Ummæli þingmanns í fréttaviðtali

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:55:42 (4353)

1998-03-05 10:55:42# 122. lþ. 80.93 fundur 246#B ummæli þingmanns í fréttaviðtali# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:55]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Gagnrýni hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem hér er til umræðu beinist einkum að tvennu: Hann efast um að eðlilegt sé að hv. efh.- og viðskn. skipti sér af málum sem eru í löglegri málsmeðferð úti í þjóðfélaginu, einmitt eftir reglum laga sem hafa verið sett hér á þinginu. Málsmeðferðin stendur yfir. Það er annars vegar það og hins vegar það að hann efast um hæfi hv. formanns nefndarinnar, Vilhjálms Egilssonar, sem er jafnframt starfsmaður eins málsaðila.

Ég vil segja að mér finnst þessi gagnrýni fullkomlega eðlileg. Hún á fullkomlega rétt á sér og ég vil taka undir hana og efast um að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður nefndarinnar, hafi átt að taka þátt í þessari umræðu. Að mínu mati hefði hann átt að víkja sæti.