Aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:01:48 (4319)

1998-03-04 14:01:48# 122. lþ. 78.2 fundur 468. mál: #A aðstaða landsmanna til að nýta sér ljósleiðarann# fsp. (til munnl.) frá samgrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 122. lþ.

[14:01]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að auðvitað ræður umferðin um þessar leiðir, þ.e. ljósleiðarann, miklu um hver verðlagningin er í heild. Áðan kom fram að Ríkisútvarpið nýtti ekki ljósleiðarann, þá er það rétt að Ríkisútvarpið nýtir ekki ljósleiðarann nema í hreinum undantekningartilfellum.

Þá er rétt að það komi fram að þegar sá sem hér stendur var formaður útvarpslaganefndar var farið mjög nákvæmlega ofan í þessa hluti vegna áforma Ríkisútvarpsins um að endurbæta eigið dreifikerfi. Þá kom í ljós að væri hætt við þau áform og ljósleiðarinn nýttur mundu sparast 400 millj. í fjárfestingu fyrir Ríkisútvarpið til þess að koma efni sínu til neytenda og einnig lá ljóst fyrir að öryggi og gæði flutninganna yrðu miklu meiri.