Frestun umræðu um húsnæðismál

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:12:40 (4397)

1998-03-05 17:12:40# 122. lþ. 80.86 fundur 247#B frestun umræðu um húsnæðismál# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:12]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér var dreift á borð þingmanna nú fyrir fáeinum mínútum frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum sem er frv. um gjörbreytingar á vaxtabótaákvæðum laga. Þetta frv. er hinn helmingurinn af húsnæðisfrv. sem ætlunin er að ræða á morgun og er gríðarlega mikill bálkur og flókinn þar sem gert er ráð fyrir því að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið í landinu. Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að þegar við ræddum um að þessi mál yrðu tekin fyrir á morgun, þ.e. húsnæðismálafrv., þá datt mér ekki í hug annað en að frv. um tekju- og eignarskatt og vaxtabætur kæmi strax svo hægt væri að skoða þau bæði í einu. Þingmaður sem ætlar hins vegar að tala í umræðunni á morgun verður nú að fara í það nú að lesa þetta frv. um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt, þ.e. vaxtabótafrv. Hann verður að fara í það nú í kvöld og vera albúinn til þess að bera þau saman og lesa þessi tvö frv. saman með hliðsjón af umræðunni sem fer fram á morgun. Ég vil fara fram á það, herra forseti, að kannað verði hvort ekki sé hægt að fresta þessari húsnæðisumræðu á morgun. Það er engin framkoma við þingið að gera þetta svona. Og ég óska eftir því, hæstv. forseti, að kannað verði hvort ekki er hægt að fresta þessari umræðu um húsnæðismálin fram yfir helgi þannig að hægt sé að skoða þessi frv. saman á eðlilegan hátt sem er ókleift eins og þetta er núna. Ég vænti þess að hæstv. forseti treysti sér til að taka þetta mál til athugunar.