Innlend metangasframleiðsla

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:49:24 (4331)

1998-03-04 14:49:24# 122. lþ. 79.2 fundur 357. mál: #A innlend metangasframleiðsla# þál., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[14:49]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um innlenda metangasframleiðslu. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Össur Skarphéðinsson og Siv Friðleifsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að undirbúa breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og á tollalögum sem heimili að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld og skatta á innlenda metangasframleiðslu úr lífrænum úrgangi, svo sem safnhaugum, sorphaugum og seyru. Slík heimild nái einnig til farartækja sem nýta metangas í stað innfluttra orkugjafa.``

Markmiðið með þessari tillögu er að gjöld af metangasframleiðslu verði felld niður eða lækkuð verulega svo hún verði samkeppnishæfari en hún er í dag. Markmiðið, herra forseti, er einnig að gera eftirsóknarvert að þessi orkukostur verði nýttur á bíla í stað bensíns eða olíu. Það mætti gera með því að lækka eða fella niður skatta sem í dag eru lagðir á þessi farartæki. Þar mætti nefna aðflutningsgjöld, þungaskatta og aðra skatta. Þessi gjöld verða að lækka ef almenn notkun á metangasi sem orkukosti á að verða raunveruleg. Af hálfu stjórnvalda hefur ekkert verið gert til að gera notkun metangass eftirsóknarverða. Þótt Sorpa hafi virkjað hluta af þeirri gasframleiðslu sem þar fellur til er það metangas ekki nýtt í dag.

Margar þjóðir hafa stigið markvisst skref til nýtingar á þessum orkumöguleika og má þar nefna þjóðir eins og Svía, Nýsjálendinga, Brasilíumenn og Tékka, sem allir nýta metangas á bíla. Í Bandaríkjunum er einnig mikil vakning til að nýta metan til rafmagnsframleiðslu og er fyrirhuguð ráðstefna nú í mars til að kynna þann kost. Að mati þeirra sem til þekkja mætti knýja 6--7 þús. bíla með því metangasi sem virkjanlegt er hér á landi.

Eins og kemur fram í greinargerð með þessari þáltill. hefur Sorpa virkjað metangas úr sorphaugum á Álfsnesi og hefur á þessu ári um 1.300 tonn af hreinu metangasi til ráðstöfunar og árið 2012 verða það 4 þús. tonn.

Við notkun metangass á bíla þarf ekki að finna upp hjólið eins og sagt er. Erlendir bílaframleiðendur hafa þegar framleitt bílvélar sem geta nýtt gas í stað olíu eða bensíns. Margir bílaframleiðendur bjóða í dag bíla sem eru búnir svokölluðum ,,bi-fuel``-vélum en þær ganga fyrir gasi eða bensíni eftir því sem til fellur. Ástæða þess er sú að dreifikerfi gass er takmarkaðra og því nauðsynlegt að geta gripið í bensínið þegar svo ber undir. Því er mikill kostur að geta nýtt báða orkugjafana meðan dreifistöðvar fyrir metangas eru ekki fleiri en raun ber vitni. Það sem vinnst með því að nýta metangasið á bíla er þrennt. Mengun af útblæstri bíla verður að mestu eytt. Bílar verða hljóðlátari með þessum orkugjafa og við værum að nýta innlendan orkugjafa, sem hingað til hefur engum komið að gagni, í stað innflutts.

Eftir samtöl mín við forsvarsmenn Sorpu hér í Reykjavík er mér kunnugt að ýmsir þjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu hafa kynnt sér þennan kost og sýnt áhuga á að nýta sér hann þegar þar að kemur. Áhugi almennings og fyrirtækja til að bæta umhverfi sitt og draga úr mengun er mikill og því ástæða til að skoða málið af fullri alvöru. Með samþykkt tillögu sem þessarar tekst einnig að draga úr því magni gróðurhúsalofttegunda sem sleppt er út í andrúmsloftið og breytt geta loftslagi jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum eins og komið hefur fram á undanförnum mánuðum í umræðum þeim sem farið hafa fram m.a. í tengslum við ráðstefnuna í Kyoto. Með þessu er ekki tekið undir neinar heimsendaspár, heldur bent á nauðsyn þess að við höldum vöku okkar og nýtum þau tækifæri sem til staðar eru til að draga úr þessari hættu. Vísindamenn eru ósammála um það hve fljótt gróðurhúsaáhrif andrúmsloftsins virka á hitastig jarðar. Rannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli benda til að slíkar breytingar geti átt sér stað á nokkrum áratugum. Þó er engin vísindaleg rannsókn þar að baki og að mati margra virtra vísindamanna getur sá þröskuldur verið nokkuð hár sem þarf til að auka koltvíoxíðsmagn í andrúmsloftinu svo mikið að hitastigið breytist svo máli skipti.

Veðurfarsbreytingar sem má lesa úr sýnum úr Grænlandsjökli hafa reynst miklar og samkvæmt þeim áttu sér stað miklar hitasveiflur fyrir um 11 þús. árum eða í lok síðustu ísaldar. Hitastig hækkaði um 5--10 gráður á Celsíus á tiltölulega skömmum tíma. Augljóst er að sú mikla hitabreyting hefur ekki orðið vegna mengandi starfsemi af mannavöldum. Það þýðir þó ekki að óþarft sé að fara varlega í að sleppa gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Þvert á móti er augljóst að það er öllum í hag og til góðs að draga úr þeim lofttegundum. Í sjálfu sér er mjög eðlilegt að láta náttúruna, lífið á jörðunni njóta vafans að þessu leyti og fara varlega í sleppingu gróðurhúsalofttegunda.

Metan eða CH4 er ein af þeim sex gróðurhúsalofttegundum sem Kyoto-samningurinn nær yfir og kemur næst á eftir koltvíoxíði eða CO2 í þeim samningi. Þjóðir heims hafa sameiginlega flokkað metangasið sem aðra hættulegustu lofttegundina í áhrifum til breytinga á hitastigi jarðar. Með samþykkt þessarar tillögu reynir á vilja hins háa Alþingis og í ríkisstjórar til að fara raunhæfar leiðir til að mæta t.d. skuldbindingum okkar við samþykkt Kyoto-samningsins. Heildaráhrif af virkjun alls metangass sem virkjanlegt er á landinu gætu jafnast á við að eyða koltvíoxíðsmengun af einu meðalálveri hér á landi.

Herra forseti. Með því að samþykkja slíka tillögu, með því að koma á nýtingu metangass í einhverju magni og hvetja menn til þess með lækkun tolla, innflutningsgjalda og þungaskatts á bifreiðar, lækka tekjur ríkissjóðs, vegasjóðs og annarra þeirra sem notið hafa tekna af þessum innflutningi. Víða í heiminum þar sem menn taka á umhverfismálum af alvöru hafa verið lagðir á umhverfisskattar eða umhverfisgjöld í þeim tilgangi að ná fram hagkvæmum möguleikum, eins og hér er rætt um, til nýta í þágu þjóðar og mannkyns alls. Ég tel því að ekki sé spurning um að við töpum þarna tekjum. Við komum hins vegar til með að mæta þeim þegar nýting þessa möguleika verður að veruleika. Þá mundu umhverfisgjöld munu skapa þjóðinni tekjuauka á móti.

Ég vil að lokum, herra forseti, hvetja hv. efh.- og viðskn. til að kynna sér þetta mál ítarlega. Hér er á ferðinni, eins og ég hef sagt, raunhæfur kostur sem sameinar það að nýta innlenda orkugjafa, draga úr sleppingu á mengandi lofttegundum og auka möguleika okkar á að halda áfram þeirri atvinnuuppbyggingu sem þjóðinni er nauðsynleg. Ég legg til, herra forseti, að tillögunni verði vísað til hv. efh.- og viðskn.