Atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:59:47 (4408)

1998-03-05 17:59:47# 122. lþ. 80.24 fundur 495. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# (undanþágur) frv., 496. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga# (undanþágur) frv., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:59]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka þá heimild að mega taka bæði þessi mál til umfjöllunar saman. Þau fjalla um sama efni og því þótti mér eðlilegt að leggja fram þá beiðni en í þeim er lagt til af flutningsmönnum að breytingar verði gerðar á bráðabirgðaákvæðum laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna annars vegar og hins vegar vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum.

[18:00]

Ástæða þess, herra forseti, er að með þróun í skipasmíðum og skipakosti hafa skip stækkað og vélarafl aðalvéla þeirrar vaxið. Þannig hafa skipstjórnarmenn og vélstjórnarmenn lent í því, ef svo má segja, að réttindi sem þeir hafa aflað sér með námi og prófum hafa ekki verið talin duga. Í hvorum tveggja lögum er gert ráð fyrir möguleikum til undanþágu en í frumvörpunum er lagt til að breytt verði ákvæði til bráðabirgða sem auðkennt er B, og átti við um menn sem voru orðnir fimmtugir eða eldri við setningu laganna árið 1984, á þann veg að það eigi framvegis við um menn sem orðnir eru fimmtugir en að sömu skilmálar og áður eigi við um undanþáguna. Þeir þurfa að hafa starfað undanfarin tíu ár á undanþágu við sömu störf. Með þessu móti yrði heimilað að gera þá undanþágu varanlega.

Með þessu móti er ætlunin að taka tillit til aðstæðna þeirra sem orðnir eru það fullorðnir að þeir eiga erfitt um vik af ýmsum ástæðum að hverfa aftur til náms en hafa orðið fyrir því að réttindi þeirra standast ekki þá stækkun sem gerð hefur verið á skipunum sem þeir stjórna eða á vélarafli véla sem þeir sinna.

Í öðru lagi, herra forseti, er í b-lið 1. gr. síðara frv. fjallað um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða. Með þeirri tillögu er lagt til að við þau lög bætist bráðabirgðaákvæði, sambærilegt því sem er í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. Það gengur út á að þegar skip er stækkað, í þessu tilviki væri vélin stækkuð, þannig að réttindi vélstjóra duga ekki lengur, þá sé heimild fyrir sérstakri undanþágu til að gegna áfram sömu stöðu á sama skipi hafi viðkomandi full réttindi á næsta stigi.

Ég tel, herra forseti, að frumvörpin og greinargerðir með þeim skýri málið fyllilega og legg til að þeim verði vísað til athugunar í hv. samgn.