Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:29:48 (4419)

1998-03-06 11:29:48# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:29]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt í þessari umræðu að átta sig á því að sú kvennakúgun sem um er að ræða í Afganistan er sennilega sú versta sem um getur á jörðinni um þessar mundir. Hún er algjörlega einstakur viðbjóður. Ég hvet alla þingmenn sem hafa hugsað um þessi mál og skoðað þau í samhengi, til að kynna sér einstök atriði í þeim efnum sem er auðvelt aðgöngu á netinu þar sem eru rakin dæmi um örlög fjölskyldna og kvennahópa sem eru hræðilegri en ég hef nokkurn tíma áður séð á prenti eða í texta. Hér er því um að ræða algjörlega afbrigðilegan óþverra gagnvart konum og það er ekki hægt að tala um framkomu gagnvart konum í Afganistan eins og einhvers staðar annars staðar. Þetta er það versta sem nokkurs staðar gerist.

[11:30]

Þarna er um að ræða skipuleg fjöldamorð á konum í skjóli stjórnvalda, í skjóli þeirra sem ráða. Um er að ræða skipulagðar fjöldanauðganir í skjóli stjórnvalda og skipulagðar ofsóknir þar sem konur eru grýttar á götum úti í skjóli stjórnvalda á grundvelli þeirra laga, ef lög skyldi kalla, sem gilda í þessu landi. Staðan er þannig, eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir benti á áðan, að konur hafa ekki fengið að komast á sjúkrahús. Þeim er hent þaðan út. Þeim er bannað að leita sér lækninga í neyð. Hér er um að ræða svo hrikalegt ástand að ég held að við verðum að meðhöndla málið í samræmi við það.

Um leið og ég þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp þá finnst mér að Alþingi eigi líka að bregðast sérstaklega við. Alþingi á að samþykkja ályktun um að mótmæla þessu og hvetja alþjóðasamfélagið til að beita öllum tiltækum ráðum gegn þeim stjórnvöldum sem bera ábyrgð á kvennakúguninni í Afganistan, öllum tiltækum ráðum því að það er óþarfi að líða þennan viðbjóð stundinni lengur.