Vegtenging milli lands og Eyja

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:38:25 (4406)

1998-03-05 17:38:25# 122. lþ. 80.22 fundur 448. mál: #A vegtenging milli lands og Eyja# þál., Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:38]

Flm. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um forkönnun á vegtengingu milli lands og Eyja. Þá tillögu flyt ég ásamt 18 öðrum hv. þm. Tillögugreinin miðar að því að fela ríkisstjórninni að láta gera forkönnun á gerð vegtengingar milli Vestmannaeyja og lands. Kannaðir verði tæknilegir möguleikar, hagkvæmni og fjárhagsleg arðsemi með tilliti til fólks- og vöruflutninga.

Gerð jarðganga milli lands og Eyja er stórt og spennandi mál. Í fljótu bragði virðist það í stærri kantinum miðað við það sem gengur og gerist á Íslandi. En þegar að er gáð eru möguleikarnir miklir og hagkvæmnin einnig mikil að mínu mati og tillögugreinin byggir á því að gengið sé úr skugga um þann þátt hugmyndarinnar bæði er lýtur að hagkvæmninni og jarðfræðilegum möguleikum.

Ég flutti fyrir um það bil tíu árum samsvarandi tillögu á Alþingi sem náði ekki fram að ganga en þá voru líka uppi allt önnur sjónarmið og menn höfðu ýmsa varnagla við gerð jarðganga á þennan hátt á Íslandi. En með farsælum og hagkvæmum verklokum á gerð jarðganga undir Hvalfjörð hafa sjónarmiðin breyst snarlega og komin er ákveðin reynsla og þekking sem sýnir möguleikana svart á hvítu.

Segja má að með gerð jarðganga milli lands og Vestmannaeyja sé verið að skapa margþætta þróun t.d. er lýtur að ferðamannastraumi sem er mjög mikill milli lands og Eyja. Þar fara um 100 þúsund farþegar árlega og eru Eyjar í þeim efnum í hópi þriggja, fjögurra staða á landinu sem flestir ferðamenn sækja. Utan Reykjavíkur eru það fyrst Hveragerði, Gullfoss, Geysir, síðan Mývatn, Akureyri og þá Vestmannaeyjar.

Það er nokkuð jafnt um flutninga milli lands og Eyja í flugi og á sjó. Hvort tveggja er háð ákveðnum annmörkum. Oft hamla veður flugi til Vestmannaeyja vegna til að mynda þoku og vinda sem blása á háey Heimaeyjar, en flugvöllurinn þar er í um það bil 100 metra hæð og er sá flugvöllur á Íslandi fyrir farþegaflug sem stendur langhæst þeirra allra.

Auðvitað er oft erfitt um vik í farþegasiglingum milli lands og Eyja því veður eru oft válynd á hafinu og siglingaleiðin milli lands og Eyja er kannski eina farþegasiglingaleiðin á Íslandi sem er ekki innan fjarðar heldur á úthafinu sjálfu, Atlantshafinu sjálfu.

Nefna má til að mynda að flutningar eru miklir frá Vestmannaeyjum. Í Vestmannaeyjum er framleitt er nemur um 10% af þjóðarverðmætum af sjávarfangi eða rúmlega það. Þar eru hins vegar nálægt 1,5% íbúanna eða tæplega fimm þúsund manns.

Ljóst er að með jarðgöngum milli lands og Eyja skapast nýir möguleikar í tengingum á vöruflutningum milli meginlands Evrópu og Íslands. Jarðgöng milli lands og Eyja mundu stytta verulega siglingaleið flutningaskipanna bæði hvað varðar útflutning og innflutning og um leið mundu sýslurnar tvær, þessar einu hafnlausu sýslur landsins, Rangárvallasýsla og Vestur-Skaftafellssýsla, fá nálægð við höfn og má segja að þær mundu eignast höfn með gerð jarðganga milli lands og Eyja. Það mundi styrkja mjög byggð á Suðurlandi öllu og er eitt þeirra atriða sem er jákvætt að leggja til grundvallar þegar metið er gildi þess að grafa jarðgöng milli lands og Eyja.

Um þrjá valkosti er að ræða þegar jarðgöng milli lands og Vestmannaeyja eru könnuð í fullri alvöru. Það eru jarðgöng eins og þau sem hafa verið boruð hér á Íslandi til að mynda undir Hvalfjörð, jarðgöng í bergi. Dýpið milli lands og Eyja er mun minna en í Hvalfirðinum, mest knappir 80 metrar en að jafnaði er þar 30--50 metra dýpi.

Að öðru leyti er um möguleika á botngöngum að ræða til að mynda eins og verið er að byggja milli Danmerkur og Svíþjóðar. Þau eru framleidd í einingarverksmiðjum. Slík göng hafa einnig verið byggð í Noregi og Japan.

Þriðji valkosturinn er sá nýjasti í þróun í þessum efnum, þ.e. eins konar flotgöng sem eru þó síður en svo leikandi eða laus á floti í hafinu heldur á festingum við botn. En þeim er lyft frá botni og í ljósi þess eru þau kölluð flotgöng.

[17:45]

Fýsilegasti möguleikinn í könnun á jarðgöngum milli lands og Eyja er e.t.v. botngangagerð því botninn er hagstæður í legu fyrir slík göng og reiknað er með að tillagan skili grófum hugmyndum um verðkostnað á þessum þremur valkostum.

Vegalengdin milli Eyja og lands er 10 km. Jarðgöngin undir Hvalfjörð eru 5 km. Það tæki innan við 10 mínútur að aka milli lands og Eyja og þetta yrði merkileg breyting, tengsl fastalandsins, eins og Eyjamenn kalla meginland Íslands að öllu jöfnu, við gullkistuna sjálfa því það hafa Vestmannaeyjar verið kallaðar öldum saman og ekki út í hött að það nafn hafi verið notað.

Það er auðvitað mikil spurning þegar velt er upp svo stóru verkefni eins og jarðgöngum milli lands og Eyja hvort einhver glóra sé í því fjárhagslega, og það er vissulega mikil glóra í því. Það er spennandi verkefni að flétta upp þennan valkost. Þeir sem hafa kannað þetta til nokkurrar hlítar í skoðun slíkrar hugmyndar hafa komist að raun um að hægt væri að öllum líkindum að afskrifa slík göng á svipuðum tíma og ætlað er að afskrifa Hvalfjarðargöngin, þ.e. á milli 25 og 30 árum. Það er ekki langur tími í afskrift jarðganga á Íslandi þar sem reiknað er með að öllu jöfnu að þau verði afskrifuð á 150--200 árum.

Það er einnig grunnhugmyndin í tillögunni og framgangi hennar að til þessa verkefnis færi ekki fjármagn af vegáætlun, það færi ekki neitt nýtt fjármagn inn í þá framkvæmd. En reiknað er með því að ef til framkvæmda ganganna kæmi mundi þörfin fyrir farþega- og flutningaskipið Herjólf leggjast niður. Og miðað við það að svipað fjármagn og fer árlega í Herjólf og miðað við það að gjaldtaka væri af umferð milli lands og Eyja um þau göng, þá er allt sem bendir til þess að fjárhagslegt öryggi framkvæmdanna og rekstrar sé tryggt. Samt sem áður væri verið að tala um verulega lækkun á kostnaði við ferðalög milli lands og Vestmannaeyja.

Það fer mikið fjármagn í það á ákveðnu árabili að endurnýja skip eins og Herjólf. Ef þessi tillaga nær fram að ganga og sýnist hagkvæm að þessu leytinu til er engin spurning að bygging jarðganga milli lands og Eyja yrði verulegur sparnaður fyrir þjóðfélagið í heild, vegna þess að skip eins og Herjólfur með mannvirkjum kostar um 2 milljarða og reiknað er með að endurnýja þurfi slíkt skip á 15--17 ára fresti. Það má reikna vexti og að sjálfsögðu má einnig reikna rekstrarstyrki sem slaga í 100 millj. kr. á ári, þannig að á 20--30 ára tímabili erum við að ræða þarna fjármagn sem þegar er búið að binda og nemur á milli 6 og 7 milljörðum kr. á tímabilinu. Það gæti verið u.þ.b. helmingur og kannski rúmlega það af stofnkostnaði við gerð jarðganga milli lands og Eyja.

Hinn þáttinn er hugmyndin að tryggja með gjaldtöku, og hvort sem menn eru að tala um 1.000 kr. eða 1.500 kr. á bíl, þá er um verulega lækkun að ræða til að mynda miðað við það að ferðast með Herjólfi svo fremi sem fólk fylgi bílunum. Möguleikarnir eru því miklir.

Reiknað er með því að í forkönnun Vegagerðarinnar yrðu tekin saman öll tiltæk gögn um jarðfræði svæðisins, sem eru töluverð, og tæknilegar lausnir kannaðar út frá þeim upplýsingum, safnað yrði upplýsingum erlendis frá um verkefni af svipuðum toga og gerð, og spá yrði gerð um fólks- og vöruflutninga milli lands og Eyja. Kostnaður yrði metinn miðað við innlenda og erlenda reynslu og hagkvæmni könnuð miðað við hugsanlega umferð um göngin. Í skýrslu um þennan áfanga kæmu einnig tillögur um framhaldsrannsóknir.

Það auðveldar ugglaust framgang þessa máls að áætlaður kostnaður við þennan þátt er aðeins um 1,5 millj. kr. Í öðrum áfanga, sem væri hægt að vinna með fyrsta áfanga og á líklega fjögurra mánaða tímabili, yrðu gerðar rannsóknir á botni og aðstæðum í Eyjum og landi, gerð yrði skýrsla um hagkvæmustu tillögu og tæknilega lausn og um staðsetningu. Þá yrði kostnaðaráætlun endurmetin með tilliti til aukinna upplýsinga. Áætlaður kostnaður við þennan þátt er 5 millj. kr. Auðvitað mundu umfangsmeiri og dýrari rannsóknir þurfa að fara fram síðar til undirbúnings framkvæmda ef af þeim yrði. En fjöldi þeirra sem ferðast milli lands og Eyja fer sívaxandi ár frá ári og hefur fólki að jafnaði fjölgað um 12--15% á ári um langt árabil. Með tilliti til þess og til þeirra möguleika sem hafa orðið í þróun, þá er það lág upphæð að reikna með milli 6--7 millj. kr. til að ganga úr skugga um möguleika þessa spennandi verkefnis.

Með þáltill. fylgir veglegt rit sem Ingi Sigurðsson tæknifræðingur vann í samvinnu við Vegagerðina og ýmsa aðra þegar hann var við nám fyrir fáum árum í Tækniskóla Íslands og er þar mjög ítarleg úttekt á ýmsum þáttum er lúta að þeirri könnun sem ég hef vikið að.

Ástæða er til að vekja athygli á því að þó að ímyndin milli lands og Eyja sé djúpt haf og erfitt þá hefur tæknin boðið upp á möguleika sem gefa nýja valkosti og nýja möguleika. Að lokinni umræðu um þessa till. til þál. legg ég til að henni verði vísað til samgn.