Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:38:11 (4341)

1998-03-05 10:38:11# 122. lþ. 80.89 fundur 242#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:38]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég lýsi yfir mikilli undrun yfir svörum hæstv. viðskrh. Ég vek athygli á því að ráðherrann er yfirmaður viðskiptamála í landinu og fer þar með skilning og túlkun á hlutafjárlögum. Hann hefur kveðið upp þann úrskurð að stórhættulegt sé fyrir þá banka sem eru í eigu ríkissjóðs, Landsbankann og Búnaðarbankann, ef þjóðin fær að vita hvaða fyrirtæki þessir bankar eiga. Það á að vera stórhættulegt út af samkeppnissjónarmiðum að upplýst sé hverjir eigi hlutafélög í eigu bankanna. Ég hlýt því að álykta að sjónarmið ráðherrans sé að almennt hljóti það að gilda um öll hlutafélög að út frá samkeppnissjónarmiðum sé varasamt að þjóðin fái að vita hverjir eiga þau og þvílíkt hljóti að trufla starfsemi fyrirtækjanna óskaplega.

Ég vil því vekja athygli á þessu, herra forseti. Skilningur viðskrh., yfirmanns laga um hlutafélög, er að leyndin og þögnin séu besta ráðið. Upplýsingar eru varasamar, þær eru stórkostlega varasamar út frá samkeppnissjónarmiðum. Menn eiga þá kannski að keppa í undirheimunum þar sem þögnin og leyndin ríkja, hæstv. viðskrh.?