Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:45:41 (4330)

1998-03-04 14:45:41# 122. lþ. 79.1 fundur 354. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[14:45]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tjáð sig um þetta mál, þeim hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Kristjáni Pálssyni og Margréti Frímannsdóttur. Ég tek sérstaklega undir orð þeirra sem telja, eins og hv. þm. Ísólfur Gylfi orðaði það, að þetta frv. gæti stuðlað að því að auðga mannlíf og líta beri á hið menningarlega umhverfi sem atvinnugrein. Í því sambandi nefndi hann m.a., eins og hv. þm. Kristján Pálsson, Björk Guðmundsdóttur sem borið hefur hróður Íslands víða um heim.

Eins og hv. þm. Kristján Pálsson vék að er hægt að skapa þjóðinni mikla möguleika til farsæls og hamingjusams mannlífs gegnum list. Það getur einnig skapað tekjur og góð markaðssetning á kvikmyndum sýnir að við eigum mjög gott fagfólk á þessu sviði. Ég tek sérstaklega undir það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi, að gallinn á núverandi kerfi sé sá að við höfum oft og tíðum misst af fjármagni frá útlöndum vegna þess að ekki hafi verið lagt til nægilegt fjármagn hér innan lands. Vitaskuld er þetta slæm staða og skaðar ekki aðeins listsköpunina og atvinnumöguleikana sem í þessu felast, heldur er þetta lítilsvirðing þann vaxtarbrodd sem í listum býr.

Hv. þm. benti á að undir frv. falla ýmsir aðrir þættir eins og bókmenntaverk. Hún tók sérstaklega fram að áhugleikfélög mundu líka falla undir þetta frv. Ég er því sérstaklega ánægður, herra forseti, yfir hinum góðu undirtektum hv. þm. úr þremur mismunandi flokkum.

Ég vona að við berum gæfu til þess að reyna að þoka málinu áfram hér innan þings. Við eigum fólk á heimsmælikvarða í þessu umhverfi, menntaumhverfi, kvikmyndagerðarumhverfi, vísindalegu umhverfi. Það þarf að laða að fjármagn úr fyrirtækjarekstri að listgreinum þannig að fyrirtækin hagnist á því en séu jafnframt þátttakendur í góðum málefnum. Ríkissjóður á alls ekki, nema síður sé, að bera skarðan hlut frá borði varðandi þetta mál. Mér sýnist á undirtektum að full ástæða sé til þess að trúa því að við þokum þessu máli áleiðis. Okkur tekst vonandi að lögfesta þessa útfærslu og fá a.m.k. reynslu á þessar hugmyndir. Ég þakka enn og aftur undirtektir hv. þm.