Innlend metangasframleiðsla

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:59:10 (4332)

1998-03-04 14:59:10# 122. lþ. 79.2 fundur 357. mál: #A innlend metangasframleiðsla# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[14:59]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir að kynna þessa till. Við Íslendingar höfum raunar náð mjög langt í að nýta umhverfisvæna orku, t.d. til húsahitunar, iðnaðarframleiðslu og fleira í þeim dúr. Hins vegar erum við vart komnir af stað í nýtingu grænnar orku til að knýja áfram farartæki og sú þáltill. sem hér er til umræðu er einmitt ein varðan á þeim vegi.

Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur beitt sér mjög fyrir því að við nýtum vetni. Við eigum í raun að kappkosta að vera í fararbroddi í nýtingu umhverfisvænnar orku. Ef þessi þáltill. nær fram að ganga þá tel ég að þar værum við að stíga skref í þá átt að nýta innlenda orku til þess að knýja áfram farartæki. Ég tel að lækkun tolla og innflutningsgjalda sé sjálfsögð vegna hve mikið vinnst við framleiðslu Íslendinga á innlendri orku.