Umfjöllun um skólastarf

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 13:34:18 (4309)

1998-03-04 13:34:18# 122. lþ. 78.1 fundur 455. mál: #A umfjöllun um skólastarf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Haustið 1996 spurði ég hæstv. menntmrh. um tilgang þess að birta öðrum en skólayfirvöldum, nemendum og forráðamönnum þeirra niðurstöður samræmdra prófa í grunnskólum. Þá lá fyrir að sett yrði reglugerð sem heimilaði slíkt. Í svari menntmrh. kom fram að tilgangurinn væri m.a. sá að gera umræðu um niðurstöður samræmdra prófa markvissari en verið hefur. Einnig kom fram það mat að birting niðurstaðnanna fyrir einstaka skóla leiddi til opinnar umræðu um skólana og gæti leitt til umbóta í skólastarfi ef nægjanlegra skýringa væri leitað. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra:

Hvað hefur verið gert til að auka umræðu um skólastarf og stöðu einstakra grunnskóla eða skólasvæða eftir að farið er að birta niðurstöður samræmdra prófa? Og einnig: Hvaða leiðir telur ráðherra færar til að auka umfjöllun um skólastarf í kjölfar birtingar á niðurstöðum samræmdra prófa svo að auknar upplýsingar leiði til þeirra umbóta í skólastarfi sem vænst er?

Ég spyr, herra forseti, vegna þess að mér fannst opinber umræða ekki nógu markviss og ekki skila nægjanlega miklu þegar niðurstöðurnar voru birtar.

Fréttaefnið þann daginn var hver væri bestur og hver verstur eins og um íþróttakeppni væri að ræða. Verulega skorti á að kafað væri nægjanlega í niðurstöðurnar í leit að skýringum. Markviss umræða var ekki til staðar. Svara var ekki leitað við spurningum, t.d. um það hvort þeir skólar sem verr komu út ættu eitthvað sameiginlegt eða eitthvað væri sameiginlegt í umhverfi þeirra. Skiptir fjöldi nemenda í skólum eða bekkjum máli eða hverjir virtust kostir litlu skólanna í dreifbýlinu vera og hverjir voru kostir hinna stóru í þéttbýlinu? Hvaða máli skiptir foreldrastarfið?

Þetta er dæmi um nálgun en kallar í raun eftir umfjöllun sem gæti gert okkur ýmsa kosti og galla skólakerfisins betur í ljósa. Við gætum lært af þeim og brugðist við eftir atvikum.

Ýmis sveitarfélög hafa skoðað og skilgreint skóla sína til að bæta starfið. Þau hafa leitað ráðgjafar víða svo vel megi til takast. Í þeim sveitarstjórnum og sveitarfélögum er væntanlega í gangi umræða sem mun skila sér fyrir betri skóla, að ég segi nú ekki enn betri skóla.

Við hljótum samt að ætlast til þess að umræðan verði almennari og leiði til samanburðar á aðstæðum í skólunum og umhverfi þeirra sem ekki eru prófaðar með samræmdum prófum. Þeir þættir kunna þó að skipta mjög miklu máli fyrir uppeldisskilyrði barnanna og velferð fjölskyldunnar. Umræðan um skólana og hlutverk þeirra í nútímasamfélagi þarf að vera snarari þáttur í þjóðfélagsumræðunni. Það er mikilvægt að umræðan sé örvuð sem víðast og því er þessi fyrirspurn borin fram.