Áfengislög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:05:41 (4391)

1998-03-05 17:05:41# 122. lþ. 80.15 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að leggja áherslu á að við erum mjög á einu máli í þessum málflutningi, þingmenn Alþb. og óháðra. Hins vegar höfum við bent á að hæstv. fjmrh. rær að því öllum árum að einkavæða söluna á áfengi og tóbaki og vill helst sjá brennivín til sölu í hverri verslun þessa lands. En til þess að ná því fram telur hann sig þurfa að koma óorði á þá ríkisstofnun sem annast vörudreifinguna og það er skýringin á því að hann stendur í vegi fyrir því að lýðræðislegur vilji nái fram að ganga í þessum efnum. Við höfum bent á að sjö sveitarfélög hafa samþykkt í kosningum að þau vilji opna útsölur en fjmrh. stendur í vegi fyrir því.

Ég vil lýsa almennt ánægju með þann tón sem fram kemur hjá hæstv. dómsmrh. og er mjög ólíkur því sem heyrst hefur hjá fjmrh. í þessu máli. Mér finnst tónninn hjá hæstv. dómsmrh. mun ábyrgari. Hann vill ekki láta duttlunga markaðarins stýra þessum málum. Hann vill hafa aðhald og vill að lýðræðisleg stjórnun sé á þessum málum og ég fagna því. En í framhaldi vil ég spyrja hann, því þetta frv. fjallar að hluta til um eftirlit með áfengissölunni, hvort hann sé reiðubúinn að endurskoða fyrri ákvarðanir og lagabreytingar sem gerðar hafa verið, ákvarðanir og lagabreytingar sem sannanlega hafa leitt til þess að erfiðara er fyrir þá sem eiga að stunda eftirlit að sinna því verkefni. Hvort hann er tilbúinn að hverfa til þess horfs sem við bjuggum við fyrir 1995, þ.e. að færa heildsöluna alfarið yfir til ÁTVR að nýju með þeim merkingum sem því fylgir og þeim möguleikum sem það gefur okkur til eftirlits.