Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:50:30 (4428)

1998-03-06 11:50:30# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um húsnæðismál á þskj. 877. Þessu frv. fylgir annað frv. um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög. Eins og kunnugt er hefur fjmrh. flutt frv., á þskj. 900, um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. vaxtabótaþátt þeirra laga.

Einnig ber að minnast þess að fyrir jólin afgreiddum við á Alþingi lagasetningu um húsaleigubætur. Þar var ákveðið að húsaleigubætur skyldu greiddar í öllum sveitarfélögum og á allt leiguhúsnæði, líka leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaga.

Hvers vegna er ástæða til að breyta lögum, herra forseti? Í fyrsta lagi eru mjög margir íbúar í félagslega eignaríbúðakerfinu óánægðir. Í öðru lagi hafa mjög margir misst íbúðir sínar og standa uppi með miklar skuldir. Í þriðja lagi eru ýmsir þeir sem skilað hafa eignaríbúðum mjög óánægðir með þann viðskilnað. Þeir standa uppi slyppir og eignamyndun þeirra hefur ekki verið sú sem þeir töldu að hún hefði átt að vera. Í fjórða lagi er félagslega íbúðakerfið alls staðar orðinn mikill baggi á sveitarfélögunum, sérstaklega sumum þeirra. Í fimmta lagi stefnir Byggingarsjóður verkamanna í greiðsluþrot ef ekki verður að gert. Í sjötta lagi er rekstur Húsnæðisstofnunar mjög dýr. Hann er að sjálfsögðu borgaður af þeim sem lánin taka. Hefði ekki verið hægt að láta þetta dankast samt og bíða betri tíma?

Reynt hefur verið að bæta úr ýmsum ágöllum á húsnæðislöggjöfinni í minni ráðherratíð og ég hef flutt nokkur frv. þar um. Á bls. 38--56 í þessu frv. er rakið hver þróun húsnæðislöggjafar hefur verið undanfarna áratugi. Það er mjög merkileg saga. Það hefur allt verið gert í góðri trú á hverri tíð. Stundum hefur tekist vel til, stundum hafa orðið slys. Bætt hefur verið úr mjög sárum húsnæðisskorti. Heilsuspillandi húsnæði í landinu hefur verið útrýmt og við lifum breytta tíma.

Þegar ég kom í félmrn. hófumst við handa um að kanna ýmsa þætti húsnæðismála og gera okkur grein fyrir hvernig tillögur ættu að vera til úrbóta. Sú saga er rakin á bls. 30--38 í þskj. Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á Húsnæðisstofnun. Vinnuhópur Sambands ísl. sveitarfélaga gerði skýrslu um félagslega húsnæðiskerfið. Ég setti á fót nefnd um félagslegar íbúðir sveitarfélaga og þess má geta að í þeirri nefnd sat Kristján Gunnarsson sem fulltrúi Alþýðusambands Íslands.

Nefnd um endurskipulagningu Húsnæðisstofnunar var sett á fót. Í henni sátu hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Halldór Árnason, skrifstofustjóri í fjmrn., Hákon Hákonarson, stjórnarformaður Húsnæðisstofnunar, Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., Sigríður Lillý Baldursdóttir skrifstofustjóri, Sigurður E. Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Húsnæðisstofnunar og Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður minn, sem leiddi starfshópinn.

Settur var á fót starfshópur um greiðslumat. Hann hefur skilað áliti. Fyrir lá samþykkt Sambands stjórnar ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið frá 20. nóv. 1996.

Frumvörpin eru byggð á vinnu þeirra aðila sem ég hef talið hér og unnin undir handleiðslu tveggja starfshópa. Annar var kallaður samráðshópur. Í honum voru Árni Gunnarsson, formaður, Karl Björnsson, bæjarstjóri á Selfossi, Páll R. Magnússon, formaður húsnæðisnefndar Reykjavíkur, tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Einnig sátu í hópnum Gunnar S. Björnsson, varaformaður Húsnæðisstofnunar, og Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjmrh.

Hinn starfshópurinn var einnig undir forustu Árna Gunnarssonar. Í honum sátu Hákon Hákonarson, formaður Húsnæðisstofnunar, Gunnar S. Björnsson, varaformaður Húsnæðisstofnunar, Páll Gunnar Pálsson, deildarstjóri í iðn.- og viðskrn. og Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjmrh. Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri var starfsmaður beggja hópanna. Jón Sveinsson lögfræðingur og Þórhallur Vilhjálmsson lögfræðingur unnu síðan að því að skrifa frv. Öllum þessum kann ég hinar bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Hér er um að ræða heildarlöggjöf um húsnæðismál. Hún er mun einfaldari en gildandi löggjöf um húsnæðismál sem er byggð á löngum tíma og æðiflókin. Hér er byggt á eldri löggjöf, haldið í það sem vel hefur reynst en öðru breytt.

Helstu atriðin eru þessi:

Húsnæðisstofnun verður lögð niður.

Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verða sameinaðir í Íbúðalánasjóð og eignir Húsnæðisstofnunar renna jafnframt til hans. Íbúðalánasjóður lýtur ráðherraskipaðri stjórn fimm manna, skipuðum til fjögurra ára. Stjórnin ræður framkvæmdarstjóra til fimm ára og framkvæmdarstjóri ræður annað starfsfólk. Ég mun beina því til væntanlegs framkvæmdarstjóra að hann láti núverandi starfsmenn Húsnæðisstofnunar sitja fyrir störfum. Þó er augljóst að fólki mun fækka. Nokkrir af starfsmönnum Húsnæðisstofnunar eru að nálgast eftirlaunaaldur en ég vil láta það koma fram að þar vinnur mikið af úrvalsfólki.

Húsbréfakerfið helst óbreytt í almennum húsnæðisviðskiptum. Íbúðalánasjóður á að verða sjálfbær með tímanum. Einn liður í því er að gert er ráð fyrir skuldbreytingum eldri lána sem Íbúðalánasjóður hefur tekið. Með skuldbreytingunni er hægt að ná umtalsvert betri kjörum en byggingarsjóðirnir búa við í dag. Þessi sjóður verður mjög sterkur. Hann á mikið eigið fé, 26 milljarða, og mun eiga kost á bestu lánskjörum.

Þá verður að gera ráð fyrir því að afgreiðsla húsbréfa, greiðslumat og verðmat færist til lánastofnana sem þá yrðu verktakar. Þetta er að vísu ákvörðunaratriði nýrrar stjórnar. Ég tel að það sé ekki rétt að fara út í þessa breytingu nema menn séu sannfærðir um að það sé hagkvæmara fyrir neytendur.

[12:00]

Greiðslumat í almenna kerfinu verður áfram miðað við 25 ára endurgreiðslutíma. Húsbréfakerfið hefur reynst í stórum dráttum vel og sérstaklega nú í seinni tíð eftir að menn vöndust því. Og þau gleðitíðindi gerðust í gær að vextir af húsbréfum fóru í fyrsta sinn niður fyrir 5% og engin afföll eru á húsbréfum.

Meginbreytingarnar sem lagðar eru til í þessari löggjöf eru þær að félagslega húsnæðiskerfið verður lagt af um næstu áramót, því verður sem sagt lokað. Íbúar í kerfinu halda að sjálfsögðu réttindum sínum en það tekur tíma að ljúka gamla kerfinu og gera það upp eða úrelda það og þess vegna eru ítarleg ákvæði til bráðabirgða í frv. sem lúta að því. Það verður tekið upp nýtt félagslegt lánakerfi um næstu áramót. Sá sem er innan skilgreindra marka um tekjur, eignir, skuldir og framfærsluþörf og stenst ekki greiðslumat almenna kerfisins með 25 ára endurgreiðslutíma og húsbréf fyrir 65% eða 70% kaupverðs getur snúið sér til húsnæðisnefndar síns sveitarfélags og óskað eftir viðbótarláni sem Íbúðalánasjóður veitir fyrir milligöngu sveitarfélags.

Greiðslumatið verður miðað við 40 ára endurgreiðslutíma hjá því fólki. Það fær húsbréf fyrir 65% eða 70% af kaupverði íbúðarinnar, 70% ef um fyrstu íbúð er að ræða. Viðbótarlánið verður 20% eða 25% með breytilegum vöxtum og gert er ráð fyrir að það verði peningalán. Húsbréfalán plús viðbótarlán verða aldrei hærri en 90%.

Það er rétt að undirstrika að sveitarfélögunum ber skylda til að aðstoða íbúa við öflun húsnæðis. Kaupskylda sveitarfélaga á íbúðum í nýja kerfinu verður ekki til staðar og fellur niður við fyrstu sölu í eldra kerfi eftir gildistöku laganna.

Viðkomandi velur sér sjálfur íbúð á markaði. Hann getur nýtt eigin vinnukraft til aukinnar eignamyndunar. Íbúðirnar koma til með að dreifast betur um sveitarfélögin, en í núverandi kerfi er alvarlegt að hætta er á því að byggðin verði lagskipt, þ.e. auðmannahverfi og síðan önnur hverfi þar sem tekjulægra fólk á heima. Viðkomandi er frjálst að selja íbúðina á frjálsum markaði hvenær sem er enda greiði hann upp viðbótarlánið við Íbúðalánasjóð eða afli samþykkis Íbúðalánasjóðs um yfirtöku kaupanda á viðbótarláninu.

Húsbréfalánið er veitt með veði í viðkomandi fasteign. En til frekari tryggingar á viðbótarláninu skal viðkomandi sveitarfélag greiða upphæð sem svarar 5% af upphæð hvers viðbótarláns sem veitt er í viðkomandi sveitarfélag í sérstakan varasjóð, sem skal vera á ábyrgð sveitarfélaga, í vörslu Íbúðalánasjóðs. Hlutverk varasjóðsins er að standa undir útlánatöpum vegna viðbótarlána og vegna kostnaðar vegna uppboðsmála eigna sem viðbótarlán hvíla á. Varasjóður lýtur sérstakri stjórn og hana skipa þrír menn frá sveitarfélögunum, einn frá fjmrh. og einn frá félmrh.

Framkvæmdalánum verður hætt. Þau eru í eðli sínu verktakalán og verktakar hafa nóga möguleika til að fjármagna húsbyggingar.

Tryggingarsjóður vegna byggingargalla verður lagður niður og eignir hans renna til varasjóðs.

Í eldra kerfi hefur félagsleg jöfnun einkum falist í vaxtabótum og niðurgreiðslu vaxta. Niðurgreiðsla vaxta Byggingasjóðs verkamanna nam 1996 838 millj. kr. vegna félagslegra eignaríbúða. Nú færist hin félagslega aðstoð frá niðurgreiddum vöxtum yfir í vaxtabætur, auk hagræðisins af 40 ára lánstíma og viðbótarláni.

Vaxtabótakerfinu verður breytt og vísa ég þá til frv. á þskj. 900 frá hæstv. fjmrh. Vaxtabætur verða samtímagreiðslur og greiddar fjórum sinnum á ári, skuldajafnað í opinber gjöld, meðlög og gjaldfallnar afborganir og vexti af lánum Íbúðalánasjóðs. Það er ekki gert ráð fyrir nýjum viðmiðunum varðandi vaxtabætur til einstaklinga að öðru leyti en því að þær taka við auknu félagslegu hlutverki í félagslega kerfinu og einnig eiga þeir sem hafa fengið vaxtabætur samfellt í 25 ár rétt á að skerðingarhlutfall lækki um 0,5% á ári af tekjuskattsstofni.

Nú kann einhver að segja að vaxtabætur séu ekki eins öruggar og niðurgreiddir vextir. Þessu er þveröfugt farið. Fyrrv. félmrh. hækkaði vexti úr 1% upp í 2,4% og í 4,9% með einni undirskrift. Breyting á vaxtabótum þarfnast lagabreytingar og þriggja umræðna á Alþingi. Ég vil leyfa mér að vitna til yfirlýsingar frá fjmrh. á bls. 101 í þskj., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Yfirlýsing fjármálaráðherra um samráð við félagsmálaráðherra um ákvarðanir er snerta vaxtabætur og fjárhæð þeirra.

Frumvarp til laga um húsnæðismál gerir ráð fyrir að horfið verði frá félagslegri fjárhagsaðstoð vegna íbúðarhúsnæðis í formi lána með niðurgreiddum vöxtum. Þess í stað verði farvegur fjárhagsaðstoðarinnar húsaleigubætur, sbr. ný lög frá því í desember sl., og vaxtabætur skattkerfisins, sbr. fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum tekjuskattslaga.

Um leið og félagsleg fjárhagsaðstoð hins opinbera verður markvissari en áður er mikilvægt að tryggja að fyllsta samræmis verði gætt við allar ákvarðanir sem lúta að vaxtabótum og annarri húsnæðisaðstoð. Hlutaðeigandi ráðuneyti munu því verða að hafa náið samstarf um mögulegar breytingar á aðstoðinni í framtíðinni og fjármálaráðherra fullt samráð við félagsmálaráðherra um meðferð og ákvörðun vaxtabóta.

Friðrik Sophusson. Magnús Pétursson.``

Vaxtabótunum verður sem sagt ekki breytt nema á ábyrgð félmrh.

Í hinu nýja kerfi er gert ráð fyrir 90% hámarksláni. 10% verður viðkomandi að leggja fram sjálfur. Þetta er nokkur breyting því að í gamla kerfinu hafa menn undir sérstökum kringumstæðum átt kost á 100% láni. En 100% lánin hafa gefið mjög slæma raun. 1996 var þriðjungur nauðungarsöluíbúðanna með 100% láni. Það er mikill ábyrgðarhluti að freista algjörlega eignalausra einstaklinga til að stofna til skuldbindinga sem þeir ráða engan veginn við og missa síðan íbúðirnar á nauðungaruppboð sem slegnar eru á verði langt undir skuldum, og standa svo uppi með margar milljónir á bakinu og öll sund lokuð til lánafyrirgreiðslu fyrr en að skuld við Húsnæðisstofnun er a.m.k. að fullu greidd. Það er miklu betra fyrir eignalausa að fá hjálp á leigumarkaði þar til úr rætist.

Ég leyfi mér, herra forseti, að minna á 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en hún hljóðar svo:

,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.``

Það er rétt að geta þess að kaupleigukerfinu verður lokað um næstu áramót.

Sveitarfélögin eru örvuð til að auka framboð leiguhúsnæðis með lánum sem verða niðurgreidd í fyrstu og bera 1% vexti. Þau verða örvuð til að breyta félagslegum eignaríbúðum í leiguíbúðir. Það má búast við auknum innlausnum sveitarfélaga. Sveitarfélögin geta þá gert upp félagslega lánið og fengið lán á 1% vöxtum.

Í öðru lagi verða þau örvuð til að byggja eða kaupa íbúðir til leigu. Reykjavíkurborg hefur t.d. kynnt mér áform um kaup eða byggingu 100 lítilla íbúða til að mæta eftirspurn fyrir slíkar íbúðir á leigumarkaði.

Ástæða er til að minna á lög um húsaleigubætur frá því um síðustu áramót og nú eru greiddar húsaleigubætur um allt land á allt leiguhúsnæði í öllum sveitarfélögum og teknar verða upp viðræður við sveitarfélögin um aukið framboð leiguhúsnæðis og fyrirkomulag lánskjara.

Þá vil ég minna á mikilvægt hlutverk húsnæðisnefndar sveitarfélaga og ítreka enn og aftur lagaskyldu sveitarfélaga í húsnæðismálum.

Ég vil einnig benda á breytt stjórnsýsluhlutverk félmrh. og stjórnar Íbúðalánasjóðs. Kærusamband Húsnæðisstofnunar og félmrh., sem komið var á 1993, er rofið. Komið verður á sérstakri faglegri kærunefnd húnæðismála og hún mun skera úr ágreiningsefnum sem kunna að rísa vegna ákvarðana stjórnar Íbúðalánasjóðs og ákvarðana húsnæðisnefnda sveitarfélaga. Úrskurðum kærunefndar verður ekki skotið til félmrh. og félmrh. verður ekki með puttana í einstökum lánveitingum.

Herra forseti. Hér er um mjög mikilvæga og brýna löggjöf að ræða sem mun verða þjóðfélaginu til farsældar, sérstaklega hinum tekjulægri og þeim sem verr eru settir. Í fskj. I á bls. 76--91 er gerður samanburður á eldra kerfi og nýju kerfi. Í öllum dæmunum, sem eru raunhæf og venjuleg, sést að greiðslubyrði er verulega léttari á fyrsta hluta lánstímans, hins vegar heldur þyngri á síðari hluta. Á 40 árum verður áþekk útkoma, lægri í átta af ellefu dæmum en heldur hærri í þremur.

Heildargreiðslubyrði hjóna í 7 millj. kr. íbúð, með 150 þús. kr. tekjur á mánuði, er 205 þús. á ári í eldra kerfi en 160 þús. á ári í nýju kerfi fyrstu árin. Einstætt foreldri með 80 þús. kr. tekjur á mánuði, sem kaupir íbúð á 5,5 millj. kr., er með heildargreiðslubyrði 140 þús. árlega í eldra kerfi en 112 þús. á ári í nýju kerfi fyrstu árin, eða innan við 10 þús. kr. á mánuði.

Herra forseti. Ég tel að hér sé um mjög mikilvæga löggjöf að ræða og vonast eftir að hún verði afgreidd fyrir vorið. Gildistaka er um næstu áramót og það þarf nokkurn umþóttunartíma frá því að lögin eru sett þangað til nýtt skipulag er tekið upp. Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, geri ég tillögu um að málinu verði vísað til hv. félmn.