Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:20:55 (4415)

1998-03-06 11:20:55# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Það var sannarlega ástæða til. Það er ömurlegt til þess að vita að svo virðist sem að þjáningar afgönsku þjóðarinnar ætli engan enda að taka. Sigurgöngu talebanahreyfingarinnar fylgir sú óhuggulega skuggahlið umfram sem það var þegar þeir ríktu félagar Masood og Hekmatyar að konur eru nú sviptar öllum almennum mannréttindum og var þó ekki af miklu að taka á þessu landsvæði. Þetta bætist við þær hörmungar sem konur og börn hafa orðið að þola í áralangri borgarastyrjöld í landinu þar sem pyndingar og nauðganir hafa verið daglegt brauð um meira en tíu ára skeið.

Heimsbyggðin öll ber heilmikla ábyrgð á þessu ástandi því að þeir eru ekki að berjast vopnlausir þarna í Afganistan. Þau koma einhvers staðar frá og það færir okkur heim sanninn um það að ekkert annað en afvopnun dugar sem raunhæf lausn til að leysa vanda af því tagi sem þarna er við að glíma.

Reyndar er ástandið í Afganistan angi af vandamáli sem menn standa miklu víðar frammi fyrir, þó ekki sé það jafnóhuggulegt og þar, þ.e. þar sem rekast á gildi sem við flokkum til grundvallarmannréttinda, hlutir eins og ferðafrelsi, réttur til menntunar og atvinnuþátttöku og forneskjuleg trúarbrögð sem valdaræningjar gera út á, sem nær væri reyndar í þessu tilviki að kalla skipulögð kúgunarkerfi sem sérstaklega beinast gegn konum. Reyndar er nauðsynlegt að hafa í huga að það sem ofstækismenn og bókstafstrúarmenn eru að gera í Afganistan gengur langt út yfir alla eðlilega túlkun á trúarbrögðum íslams.

Samúð okkar hlýtur að vera með almenningi og konum og börnum í þessum löndum og þessu landi, Afganistan, og við hvetjum íslensk stjórnvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leggja þeim lið.