Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:29:53 (4403)

1998-03-05 17:29:53# 122. lþ. 80.19 fundur 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:29]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir felur í sér að fella niður gjald af flugvélabensíni og þotueldsneyti sem varið hefur verið til framkvæmda samkvæmt flugmálaáætlun. Núgildandi lög segja að flugvallagjald skuli lagt á flugvélabensín og þotueldsneyti. Þó er áskilið að bandarísk flugför skuli undanþegin flugvallagjaldi. Það er í samræmi við hálfrar aldar gamlan milliríkjasamning við Bandaríkin sem á sínum tíma skaut fótunum undir það að mögulegt var fyrir Loftleiðir að keppa við önnur flugfélög á flugleiðinni milli Lúxemborgar og Bandaríkjanna þar sem félagið var með sama hætti undanþegið eldsneytisgjaldi í Bandaríkjunum.

[17:30]

Þá er í lögum kveðið skýrt á um það að ef flugfélag eigi sjálft bensínið skuli ekki tekið eldsneytisgjald af því en eingöngu af olíufélögunum. Samkeppnisstofnun hefur fjallað um þetta mál og telur að hér sé um óeðlilegar samkeppnishömlur að ræða. Í ljósi þess legg ég til að flugvallagjaldið verði lagt niður. Þetta hefur í för með sér nokkra tekjuskerðingu, á þessu ári um 45 millj. kr. en milli 60 og 70 millj. kr. á næstu árum. Ætlunin er að mæta þessu annars vegar með því að Keflavíkurflugvöllur taki á sig 18 millj. kr. sem verði mætt með hærri lendingargjöldum. Þá verði lendingargjöld í innanlandsflugi hækkuð sem nemur þeirri tekjuskerðingu sem hlýst af því að leggja eldsneytisgjaldið niður. Þá vantar á þessu ári 17 milljónir upp á að endar nái saman og 30 millj. kr. á næstu árum. Hugmyndin er sú að breyta flugmálaáætlun í samræmi við það.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.