Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:39:48 (4342)

1998-03-05 10:39:48# 122. lþ. 80.89 fundur 242#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:39]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskrh. Það er í hans valdi að meta þessa hluti. Að því leyti er málið augljóst. Niðurstaða hans er sú að stórhættulegt sé að birta þær upplýsingar sem ég óskaði eftir á nefndu þingskjali.

Ég spyr: Hvernig getur það skaðað til að mynda Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbankann eða þessi fyrirtæki sem bankarnir eiga hlut í þó upplýst sé hver hlutur þeirra er? Hvað skaðaði bankana á sínum tíma þegar því var svarað af þáv. hæstv. viðskrh. að Íslandsbanki ætti í þessu fyrirtæki sem hér er á blaðinu? Ekki nokkur skapaður hlutur að sjálfsögðu. Skaðar það fyrirtækin á þessum stóra lista frá Alþýðubankanum þegar upplýsingar koma í Viðskiptablaðinu? Ætli staða eignarhaldsfélagsins Alþýðubannkans verði verri? Ætli staða Haraldar Böðvarssonar hf., Eimskipafélags Íslands, Flugleiða eða Granda verði verri af því að nú er upplýst að eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn á hlut í þeim? Að sjálfsögðu ekki. En þetta er svar hæstv. viðskrh.

Auðvitað hefur hæstv. viðskrh. fullkominn rétt á því að hafa þessa afstöðu. Hæstv. ráðherra vakti athygli á því sem ég auðvitað vissi að fyrirspurn mín væri mun ítarlegri en fyrirspurn hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar á sínum tíma. Að hluta til eru þetta þó hliðstæðar spurningar og að hluta sömu spurningar vegna þess að það er verið að spyrja um hlutafjáreignina. Úr því að hægt var að svara þeim hluta spurninganna á sínum tíma, af hverju er ekki hægt að gera það núna?

Við blasir að hæstv. þáv. viðskrh. lagði lykkju á leið sína til þess að gefa ítarlegra svar en beðið var um á sínum tíma. Í því svari er sagt: ,,Þótt fyrirspyrjandi hafi ekki óskað sérstaklega eftir því eru birtar upplýsingar um hlutabréfaeign dótturdótturfélaga Landsbanka Íslands.`` Þær upplýsingar eru hliðstæðar þeim sem ég hef farið fram á enda segir í svarinu: ,,Að öðrum kosti hefði svarið gefið ófullkomna mynd af hlutabréfaeign bankasamstæðunnar.`` Ég verð að segja að sú mynd sem við fáum frá hæstv. viðskrh. er afar ófullkomin og sérkennileg.