Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:27:45 (4418)

1998-03-06 11:27:45# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), BirnS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:27]

Birna Sigurjónsdóttir:

Hæstv. forseti. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars koma konur víða um heim saman undir merkjum kvennabaráttu og beina nú sjónum sérstaklega að konum í Afganistan en þær líða kvennakúgun í sinni alvarlegustu mynd. Þær hafa verið sviptar mannréttindum. Þeim er meinað að vera á ferli utan dyra nema í fylgd karlmanns úr fjölskyldu sinni, gert að hylja andlit sitt og líkama. Þær hafa verið reknar heim úr störfum sínum og stúlkur fá ekki menntun þar sem skólum þeirra hefur verið lokað.

Konur í borginni Kabúl höfðu í 100 ár fylgt konum á Vesturlöndum í auknum réttindum, rétti til menntunar, starfs og sjálfstæðs lífs. Fyrir þessar konur var valdataka talebana gífurlegt áfall, nær að segja endir á lífi þeirra. Þær voru í einu vetfangi hnepptar í fjötra einangrunar og ósjálfstæðis. Hvar sem konur koma saman undir merkjum kvenfrelsisins hljóta þær að láta til sín taka hróplegt misrétti eins og nú viðgengst í Afganistan.

Erum við stikkfrí? Undir því kjörorði efnir Kvennalistinn til málþings um kvennapólitískt alþjóðastarf, eins og fram kom hér áðan. Svarið er auðvitað: Við erum ekki stikkfrí. Það er mikilvægt að íslenska ríkisstjórnin beiti sér á alþjóðavettvangi gegn stjórn sem stendur að kynjaaðskilnaðarstefnu þar sem konur eru sviptar grundvallarmannréttindum. Konur og karlar þurfa að beita sér hér heima, á alþjóðavettvangi og hvar sem kostur er gegn kvennakúgun og misrétti.