Ummæli þingmanns í fréttaviðtali

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:53:20 (4351)

1998-03-05 10:53:20# 122. lþ. 80.93 fundur 246#B ummæli þingmanns í fréttaviðtali# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:53]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég heyrði ekki ummæli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar í fréttum sem var verið að vitna til. En ég segi alveg eins og er að ég hef af því miklar áhyggjur hver staða þingsins sé í málum sem koma fyrir efh.- og viðskn. þegar málið er þannig vaxið að formaður nefndarinnar er jafnframt framkvæmdastjóri Verslunarráðsins. Það er áhyggjuefni út af fyrir sig. Hann þarf að vera býsna nákvæmur með sína hagsmuni og sína stöðu til þess að blanda aldrei þessum tveimur störfum saman. Ég tel þetta algerlega óeðlilegt.

Alþingi hefur hins vegar engin úrræði til að banna manninum að vera í þessari stöðu, hvorugri stöðunni. Þess vegna liggur málið hjá honum sjálfum. Hann ætti auðvitað að sjá sóma sinn í því að losa sig við annaðhvort starfið vegna þess að það er óþægilegt fyrir þingið og efh.- og viðskn. að formaður hennar skuli vera þessi maður. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt þó að nefndin taki málið fyrir. Málið snýst ekkert um það. Formaðurinn hefði hins vegar getað sagt sig frá málinu meðan það var til sérstakrar meðferðar í efh.- og viðskn. Það hefði verið heiðarlegt að gera að mínu mati.