Frestun umræðu um húsnæðismál

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:14:16 (4398)

1998-03-05 17:14:16# 122. lþ. 80.86 fundur 247#B frestun umræðu um húsnæðismál# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns. Varðandi þessi tvö stóru mál sem skiptir láglaunafólk miklu hvernig með verður farið á þinginu, hefur Alþingi verið sýnd mikil óvirðing. Í fyrsta lagi þegar hæstv. félmrh. leggur frv. fram fyrir rúmlega viku síðan í fjölmiðlum, en Alþingi fær ekki að sjá það fyrr en fyrir tveimur dögum. Síðan er hér lagt fram núna rétt fyrir kvöldmat frv. sem er stórt innlegg inn í húsnæðislöggjöfina og það skiptir auðvitað miklu máli fyrir umræðuna á morgun að menn fái tækifæri til að skoða þessi mál.

[17:15]

Öll félagsleg aðstoð er tekin út úr húsnæðiskerfinu og flutt inn í vaxtabótakerfið. Nú er lagt fram frv. sem felur það í sér að taka alla félagslega aðstoð upp í gegnum vaxtabótakerfið. Það er óviðunandi, herra forseti, að bjóða þingmönnum það að eiga að taka fyrir stóran lagabálk á morgun þegar honum var dreift fyrir tveimur dögum. Því til viðbótar, herra forseti, er lagt fram frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt varðandi vaxtabótakerfið sem er, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, hinn helmingurinn af umræddri löggjöf. Vaxtabótakerfið er nokkuð flókið og nokkra yfirlegu þarf til þess að sjá hvernig þessi tvö frv. falla hvort að öðru og hver niðurstaðan er fyrir láglaunafólk í landinu verði frv. tvö að lögum.

Því er það eðlileg krafa og réttmæt sem hv. þm. Svavar Gestsson setur hér fram. Ég tek undir það, herra forseti, að umræðunni um húsnæðisfrv. félmrh. verði frestað þannig að þingmönnum gefist eðlilegt tækifæri til þess að kanna samspil þeirra frv. sem hér eru lögð fram. Ég tek því undir þessa ósk hv. þm. og legg eindregið til við hæstv. forseta að hann stuðli að því að þessi mál komi ekki á dagskrá fyrr en eftir helgi.