Áfengislög

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:09:37 (4394)

1998-03-05 17:09:37# 122. lþ. 80.15 fundur 478. mál: #A áfengislög# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki tækifæri til að vera hér viðstödd í upphafi síðari ræðu hæstv. dómsmrh. þannig að ég er ekki alveg viss á því hvort hann svaraði þeim fyrirspurnum sem ég beindi til hans. Ég beindi til hans þeirri fyrirspurn hvort þetta frv. mundi breyta einhverju um lokunartíma vínveitingahúsa og hvort hann teldi rétt að það yrði á valdi sveitarfélaganna að ákveða opnunartíma vínveitingahúsa. Í öðru lagi spurði ég hæstv. dómsmrh. hvort hann telji rétt að til reynslu í tiltekinn tíma --- ég nefndi í því sambandi eitt til tvö ár -- verði opnunartími veitingahúsa gefinn frjáls. Ég beini þessum spurningum til hæstv. ráðherra og bið hann forláts ef hann hefur svarað þessu áðan. Einnig vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. um afstöðu hans til þess að lækka áfengiskaupaaldurinn úr 20 árum í 18 ár.