Ummæli þingmanns í fréttaviðtali

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 10:59:26 (4356)

1998-03-05 10:59:26# 122. lþ. 80.93 fundur 246#B ummæli þingmanns í fréttaviðtali# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[10:59]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram við þessa umræðu að þetta upphlaup hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar er gersamlega tilefnislaust. Það sem ég gagnrýndi í fyrsta lagi er að málið er í áfrýjunarferli. Það er og verður væntanlega til skoðunar hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála og gæti þaðan farið til dómstóla og jafnvel til Hæstaréttar. Á meðan málið er í þessu ferli er mjög óeðlilegt að mínu mati að þingið sé að stofna til einhvers konar rannsóknarréttar í ákveðinni nefnd til þess að fara yfir málið. Nefndin getur fengið öll gögn um málið þegar þessu ferli er lokið, hvert og eitt einasta. Og þá væri hugsanlegt að taka ákvörðun um það út frá einhverjum pólitískum viðhorfum hvort breyta ætti lögum. En að gera það á þessu stigi þykir mér alveg fráleitt.

Það sem ég átti við áðan þegar ég sagði, að ef efh.- og viðskn. ætlaði að vera samkvæm sjálfri sér þá ætti hún að kalla ákveðna aðila fyrir, var að ef áfrýjunarnefnd samkeppnismála kemst að annarri niðurstöðu þá hlýtur efh.- og viðskn. náttúrlega að yfirheyra áfrýjunarnefndina um það hvers konar niðurstöðu hún komst að og ef héraðsdómari kæmist síðar að annarri niðurstöðu yrði væntanlega að yfirheyra þann dómara líka um málið og svo Hæstarétt og þannig koll af kolli. Ég var því að gagnrýna að málið er tekið fyrir á alröngu stigi.

Í öðru lagi breytir það engu hver lagði það til að taka þetta fyrir. Þetta er rannsakað og yfirfarið undir forustu formanns hv. efh.- og viðskn. (Forseti hringir.) sem jafnframt er framkvæmdastjóri Verslunarráðs (Gripið fram í.) sem er undirmaður formanns stjórnar Verslunarráðs (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sem hagsmunina varðar.

(Forseti (ÓE): Tíminn er liðinn.)

Þetta er því alveg gersamlega fráleitt, virðulegi forseti, og tilefni þessa upphlaups hv. þm. er ekki merkilegt.