Frestun umræðu um húsnæðismál

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:16:55 (4399)

1998-03-05 17:16:55# 122. lþ. 80.86 fundur 247#B frestun umræðu um húsnæðismál# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær kröfur sem hér hafa verið settar fram af hálfu hv. þingmanna Svavars Gestssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur. Fyrir fáeinum dögum kynnti hæstv. félmrh. frumvarp um breytingar á húsnæðiskerfinu sem margir héldu í fyrstu að væru lítils háttar breytingar og lagfæringar. Þær áttu allar að standa til bóta fyrir húsnæðiskaupendur í landinu. Nú er það að renna upp fyrir mönnum að hér er um alvarlega aðför að ræða. Það er ekki nóg með að það eigi að umturna húsnæðiskerfinu. Margt bendir til þess að hér sé á ferðinni alvarleg aðför að launafólki í landinu og aðstoð sem fólk hefur hingað til fengið verði stórlega skert með boðuðum lagabreytingum. Í rauninni er ósæmilegt af ríkisstjórninni að reyna að keyra frv. af þessu tagi í gegnum þingið á vordögum. Gert er ráð fyrir því að ljúka þinginu í lok apríl og undarlegt að láta sér detta það í hug að leggja fyrir Alþingi lagafrv. sem gerir ráð fyrir að umturna þessu kerfi. Í ofanálag eru kynnt frv. sem tengjast þessu máli og eiga að koma til umræðu á morgun. Það er lágmarkskrafa að Alþingi fái ráðrúm til að skoða staðreyndir málsins og ég tek undir kröfur um að málinu verði frestað fram yfir helgi.