Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:16:52 (4413)

1998-03-06 11:16:52# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:16]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Öll lönd hafa með sér ákveðin siðferðikerfi og við höfum okkar sem byggir á kristinni trú. Önnur lönd hafa siðferðikerfi sem byggja á múhameðstrú o.s.frv. Þegar slík kerfi rekast á er ákaflega erfitt að dæma eitt kerfi með rökum hins kerfisins og það er eiginlega ómögulegt.

Herra forseti. Við verðum samt sem áður að gera ráð fyrir því að í öllum kerfum séu ákveðin lágmarksmannréttindi sem ekki megi hvika frá. Það má ekki hvika frá þeim, hvorki sökum kurteisi, hagsmuna né ótta. Það sem er að gerast í Afganistan er ekki siðfræði. Það hafa ekki verið færð rök fyrir því að það sem er að gerast þar eigi sér nokkra stoð í siðfræði múhameðstrúar. Þess vegna er þetta ekki spurning um siðfræði heldur völd. Þetta er um vald og ríkið er að berja á eigin þegnum, bæði körlum og konum. Þetta minnir dálítið á skelfilega stöðu mála í Kambódíu eftir valdatöku rauðu khmeranna, sem líka byggðu á ofsatrú, þ.e. trú á kommúnismann.

Herra forseti. Þjóðir heims eru vanmáttugar að vissu leyti til að hafa áhrif á einstök ríki sem kúga eigin þegna, eins og við höfum séð í Írak og víðar. Við stöndum vanmáttug gagnvart þessu. En við megum samt sem áður ekki standa aðgerðalaus hjá og ég skora á hæstv. utanrrh. að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til þess að bæta stöðu þegnanna í Afganistan og alveg sérstaklega kvenna.