Aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 13:52:28 (4315)

1998-03-04 13:52:28# 122. lþ. 78.2 fundur 468. mál: #A aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[13:52]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Landssími Íslands hefur lagt ljósleiðara hringinn í kringum landið og veitir á honum margvíslega fjarskiptaþjónustu. Má þar nefna að stór hluti símtala milli staða á landinu fer um ljósleiðarann, einnig margs konar gagnaflutningur, þar með talin internetnotkun. Hann ber leigulínur milli staða og hann er notaður fyrir flutninga á dagskrá útvarps, bæði sjónvarps og hljóðvarps. Þrjú fíberpör af átta voru frá upphafi leigð NATO fyrir sambönd við radarstöðvarnar og var greitt fyrir fram fyrir þá leigu.

Gjaldtaka af notendum fyrir afnot af ljósleiðara er tvenns konar. Annars vegar er notkun hans innifalin í gjaldi fyrir þjónustu, t.d. talsíma- og gagnaflutningaþjónustu, og hins vegar er gjald fyrir leigulínur og dagskrárlínur. Landssími Íslands gefur út gjaldskrá fyrir þjónustu sína, þar með taldar leigu- og dagskrárlínur, en í gildi er núna gjaldskrá Pósts og síma hf. frá 11. nóv. 1997 sem staðfest var af samgrh.

Ákvörðun gjalda fyrir mismunandi þjónustu á ljósleiðara er ekki einföld vegna þess hversu margs konar þjónustu er um að ræða og einnig vegna þess að hlutdeild hverrar þjónustu í flutningsgetu ljósleiðarans er breytileg. Að jafnaði þykir eðlilegast að miða gjaldtöku við hversu mikil bandbreidd er notuð þegar þjónusta er veitt. Það þýðir þó ekki að t.d. tvöföldun á bandbreidd leiði af sér tvöfalt hærra gjald, notkun mikillar bandbreiddar er hlutfallslega ódýrari en lítillar.

Núverandi gjaldskrá Landssíma Íslands inniheldur verulegt frávik frá þessum gjaldtökuaðferðum að því leyti að gjald fyrir sjónvarpsflutning á ljósleiðaranum er hlutfallslega miklu lægra en t.d. gjöld fyrir gagnaflutning. Þannig er ársfjórðungsgjald fyrir tveggja megabæta gagnaflutningslínu Reykjavík--Akureyri kr. 1,9 millj. en fyrir sjónvarpslínu sem notar 140 megabæt er gjaldið á sömu leið kr. 2,2 millj. Gjaldið fyrir sjónvarpslínuna er því aðeins 7,3% hærra þó að bandbreidd hennar sé 70 sinnum meiri. Hér hafa markaðsaðstæður greinilega haft áhrif á gjaldtöku. Því má bæta við að Póstur og sími gerðu á árinu 1992 samning við íslenska sjónvarpsstöð um flutning dagskrár hennar um allan ljósleiðarahringinn og var veittur afsláttur frá gjaldskrá.

Það hefur komið fram á öðrum vettvangi að gjaldskrá Landssíma Íslands fyrir þjónustu er með þeim lægstu í Evrópu og leigu- og dagskrárlínugjöld eru vel sambærileg við gjöld í Evrópu. Það er þess vegna vart réttlætanlegt út frá samanburði við önnur Evrópulönd að segja gjaldskrána háa. Sé hins vegar spurt um gjöld miðað við tilkostnað verður þessu ekki svarað nema með úttekt á gerðri fjárfestingu í ljósleiðaranum og rekstrarkostnaði hans og samhliða ákvörðun um hvernig þessum kostnaði beri að skipta niður á hina margs konar þjónustu sem ljósleiðarinn veitir.

Gjaldskrá Landssíma Íslands er hin sama hvar sem er á landinu. T.d. er greitt sama gjald á kílómetra fyrir leigulínur hvort sem þær liggja út frá Reykjavík eða eru milli staða úti á landi. Gjald fyrir leigulínu frá Egilsstöðum til Reykjavíkur er hins vegar hærra en fyrir línu frá Akureyri til Reykjavíkur vegna þess að um er að ræða meiri fjarlægð og kostnaður við ljósleiðara er að mestu leyti í hlutfalli við lengd hans. Það má síðan til sanns vegar færa að landsmönnum sé mismunað, ekki eftir búsetu heldur eftir því hvað þeir búa í stóru byggðarlagi. Þjónustuaðili á sviði fjarskipta eða sjónvarps er líklegur til að horfa í kostnað vegna ljósleiðarasambands sem hann þarf til að þjóna litlu byggðarlagi, þó að hann sé tilbúinn að leggja út í sams konar kostnað vegna stærra byggðarlags.

Út af ummælum hv. þm. í sambandi við Íslenska útvarpsfélagið er því við að bæta að við búum við fákeppni í sjónvarpsrekstri. Það er einungis um tvær sjónvarpsstöðvar að ræða sem máli skipta í þessu sambandi og það má segja að þær sitji einar að markaðnum þar sem við höfum ekki möguleika á því að veita fleiri rekstraraðilum aðgang, þ.e. við höfum ekki rásir til þess að senda eftir. Ég tek þess vegna undir með hv. þm. að þetta hlýtur að vera okkur mikið umhugsunarefni og enginn vafi á því að mikið hagræði væri að því og mundi auðvelda þessi mál t.d. ef samningar tækjust milli Ríkisútvarpsins og Landssímans um notkun breiðbandsins. Ég hef raunar oftar sagt að ég tel nauðsynlegt að auka flutning á breiðbandinu þannig að þar komi breiðvarp sem auðveldi að koma sjónvarpsmyndum á hina smærri staði.