Áfengislög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 15:40:38 (4381)

1998-03-05 15:40:38# 122. lþ. 80.15 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í því frv. sem við fjöllum um, um breytingu á áfengislögum, er að finna margt til bóta en annað orkar tvímælis sem ég vil víkja að í mínu máli.

Í fyrsta lagi tel ég til bóta að útgáfa leyfa til áfengisveitinga á veitingastöðum verði í höndum sveitarfélaga. Það er eðlilegt fyrirkomulag að sveitarfélögin sjálf en ekki lögreglan hafi á hendi leyfisveitingar til áfengisveitinga á veitingastöðum. Sveitarfélögin sjálf eiga að bera ábyrgð á því umhverfi sem íbúunum er búið í sveitarfélögunum, þar með talið hvernig skipulag og fjölda veitingastaða í sveitarfélaginu er háttað og hvernig slík starfsemi fellur að nálægð við íbúðarbyggð, með tilliti til forvarna á sviði áfengisvarna o.fl. Þessari breytingu ber því að fagna.

Annað nýmæli í frv. er að lögreglunni verði falið eftirlit með vínveitingastöðum í stað sérstakra víneftirlitsmanna sem nú hafa eftirlitið með höndum en það er nú kostað með sérstöku gjaldi á vínveitingastaði vegna starfa víneftirlitsmanna. Kemur fram í frv. að með þessu sé markmiðið að auka eftirlitið með vínveitingahúsum.

Ég er, herra forseti, ekki alveg sannfærð um að svo verði nema ótvírætt sé þá að lögreglunni verði sköpuð skilyrði til að halda uppi öflugu eftirliti með vínveitingastöðunum. Það gengur auðvitað ekki að setja þetta verkefni til lögreglunnar nema tryggt sé að hún fái viðbótarmannafla til að halda uppi öflugu eftirliti á vínveitingastöðunum, en í slíku eftirliti felst vissulega mikið forvarnastarf í baráttunni við áfengisbölið og vímuefnavandann. Ég tel að ekki eigi að bæta þessu mikilvæga verkefni á hina almennu lögreglu heldur þurfi að vera í þessu eftirliti a.m.k. sex sérhæfðir lögreglumenn sem eingöngu sinni þessu starfi og að starf þessara sérhæfðu lögreglumanna tengist forvarnadeild lögreglunnar. Því spyr ég hæstv. dómsmrh. nánar út í það hvernig þessu eftirliti verði háttað og hvort lögreglunni verði búin aðstaða til þess að sinna á skilvirkan og öflugan hátt þessu eftirliti þannig að við séum að auka það en ekki draga úr því.

Ég nefni einnig það ákvæði sem ég tel afar mikilvægt, að haldin sé heildarskrá yfir birgðageymslu áfengisveitingahúsa og áfengisútsölustaði. En spurningin er hver eigi að hafa það með hendi. Er eðlilegt að t.d. lögreglustjórar hafi eftirlit með birgðageymslum áfengisútsala og áfengisveitingahúsa, hver í sínu umdæmi, og að lögreglan kanni reglubundið framleiðslu-, birgða- og sölubókhald leyfishafa?

Í frv. er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri hafi yfirumsjón með og annist skipulag áfengiseftirlits á landsvísu og á hann að gefa fyrirmæli til lögregluembætta og setja þeim starfsreglur um áfengiseftirlit. Ég velti fyrir mér hvernig þetta er hugsað því að eftirlit lögreglustjóra á að beinast að því að haldið sé tilskilið birgðabókhald og að birgðum beri saman við bókhaldið svo að dæmi sé nefnt. Hér er um að ræða eftirlit með ýmissi viðskiptastarfsemi hjá veitingahúsum sem ég undirstrika að er afar mikilvægt og grundvallaratriði að því sé sinnt en spurningar vakna um hvort slíkt eftirlit með bókhaldi veitingahúsa eigi að vera í verkahring lögreglunnar. Ef hugsunin er að þetta sé í verkahring lögreglunnar --- ég er í sjálfu sér ekki að mótmæla því heldur vekja athygli á því hvort eðlilegt sé að eftirlit með bókhaldi vínveitingahúsa eigi að vera hjá lögreglunni --- þá er ljóst að búa þarf lögreglunni aðstöðu til þess að halda uppi slíku eftirliti sem að hluta til er viðskiptalegs eðlis. Ég sé ekki að það sé sérstaklega gert með þessu frv.

Það er líka ástæða til að fagna því nýmæli að heimilt verði að synja um útgáfu leyfis til áfengisveitinga eigi umsækjandi, eigandi eða framkvæmdastjóri í verulegum gjaldföllnum skuldum við hið opinbera eða lífeyrissjóði sem nemur a.m.k. 500 þúsund kr. Einnig að heimilt er að synja um leyfi ef hlutaðeigandi hefur á síðustu fimm árum verið dæmdur til refsivistar.

Það er allt of algengt í atvinnurekstri, kannski ekki síst í veitingahúsarekstri, að þegar fyrirtækin eru að komast í þrot með sinn rekstur, þá er reksturinn settur í gjaldþrot og vangoldin gjöld til hins opinbera skilin eftir, en sami aðili stofni síðan til nýrrar starfsemi í sömu grein með nýju nafni og númeri. Erlendis varðar slíkt oft atvinnuleyfissviptingu en hér á landi eru úrræðin fá sem hægt er að grípa til við slíkar aðstæður. Ég bind því vonir við að þetta ákvæði a.m.k. sé spor í átt til þess að koma í veg fyrir að sömu aðilar geti aftur og aftur farið í sama atvinnurekstur eftir síendurtekin gjaldþrot og skilið eftir sig slóða skulda og vangoldinna greiðslna til hins opinbera sem síðan er afskrifað.

Ég vil næst víkja að 18. gr. frv. sem er afar sérstæð og ég velti fyrir mér hvort sé nýmæli í áfengislögum. Þar segir, með leyfi forseta:

[15:45]

,,Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 20 á kvöldin og fram til lokunar staðarins, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka.``

Er það raunhæft á okkar tímum að banna 17--18 ára unglingum að fara inn á veitingastaði eftir klukkan átta á kvöldin nema í fylgd með foreldrum sínum? Eru þetta ekki lagafyrirmæli sem bersýnilega eru úr takt við tímann og óraunhæf? Er í svo sérkennilegum lagafyrirmælum a.m.k. einhver af orsökum þess vanda sem skapast hér vegna óláta um helgar og kennd eru við miðbæinn og unglingana?

Af því ég nefni hér miðbæjarvandamálið þá mundi ég vilja spyrja hæstv. dómsmrh.: Breytir þetta frv. einhverju um lokunartíma vínveitingahúsa? Um opnunartíma skemmtistaða gilda lög nr. 120/1947, um heimild til þess að marka skemmtistöðum og samkomum tíma. Gert var ráð fyrir að lög þessi mundu falla úr gildi þegar sett hefði verið reglugerð á grundvelli laga, nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmrn. hefur slík reglugerð enn ekki verið sett. Samkvæmt 1. gr. laga um lögreglusamþykktir segir að í hverju sveitarfélagi megi setja lögreglusamþykktir og segir að í þeim eigi að kveða á um opnunar- og lokunartíma veitingahúsa.

Ég tel ljóst að engin lagaákvæði séu til að setja opnunartíma skemmtistaða skorður. Slíkar skorður eru einungis settar með reglugerð og lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Þannig virðist dómsmrh. í raun heimilt að ákveða opnunartíma skemmtistaða, að hann skuli vera frjáls, með breytingu á reglugerð, en lögreglusamþykkt á hverjum stað gæti takmarkað vald hans í þessum efnum.

Skoðun mín er sú, herra forseti, að það eigi að vera í valdi sveitarfélaganna að ákveða opnunartíma vínveitingahúsa. Ég tel að gefa eigi opnunartíma vínveitingahúsa frjálsan til reynslu í tiltekinn tíma og sjá hvort það breyti einhverju um miðbæjarvandamálið í stað þess að nú er öllum vínveitingahúsum lokað á sama tíma með þeim afleiðingum að fólk streymir þaðan samtímis og heldur áfram að skemmta sér á götum miðborgarinnar.

Ég spyr hæstv. dómsmrh. um afstöðu hans til þess að hafa það á valdi sveitarfélaganna sjálfra að ákveða opnunartíma vínveitingahúsa. Í öðru lagi vil ég vita hvort hann telji það rétt að opnunartími veitingahúsa verði til reynslu gefinn frjáls, t.d. í eitt til tvö ár.

Herra forseti. Það sem torveldar eftirlit yfirvalda á vínveitingastöðum er það ósamræmi sem finna má í 18. gr. frv. Þar er kveðið á um að óheimilt sé að selja, veita eða afhenda áfengi, þeim sem eru yngri en 20 ára. Á veitingastað sem leyfi hefur til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára óheimil dvöl eftir kl. 20 á kvöldin nema í fylgd með foreldrum sínum. Á þetta hefur margsinnis verið bent. Þar nefni ég ýmsar umsagnir sem komu fram á 120. löggjafarþingi við frv. sem ég flutti um breytingu á áfengislögum ásamt hv. þm. Geir H. Haarde, Siv Friðleifsdóttur og Lúðvíki Bergvinssyni. Það frv. var þess efnis að aldursmörk til kaupa og neyslu á áfengi yrðu færð úr 20 ára aldri niður í 18 ára aldur. Lögreglustjórinn í Reykjavík mælti með samþykkt frv. um að áfengiskaupaaldur yrði færður úr 20 árum í 18 ár. En hann segir:

,,Af ofangreindum ákvæðum leiðir að 18 ára ungmennum er heimil dvöl í áfengisveitingahúsum, en þjónar mega ekki veita eða afhenda áfengi gestum yngri en 20 ára. Því má ljóst vera, að innan veggja slíkra húsa er tíður hópur gesta sem ekki má veita áfengi. Getur slíkur hópur verið býsna stór, jafnvel 80--90% allra gesta, einkum á stöðum sem yngra fólk sækir.``

Dómsmrn. sendi á sínum tíma umsögn við þetta frv. og bendir á þessi vandkvæði. Í umsögn dómsmrn. segir:

,,Einnig má nefna að ungmennum 18 ára og eldri er lögum samkvæmt heimilaður aðgangur að áfengisveitingahúsum en hins vegar óheimilt að kaupa áfengi hafi 20 ára aldri ekki verið náð. Breyting í þá átt sem hér um ræðir [þ.e. að lækka áfengiskaupaaldurinn] kann að einfalda eftirlit með starfsemi áfengisveitingahúsa að því leyti að samræmi verði á milli lágmarksaldurs til aðgangs að áfengisveitingahúsum og aldurs til kaupa á áfengi.``

Þegar dómsmrn. gaf umsögn um þetta frv., um lækkun á áfengiskaupaaldrinum, þá mælti það ekki gegn lækkun á áfengiskaupaaldrinum þó þeir hafi heldur mælt ekki með því. Sama kemur fram í umsögn Sambands veitinga- og gistihúsa um það ósamræmi sem þarna er.

Ég tel, herra forseti, að það hljóti að koma til skoðunar við meðferð þessa máls á þingi að breyta áfengiskaupaaldrinum úr 20 árum í 18 ár. Ég mun beita mér fyrir því að það verði skoðað sérstaklega í allshn. og þar verði reynt að ná samstöðu um breytingu á þessari 18. gr. frv., þess efnis að aldursmörk til kaupa og neyslu á áfengi verði færð úr 20 ára aldri niður í 18 ára aldur. Náist ekki samstaða um það í nefndinni geri ég ráð fyrir að ég muni beita mér fyrir því, ásamt öðrum sem áður hafa flutt þetta mál, að aldursmörk til kaupa og neyslu á áfengi verði færð úr 20 ára aldri niður í 18 ára aldur. Ég mun væntanlega, ásamt fleiri þingmönnum, ef ekki næst samstaða um þetta í allshn., flytja brtt. þar að lútandi við 2. umr. þessa máls.

Auk þeirra raka sem ég hef hér nefnt varðandi ósamræmi og erfiðleika við eftirlit á vínveitingastöðum eru ýmis önnur rök sem mæla með breytingunni. Ég nefni til það nýjasta sem gerst hefur í löggjöf um að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár. Ég bendi á að þegar áfengiskaupaaldurinn var á árinu 1969 færður úr 21 ári í 20 ár var eitt af meginrökunum --- eins og reyndar kemur fram í greinargerð með þessu frv. --- að lækkun á áfengiskaupaaldri væri til samræmis við breytta löggjöf um kosningarrétt, kjörgengi, lögræðisaldur og hjúskaparaldur. Við höfum breytt lögræðisaldrinum. Ef það að færa áfengiskaupaaldurinn til samræmis við lögræðisaldur og hjúskaparaldur hafa verið rök árið 1969, þá hljóta þau rök að gilda í dag. Þessar mörk hafa nú breyst og eru nú við 18 ár. Eftir stendur að áfengiskaupaaldurinn er áfram miðaður við 20 ár. Ég mun við 2. umr. þessa frv. gera ítarlega grein fyrir rökunum með og á móti þeirri brtt. sem ég legg til við frv. Ég ætla þó að rifja upp helstu atriði sem mæla með því.

Á sínum tíma voru margir umsagnaraðilar samþykkir því að færa áfengiskaupaaldurinn úr 20 ára í 18 ára. Ég hef nefnt lögreglustjórann í Reykjavík og ég nefni því til viðbótar Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, sem mælti með þessu. Ég hef í höndum nýlegt bréf frá landlæknisembættinu sem dagsett er 24. febr. 1998 en þar segir, með leyfi forseta:

,,Um nokkurt skeið hefur landlæknisembættið fylgst með umræðum um áfengiskaupaaldur, bæði hér á landi sem erlendis. Það er skoðun þessa embættis að áfengiskaupaaldur eigi að vera 18 ár enda séu aðstæður slíkar í þjóðfélaginu að það sé réttlætanlegt. Má í því sambandi benda á kosti þess að saman fari aldur til áfengiskaupa, sjálfræðis, fjárræðis, kosninga og jafnvel ökuréttinda. Þá er rétt að minna á að áfengislög heimila ungmennum að vera á veitingahúsum með fullu vínveitingaleyfi eftir 18 ára aldur, enda þótt þau megi ekki kaupa áfengi fyrr en við tvítugsaldurinn. Verður að telja líklegt að erfitt sé að framfylgja slíkri löggjöf. Það verður engu að síður að leggja ríka áherslu á að kynna fyrir ungu fólki þær áhættur sem fylgt geta áfengisneyslu, sérstaklega er varðar áfengi og akstur.``

Fyrir liggur að landlæknisembættið, lögreglustjórinn í Reykjavík og Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar mæla með því að færa áfengiskaupaaldurinn úr 20 ára aldri í 18 ár.

Ég held að öllum ætti að vera ljóst að ákvæði áfengislöggjafarinnar um 20 ára aldursmörk eru í reynd óvirk. Þeim sem ætla sér að neyta áfengis og eru undir 20 ára aldri eru yfirleitt opnar leiðir til að ná sér í áfengi þegar þeim hentar. Auðvitað felst mikil þversögn í því að við 18 ára aldur geti fólk ráðið sjálft öllum persónulegum högum sínum, haft jafnt sjálfræði sem fjárræði. Þannig getur 18 ára einstaklingur tekið bankalán og orðið sjálfskuldarábyrgðarmaður vegna þriðja aðila eða handhafi greiðslukorta. Honum er treyst fyrir þeirri miklu ábyrgð sem fylgir giftingu og uppeldi barna, því að hafa kosningarrétt og kjörgengi til Alþings og sveitarstjórna, en hann getur ekki séð fótum sínum forráð og borið ábyrgð á meðferð og neyslu áfengis eins og aðrir. Átján ára einstaklingur hefur einnig rétt til að kjósa um hvort opna skuli áfengisútsölu í tilteknu bæjarfélagi. Við 18 ára aldurinn ræður hann hvort hann flytur að heiman, heldur áfram skólagöngu o.s.frv.

Víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við er áfengiskaupaaldurinn miðaður við 18 ára aldur. Ég nefni Danmörku, Noreg, Þýskaland, Bretland, Frakkland og fleiri lönd.

Ég hef áður nefnt, að vínveitingastaðir mega í raun hleypa inn 18 ára og eldri en hins vegar má ekki selja þeim áfengi sem er undir tvítugu. Til að losna við vandræði af þessum sökum þá setja allmargir vínveitingastaðir aldursmörkin við tvítugt. Það þekkist jafnvel að miðað sé við 25 ára aldur. Þannig er ungu fólki undir tvítugu oft vísað frá skemmtistöðum vegna þessa ákvæðis í áfengislögunum, jafnvel þótt það ætli ekki inn þeirra erinda að kaupa áfengi.

Ég held, herra forseti, að með því að lækka áfengiskaupaaldurinn niður í 18 ár sé verið að breyta lögum sem ekki er farið eftir og erfitt er að framfylgja. Lög sem ekki er farið eftir, mörgum finnast óréttlát og óskynsamleg og örðugt er að framfylgja, eru ekki góð lög.

Ég sagði áðan, herra forseti, að ég mundi fylgja þessu máli betur eftir við 2. umr. þessa máls en ég mun freista þess, herra forseti, að ná samstöðu um þessa brtt. við meðferð málsins í allshn.