Dómstólar

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 14:10:15 (4363)

1998-03-05 14:10:15# 122. lþ. 80.10 fundur 176. mál: #A dómstólar# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[14:10]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um dómstóla sem er, eins og fram hefur komið í umræðunni fyrr í dag, lokahnykkurinn í algerri endurskoðun á dómstólakerfinu. Eins og einn viðmælenda allshn. orðaði það er með frv. verið að gera dómstólana á Íslandi sjálfstæðari en nokkurs staðar annars staðar tíðkast á Norðurlöndum úr algeru barbaríi, þ.e. áður en endurskoðunin hófst. Ég fagna endurskoðuninni svo sannarlega og tel að það frv. sem er til umræðu hafi batnað mjög mikið í meðförum nefndarinnar og styð heils hugar allar þær breytingartillögur sem eru lagðar fram af hv. nefnd. Það er ekki ætlan mín þess vegna að fara í smáatriðum í efni frv. né í brtt. Það hefur verið gerð grein fyrir því efnislega í umræðunni. Hins vegar vil ég að það komi fram að ég skrifa undir nál. með fyrirvara. Ég tel að frv. sé ekki fullkomið og vil hér gera grein fyrir helstu fyrirvörum sem ég hef.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að eitt atriðið er stjórnarskrárbundið en í 61. gr. stjórnarskrárinnar segir að veita megi þeim dómara sem orðinn er fullra 65 ára lausn frá embætti en hæstaréttardómarar skulu eigi missa neins af launum sínum við það. Í raun geta hæstaréttardómarar því hætt 65 ára og verið á fullum launum til æviloka.

Ég tek það fram, ekki síst vegna þess að þetta atriði hefur verið til umræðu nýlega í Morgunblaðinu, að frv. virðist algerlega ganga út frá stjórnarskrárgreininni sem fastri sem hún er vissulega og þess vegna kom þetta atriði mjög lítið til umræðu í nefndinni. (SP: Þingið tók þessa ákvörðun 1991.) Já, þingið tók þessa ákvörðun 1991 og ég gerði mér far um að kynna mér réttlætinguna fyrir þeirri breytingu sem þá var gerð sem er reyndar ekki að finna í greinargerð með frv. þá né heldur þegar það var samþykkt hinu fyrra sinni. Það kemur í ljós að brtt. kom inn í meðförum þingsins á milli 2. og 3. umr. í efri deild. Ég ítreka að nefndin og þessi yfirferð núna gekk út frá óbreyttu ástandi að þessu leyti, en ég tel og tek undir það með Morgunblaðinu að það sé virkilega þess virði að endurskoða stjórnarskrárákvæðið við fyrsta tækifæri, t.d. samfara þeirri endurskoðun á stjórnarskránni sem á sér núna stað í sambandi við breytta kjördæmaskipan.

Þetta atriði er þó ekki meginástæða þess að ég skrifa undir álit hv. allshn. með fyrirvara. Ég flyt m.a. brtt. ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðrúnu Helgadóttur sem ég mun koma að á eftir en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert grein fyrir henni.

[14:15]

En það eru fleiri atriði sem ég hef ekki nægilega góða sannfæringu fyrir að séu rétt. Þar vil ég nefna þá meginstefnu frv. sem er í aðalatriðum góð, að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og sjálfstæði dómara frá framkvæmdarvaldinu. Hún gengur að mínu mati nokkuð langt á kostnað annarra sjónarmiða. Ég vil í því sambandi ræða samtímis greinarnar þar sem fjallað er um skipan hæstaréttardómara, þ.e. 4. gr. frv. og 7. gr. Ég tel að þar sé gengið of langt í að tryggja festu innan dómsins, að þar verði ekki miklar breytingar, á kostnað þess að tryggt verði að ný sjónarmið komist að.

Svo ég ræði fyrst um skipan hæstaréttardómara þá var það töluvert rætt í meðferð nefndarinnar. Það gekk mjög treglega að fá upplýsingar um það hvernig þessum málum er skipað í nágrannalöndum okkar en það tókst þó um síðir. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til er að forseti skipi hæstaréttaradóma ótímabundið eftir að dómsmrh. hefur leitað umsagnar Hæstaréttar. Einnig eru skýr ákvæði um hæfniskröfur. Ég tel að miðað við hin Norðurlöndin þá sé þetta alls ekki óeðlileg skipan og ég get ekki lagt til neina skipan sem tryggir betur sjálfstæði dómaranna en hér er gert. En ef maður lítur hins vegar á þetta í samhengi við 2. mgr. 7. gr., sem fjallar um svokallaða lávarðadeild, þá má segja að þetta tvennt tryggi vel samfellu í dómum Hæstaréttar og, ef eitthvað, íhaldssemi. Það má því vænta lítilla breytinga.

Víða er það talið mjög mikilvægt lýðræðismál að sem flest sjónarmið komi að í Hæstarétti, t.d. í umræðunni í Bretlandi núna, því nýjasta sem er að gerast þar. Þar er virkilega verið að ræða um það hvernig megi t.d. tryggja að konur eða minnihlutahópar komist að sem hæstaréttardómarar. Sama á við um Bandaríkin. Í þessari löggjöf er meiri áhersla lögð á að tryggja festu, að Hæstiréttur hafi áhrif á hverjir verði skipaðir dómarar og að eldri dómarar sitji fyrir í mikilvægum málum eins og segir í 2. mgr. 7. gr., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þegar fimm eða sjö dómarar skipa dóm í máli skulu að jafnaði eiga þar sæti þeir sem lengst hafa verið skipaðir hæstaréttardómarar. Varadómari skv. 8. gr. verður ekki kvaddur þar til setu nema tölu dómara verði ekki náð vegna vanhæfis eða forfalla reglulegra dómara.``

Ég tel að þessi skipan hæstaréttardómara og þetta ákvæði 7. gr. sé ávísun á íhaldssemi. Ég tel að í nefndinni hafi þau sjónarmið orðið ofan á og ég skil vissulega að það eru rök fyrir slíku, en ekki að þessi íhaldsáhersla geti verið á kostnað eðlilegra lýðræðissjónarmiða, þ.e. að réttinn skipi fulltrúar sem langflestra sjónarmiða. Ég vil benda á að Hæstiréttur lagði sjálfur til að 7. gr. yrði breytt. Þess vegna finnst mér verulega umhugsunarvert, herra forseti, að hugleitt verði, þó að ekki sé gerð tillaga um það hér, af alvöru hvernig tryggja megi meiri endurnýjun og frjálslyndari viðhorf í Hæstarétti. Vil ég í því sambandi t.d. nefna þá aðferð sem notuð er í Bandaríkjunum þar sem viðgengst að forsetinn tilnefnir hæstaréttardómara sem síðar er yfirheyrður af þingnefnd, réttara sagt af öldungadeildinni, sem síðan staðfestir skipan viðkomandi eftir að gengið hefur verið úr skugga um að viðkomandi sé hæfur. Í Svíþjóð er þetta þannig að ríkisstjórnin sjálf kemur að veitingu hæstaréttardómaraembætta. Mér finnst það síðra því þá er viðurkennt að framkvæmdarvaldið hefur bein áhrif á dómsvaldið. En báðar þessar lýðræðishefðir í USA og Svíþjóð sýna og viðurkenna að fleira en hæfni í lögum skiptir máli fyrir hæstaréttardómara. Það er líka lífssýn og lífsskoðanir. Mér finnst þetta frv. alls ekki taka mið af því, því að það er fyrst og fremst rétturinn sjálfur sem mælir með nýjum dómurum og síðan eru það þeir sem hafa lengsta starfsreynslu sem taka mikilvægustu og mest stefnumarkandi ákvarðanir.

Ég tel að þessi skipan sé góð að því leyti að hún tryggir festu en hún er um leið ávísun á íhaldssemi sem virðist vera meiri hér en þekkist sums staðar í kringum okkur. Ég vil vekja athygli á því að ýmsar umsagnir, m.a. frá Hrafni Bragasyni hæstaréttardómara, mæltu með því að þingið komi að skipun hæstaréttardómara. Þetta er því ekki sjónarmið sem ég er að finna upp hér, eins og þingmenn vita, heldur er þetta skoðun sumra hæstaréttardómara.

Þriðja atriðið, herra forseti, sem ég er ósátt við í frv. er að hin nýja stjórnarnefnd, dómstólaráð, skuli einungis ná til héraðsdómstólanna. Þegar farið var af stað við samningu þessa frv. var gert ráð fyrir því að þetta dómstólaráð, samanber heiti þess, næði yfir báða dómstólana, þ.e. héraðsdómstóla og Hæstarétt. Síðan breyttist það. Ég spyr: Hvers vegna heitir þetta þá ekki héraðsdómstólaráð núna en ekki dómstólaráð? Ég tel að það hefði verið eðlilegra að mjög mörgu leyti. Það sýnir hins vegar að Hæstiréttur lítur á sig mjög sérstökum augum og kannski réttilega. En ég tel, miðað við þá hugsun sem þarna var að baki í upphafi og heiti þessarar stjórnarnefndar, að eðlilegra væri að hún næði til beggja dómstiga og vonandi verður það þróunin í framtíðinni.

Herra forseti. Að lokum vil ég ítreka að ég er meðflutningsmaður að brtt. við 26. gr. frv. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði grein fyrir áðan. Brtt. gengur út á það að ein af þeim forsendum sem nefnd um dómarastörf verði að taka mið af þegar hún metur hvaða störf dómara samræmast starfi hans og hver ekki, að þá bætum við við að ein forsendan sé sú að kanna eigi hvort að það samræmist störfum dómara að hann sé í leynireglu. Þarna er t.d. átt við frímúrararegluna. Þær eru reyndar fleiri. Ég vil að gefnu tilefni taka fram að mér skilst að hér á Íslandi séu tvær frímúrarareglur. Það skipir auðvitað engu máli hvort um er að ræða regluna sem eingöngu eru í karlar eða regluna þar sem meðlimir eru bæði í karlar og konur eins og skilja mátti af nýlegri grein sem birtist í Morgunblaðinu og skrifuð var af Nirði P. Njarðvík. Í báðum þessum reglum er þagnarskylda til æviloka þó svo að viðkomandi geti hætt eftir nokkur ár í reglunni sem opin er fyrir bæði kynin, en í hinni verður að starfa til æviloka.

Ég er þeirrar skoðunar, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem að undanförnu hefur átt sér stað í Noregi, Bretlandi og víðar, að það hefði verið mjög óeðlilegt að dómstólafrv. hefði farið í gegnum þingið án þess að þetta atriði kæmi hér til umræðu. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt að nefnd um dómarastörf skoði þessar forsendur og komist þá að niðurstöðu hvað henni finnst samræmast störfum dómara og hvað ekki. Ég tel sjálf mjög eðlilegt að ef viðkomandi dómari er frímúrari þá sé hann vanhæfur til að dæma í máli reglubróður eða reglusystur eins og hann væri vanhæfur til þess að fjalla um nána vini sína og ættingja. (Gripið fram í: Nema að hann væri krati.) Vera má að almennar vanhæfisreglur nái yfir þetta eins og fram kemur í nál. meiri hluta allshn. Ég tel þó mun skýrar, og ekki síst í ljósi þessarar umræðu, að hreinlega sé kveðið á um þetta í þeim forsendum sem nefndin á að skoða. Ég vil taka undir það að þessi tillaga þýðir alls ekki að við séum að leggja til að hæstaréttardómarar megi ekki vera í leynireglu sem vissulega er þó sjónarmið út af fyrir sig og kæmi fyllilega til greina að mínu mati til að tryggja sem allra best sjálfstæði dómara.

Því hefur verið slegið fram í þessari umræðu hvort eðlilegt sé að þingið setji stjórnsýslunefnd til að ákveða hvaða störf samræmast dómarastörfum án þess að þingið taki á því hvað samræmist störfum þingmanns. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé töluverður munur á en þó komi fyllilega til greina að lagst verði í þá vinnu að skoða hvort öll störf samræmist störfum þingmanna. Þó er sá grundvallarmunur á að stjórnmálamenn sæta pólitískri ábyrgð og taka afleiðingum gerða sinna í kosningum en dómarar eru æviráðnir á fullum launum til æviloka. Á þessu er töluverður munur og þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að þessi nefnd um dómarastörf taki til starfa --- í henni sitja dómarar --- og ég er sannfærð um að þarna verður unnið gott starf.

Ég ætla ekki að hafa orð mín öllu fleiri að þessu sinni, hæstv. forseti. Ég mun fylgjast áfram með umræðunni og tel að í stórum dráttum sé hér um mjög merkilega löggjöf að ræða. Vonandi getum við þó stigið enn frekari skref við næstu lagfæringu á þessum lögum, skref sem tryggi bæði sjálfstæði og lýðræði á vettvangi dómstólanna.