eftir atvinnu. Sérstaklega á þetta við um fólk sem aflað hefur sér langskólamenntunar og fær ekki vinnu í heimabyggð sem það telur í samræmi við þá menntun sem það hefur aflað sér.

Menn hafa reynt á undanförnum árum að flytja ríkisstofnanir út á land með mjög misjöfnum eða nánast litlum árangri held ég að ég megi segja. Þær tillögur sem upp hafa komið um flutning ríkisstofnana hafa mætt mikilli andstöðu þess fólks sem unnið hefur í þessum stofnunum og síðan hafa þau sjónarmið komið upp að það sé að mörgu leyti hagstæðara fyrir íbúa dreifbýlisins að geta farið í margar ríkisstofnanir með erindi á sama tíma á sama stað í staðinn fyrir að þurfa að sækja og rækja þau erindi víða um landið. Allt eru þetta sjónarmið sem eiga rétt á sér þó að ég hafi vissulega stutt það í gegnum tíðina að ríkisstofnunum væri dreift um landið.

Á seinustu árum hefur hins vegar orðið gjörbreyting í þeirri tækni sem unnt er að nota til þess að eiga samskipti manna á milli og til þess jafnframt að vinna á mismunandi stöðum þó menn séu að vinna að sama verkefni.

Við vitum að framboð á störfum hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum er langmest á höfuðborgarsvæðinu þó svo viðkomandi stofnunum sé ætlað að þjóna landinu í heild. Langflest þeirra nýju starfa sem verða til hjá ríkinu verða til á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu þessarar nýju tækni sem er tölvutækni og ýmiss konar önnur háþróuð tækni er nú orðinn lítill vandi að hafa fólk sem er að vinna að sama verkefni staðsett hvert á sínu horni landsins, jafnvel í sínu landinu hvert.

Tillagan sem hér er flutt miðar að því að innleiða í ríkisrekstri svonefnd fjarstörf sem gengju þá út á það að ríkisvaldið mundi skilgreina ákveðin störf eða ákveðinn fjölda starfa sem til eru hjá ríkinu sem fjarstörf og mundi auglýsa þau störf sem slík. Þannig mætti hugsa sér svo dæmi sé tekið skiptiborð Stjórnarráðsins, að ekkert er því til fyrirstöðu að þeirri þjónustu væri sinnt annars staðar frá, t.d. Patreksfirði eða Flateyri, að þar væri skiptiborð Stjórnarráðsins og þar sæti fólk og ynni við það að svara í síma fyrir Stjórnarráðið.

Þegar ég vann í Stjórnarráði Íslands man ég eftir því að maður hafði oft á dag samband við skiptiborð en ég man aldrei eftir því þau tíu eða tólf ár sem ég var þar að hafa nokkurn tíma hitt það ágæta fólk sem þar vann. Með þeirri háhraðatækni sem er til í dag þá skiptir litlu máli hvar viðkomandi situr þegar hann er að sinna slíkri þjónustu.

En ég hef þó meira í huga með fjarstörfum. Hægt væri að auka fjölbreytnina til annars konar starfa. Hægt væri að bjóða upp á störf sem almennt byggjast á háskólamenntun víða um land. Hugsun mín er sú að ríkisstofnanir auglýsi hluta af sínum störfum sem störf sem sinna megi í fjarvinnslu. Þá mundi sá sem fengi það starf geta unnið það heiman frá sér gegnum tölvu, fax og síma. Svo má einnig hugsa sér að sveitarfélög úti á landi komi upp aðstöðu þar sem þeir sem sinna fjarstörfum mæti til vinnu að morgni og vinni þar sína vinnu í gegnum fjarskipti við sjálfa ríkisstofnunina, sjálft fyrirtækið, hvar sem það er statt á landinu.

Það er ljóst að fjarstörf færast mjög í vöxt víða um heim. Víða erlendis hvetja vinnuveitendur starfsmenn sína til að sinna störfum sínum heima til þess að minnka umferð og til þess að gera störfin fjölskylduvænni. Og það er ljóst að þetta er mjög vinsælt hjá þeim sem búa við þessa tilhögun.

Í Danmörku var nýlega gerð Gallup-könnun um vilja Dana til þess að vinna heima. Í blaði ASÍ, Vinnunni, var greint frá þessu og þar sagt að sjötti hver Dani vinni heima með aðstoð tölvutækni. Í skoðanakönnuninni kemur fram að flestir eða 48% þeirra sem spurðir voru sögðu ástæðuna fyrir því að þeir vildu vinna heima vera frelsi til þess að ráða vinnutíma sínum sjálfir. 6% nefndu barnagæslu og 23% nefndu sparnað í ferðakostnaði. Áður fyrr var verkalýðshreyfingin í Danmörku á móti því að menn færu mikið yfir í fjarstörf en nú hefur viðhorfið breyst mjög og á árinu 1997 er vitað að yfir ein milljón danskra launþega hafði ákvæði um fjarstörf í kjarasamningum sínum.

Ég teldi það vera farsælt markmið ef menn fikruðu sig yfir í fjarstörf sem yrði þá sinnt í byrjun utan Reykjavíkur og auglýst sem slík, fikruðu sig yfir í þetta t.d. þannig að í upphafi væru auglýst tvö ný fjarstörf í hverju kjördæmi landsins og þetta væri gert strax í ár. Að ári liðnu yrði metið hvernig til hefði tekist með það síðan í huga að árið á eftir væru ekki færri en 2% allra opinberra starfa auglýst sem fjarstörf sem hægt væri að vinna hvar sem er á landinu. Ég sé það fyrir mér að í lok ársins 2007 væri ekki fráleitt að um 5% allra opinberra starfa væru fjarstörf sem hægt væri að vinna fjarri þeirri stofnun eða fyrirtæki sem í hlut ætti.

[19:15]

Ég er alveg sannfærður um að með því einu og sér að ríkið bjóði upp á fjarstörf getum við leyst stóran þátt í þeim hvata sem hefur verið í dag fyrir menntað fólk til þess að flytja sig til höfuðborgarsvæðisins.

Í skýrslu, sem kom út í nóvember 1997 og heitir Búseta á Íslandi, rannsókn á orsökum búferlaflutninga, sem unnin er af Stefáni Ólafssyni segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þegar á allt er litið þá eru það atvinnumál og menntun ásamt almennu mati á lífsgæðum sem virðast skipta mestu máli sem ástæða búferlaflutninga, bæði fyrir það fólk sem flutt hefur á sl. árum og fyrir þá sem segjast ætla að flytja milli byggðarlaga á næstu missirum. Hvað atvinnumálin snertir þá er það ekki síður fjölbreytileiki atvinnutækifæranna en atvinnuöryggi eða tekjumöguleikar sem máli skipta.``

Ég er sannfærður um að fjarstörfin eru einfaldasta og ódýrasta leiðin fyrir ríkisvaldið til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Auðvitað koma þar fjölmörg önnur atriði til eins og samgöngur og slíkt, en við erum hér að fjalla um atvinnumál. Það er vissulega hætta á því að fólki mun þykja einmanalegt að vinna alla vinnu heiman frá sér og fara ekki á vinnustað, en það má vissulega mæta því með því að sveitarfélög komi upp aðstöðu fyrir fólk sem vill vinna fjarstörf, þar sem það gæti komið saman. Við gætum hugsað okkur að þar ynnu 10--15 manns, hver fyrir sitt fyrirtæki eða sína ríkisstofnun, allir mættu til vinnu að morgni vinnandi hver við sitt verkefni en engu að síður liti þetta út eins og einn vinnustaður þar sem menn ættu þau mannlegu samskipti við aðra sem við teljum snaran þátt í okkar daglega vinnuumhverfi.

Ég vil hvetja hæstv. forsrh. til að taka frumkvæði í þessu máli hér á landi með því að gera tilraun með fjarvinnslu. Það er rétt að vekja athygli á því að Alþingi hefur þegar ákveðið að láta hefja fjarvinnslu á ýmsum skjölum sem Alþingi þarf að láta vinna. Það er tilraunaverkefni sem er í gangi á vegum Alþingis. Það sem ég tala hér fyrir, þ.e. fjarstörfin, er víðtækara og nær til hvers konar starfa þar sem þess er ekki krafist að menn eða konur sitji eða standi á ákveðnum stað á ákveðnum tilteknum tíma. Þetta er að mínu mati og ég ítreka það einfaldasta og ódýrasta leiðin til þess að auka fjölbreytni starfa í dreifbýli.