Samræmd samgönguáætlun

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:26:48 (4402)

1998-03-05 17:26:48# 122. lþ. 80.18 fundur 179. mál: #A samræmd samgönguáætlun# þál., Frsm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:26]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um þáltill. um samræmda samgönguáætlun. Tillagan hefur verið afgreidd frá hv. samgn. með nefndaráliti sem samþykkt er af öllum nefndarmönnum nema Guðmundi Árna Stefánssyni og Árna Johnsen sem ekki voru viðstaddir afgreiðslu þessa máls.

Áætlunin gengur út á að samræma ýmsar áætlanir sem eru í gangi í samgöngukerfinu svo sem flugmálaáætlun, vegáætlun og hafnaáætlun og reyna að finna hagkvæmar leiðir fyrir þjóðarbúið til að nýta fjármuni til mannvirkja á þessu sviði. Um leið er þess freistað að draga úr mengun vegna óþarfa bílanotkunar ellegar að bílar séu vannýttir. Almenningur og allir þeir sem eitthvað hugsa um þessi mál vita að sífellt meira af flutningum landsmanna fara nú um vegina í stað þess að hafnir séu til þess nýttar. Það mundi örugglega draga úr mengun á Íslandi í dag að auka flutninga með skipum að nýju.

Þetta er tilraun til þess að koma fram með samræmdar og rökstuddar áætlanir, bæði fjárhagslegar og umhverfislegar. Í umsögnum sem bárust samgn. vegna þessa máls er álit þeirra sem um fjölluðu, m.a. Vegagerðarinnar, Sambands ísl. sveitarfélaga og Siglingastofnunar Íslands, einróma það að þessi tillaga væri til bóta. Í ljósi þess og þeirrar umræðu sem farið hefur fram, leggur samgn. til að taka til skoðunar efni tillögunnar og leggur til að hún verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, með leyfi forseta:

,,Í stað orðanna ,,1. apríl 1998`` í 2. mgr. tillögugreinarinnar komi: árslok 1998.``