Kúgun kvenna í Afganistan

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:34:35 (4421)

1998-03-06 11:34:35# 122. lþ. 81.92 fundur 249#B kúgun kvenna í Afganistan# (umræður utan dagskrár), Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:34]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin sem hann náði að koma að í sínu máli. Ég vonast til að fá svör við restinni í síðari ræðu hans. Ég vil einnig þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Hæstv. utanrrh. sagði að það hefði verið til umræðu á vettvangi utanríkisráðherra Norðurlanda hvað hægt væri að gera í þessum efnum og ég vil beina til hans spurningu til viðbótar: Hvaða niðurstöðu komust menn að þar? Hvað hugsa þessir hæstvirtu ráðherrar sér að gera?

Hæstv. utanrrh. sagði að þátttaka í starfi og ályktunum Sameinuðu þjóðanna af hálfu Íslands hafi verið nokkur og ég tel að það sé mjög mikilvægt. En það hefur ekki nægt og meira þarf til. Ég vil vekja athygli á því að við erum sjálfstæð þjóð með sjálfstæða utanríkispólitík og þess vegna vil ég ítreka hvatningu mína til þess að utanrrh. beiti sér sérstaklega í krafti síns embættis í þessu máli og ríkisstjórnin öll.

Um leið vil ég líka hvetja hæstv. utanrrh. til þess að beita sér fyrir því að fjölga konum í utanríkisþjónustunni því þar eru konur jafnsjaldséðar og hvítir hrafnar, eða samkvæmt handbók utanrrn. ein af 23 sendiherrum, ein af 15 sendifulltrúum og tvær af átta sendiráðunautum. Slík hlutföll eru algjörlega óásættanleg og í raun merkilegt að þrátt fyrir alla þá sáttmála sem við höfum bundist og lögin um jafna stöðu kvenna og karla, að þetta skuli enn vera raunin í utanríkisþjónsutunni. Það má kannski spyrja sig að því hvort málefnum kvenna víðs vegar um heiminn væri gefinn meiri gaumur ef þessi hlutföll væru öðruvísi. Ég hallast reyndar að því að svo geti verið því eins og bent hefur verið á í umræðunni þá eru það einmitt konur, þ.e. konur sem sinna háum stöðum í utanríkisþjónustu, sem hafa sérstaklega vakið alþjóðlega athygli á málefnum kvenna í Afganistan.