Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 12:40:20 (4429)

1998-03-06 12:40:20# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[12:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. 70 ára saga félagslegra íbúða á Íslandi hefur gjörbreytt húsnæðisaðstöðu láglaunafólks og orðið til þess að lægst launaða fólkinu hefur gegnum marga síðustu áratugi verið gert kleift að koma sér sómasamlegu þaki yfir höfuðið. Verkalýðshreyfingin og félagshyggjuöflin hafa staðið vörð um þessa félagslegu aðstoð fyrir láglaunafólk og hrundið allri atlögu hægri aflanna sem hvað eftir annað hafa reynt að slá af þessa mikilvægu aðstoð til láglaunafólks sem oft hefur ráðið úrslitum um framfærslumöguleika þeirra.

Herra forseti. Niðurlæging Framsfl. er því algjör þegar þeir nú ganga í björg fyrir íhaldið og framkvæma stefnu þeirra í húsnæðismálum sem er andstæð hagsmunum láglaunafólks.

Hver er stefna Sjálfstfl. í húsnæðismálum? Hún var samþykkt á landsfundi Sjálfstfl. 1996 og þar segir að leggja eigi byggingarsjóðina niður, sameina þá í eina sjálfstæða lánastofnun sem fjármagni íbúðalán og hin nýja lánastofnun verði einkavædd fyrir aldamótin og Húsnæðisstofnun ríkisins verði lögð niður í núverandi mynd. Það er akkúrat þessi stefna, herra forseti, sem hæstv. félmrh. er hér að framkvæma fyrir íhaldið. Ekki var þessa stefnu að finna, herra forseti, í þeim bæklingi sem framsóknarmenn gáfu út fyrir kosningar. Það var ekki orð um að það ætti að slá af félagslega kerfið. Auðvitað er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en svik alveg eins og svik framsóknarmanna eru gagnvart því sem þeir lofuðu fólki um greiðsluaðlögun og skuldbreytingu aldarinnar.

Það er einu sinni svo, herra forseti, að íhaldið hefur mörg undanfarin ár reynt að koma í framkvæmd þeirri stefnu sem hæstv. félmrh. er nú að fylgja eftir fyrir Sjálfstfl. en þeir sem hafa verið í félmrn. á undan hæstv. núv. félmrh. hafa komið í veg fyrir það að Sjálfstfl. hafi komið í gegn sinni einkavæðingu á félagslega kerfinu. Þetta er, herra forseti, grófasta atlaga að láglaunafólki sem við höfum séð um áratuga skeið og ekki hægt að kalla það annað en hreint skemmdarverk að ganga milli bols og höfuðs á félagslegri aðstoð láglaunafólks í húsnæðismálum og rústa í einu vetfangi aðstoð við láglaunafólk í húsnæðismálum. Vinnubrögð hæstv. félmrh. eru síðan sérkafli fyrir sig. Það var ekkert samráð haft við verkalýðshreyfinguna. Nokkrum mínútum áður en hæstv. félmrh. kynnti þetta mál í fjölmiðlum voru forustumenn verkalýðshreyfingarinnar kallaðir á fund félmrh. til að kynna þeim þessar breytingar sem nú eru á döfinni.

Þetta frv., herra forseti, sem rústar félagslega kerfið á að keyra í gegn á einum mánuði þar sem slegin er af öll félagsleg aðstoð við láglaunafólk en félagslega kerfið hefur tryggt öryggi þeirra verst settu í húsnæðismálum í marga áratugi. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum, herra forseti, sem félmrh. viðhefur hér.

Þessi atlaga að félagslega kerfinu hefur lengi verið í undirbúningi. Við höfum undanfarna mánuði og missiri eða allt frá því að núv. félmrh. tók við í félmrn. hlýtt á áróður félmrh. gegn félagslega íbúðakerfinu. Hann hefur haldið því fram sýknt og heilagt að hér standi félagslegar íbúðir auðar um allt land, félagslega kerfið sé að sliga öll sveitarfélögin í landinu, Byggingarsjóður verkamanna sé á hausnum, félagslega kerfinu sé stefnt í þrot og aftur og aftur hefur hann haldið uppi linnulausum áróðri gegn Húsnæðisstofnun. Er það svo að hér eigi að fara að breyta öllu félagslega kerfinu vegna þess að íbúðir standi auðar um allt land og er það rétt að íbúðir standi auðar um allt land, herra forseti? Hver er staðreynd þess máls?

Í október 1996 voru 116 auðar íbúðir í tvo mánuði eða lengur, 79 í sex mánuði eða lengur og 32 íbúðir í eitt ár eða lengur. 32 íbúðir, herra forseti, af 11 þúsund íbúðum stóðu auðar í eitt ár eða lengur. Á að umbylta félagslega kerfinu vegna þess? Ég segi auðvitað nei, herra forseti.

Hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að Byggingarsjóður verkamanna sé á hausnum. Hverjum er það að kenna ef Byggingarsjóður verkamanna stendur illa? Engum öðrum en hæstv. félmrh. sjálfum vegna þess að þegar hann settist í stól félmrh. þá var skorið grimmilega niður ríkisframlagið í Byggingarsjóð verkamanna sem þarf að vera eins og fram kemur í greinargerð ráðherrans með þessu frv. 800--900 millj. kr. á hverju ári í niðurgreiðslur en ráðherran lætur í framlög í Byggingarsjóð verkamanna um 275 millj. kr.

[12:45]

Er það svo að þessir sjóðir, sem nú á raunverulega að fara að leggja niður, hafi orðið fyrir verulegum útlánatöpum? Lítum aðeins á það, herra forseti, hvort þess vegna sé ástæða til að leggja niður félagslega aðstoð í húsnæðismálum á Íslandi.

Á árunum 1990--1994 voru útlánatöp ríkisviðskiptabanka og ýmissa sjóða atvinnulífsins tæpir 22 milljarðar kr., en húsbyggingarsjóðirnir báðir, Byggingarsjóður verkamanna og Byggingarsjóður ríkisins voru samtals með útlánatöp á þessum árum upp á 65 millj. kr. Sjóðir fólksins, útlánatöp á fjórum árum 65 millj. kr. en sjóðir atvinnulífsins og bankarnir með útlánatöp upp á 22 milljarða kr. Er þetta ástæða, herra forseti, til að gera þær breytingar sem hæstv. ráðherra boðar nú, sem felast í því að rústa félagslega aðstoð við þá lægst settu og láglaunafólk hér á landi? Ég segi auðvitað nei, herra forseti.

Hvert á að vera markmiðið með félagslegum íbúðum? Það er að tryggja hag láglaunafólks og veita því aðstoð á viðráðanlegum kjörum, þannig að allir geti komið sér upp þaki yfir höfuðið og þeim sem ekki eiga þess kost á að tryggja leiguíbúðir með viðráðanlegum kjörum. Spyrja má, þarf einhverju að breyta í félagslega íbúðakerfinu til að ná þessu markmiði? Já, ég er sammála því að það þarf að skoða það að einfalda félagslega íbúðakerfið og það þarf að stórefla leigumarkaðinn. Hafa nokkrir þeir, sem helst hafa staðið vörð um félagslega íbúðakerfið, fallist á þær breytingar sem hér er verið að gera á húsnæðislánakerfinu? Nei, herra forseti. Ég er hér bæði með samþykktir ASÍ, samþykktir BSRB, samþykktir Verkamannsambandsins og ályktun landssamtaka húsnæðisnefnda. Allir þessir aðilar leggja til ákveðnar breytingar á núverandi kerfi, en ekki að leggja það niður, ekki að rústa það, herra forseti. Og hverjir eru það sem skipa landssamtök húsnæðisnefnda? Hverjir eru í húsnæðisnefndum? Það eru fulltrúar sveitarfélaganna m.a. og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar. Og hvað segja þeir um þetta kerfi sem hæstv. félmrh. ætlar að leggja af? Þeir segja orðrétt, herra forseti:

,,Núverandi löggjöf um félagslega eignaríbúðahúsnæðið hefur reynst allvel í stærstu þéttbýlisstöðum landsins, þó svo á einstökum stöðum á landsbyggðinni hafi reynst erfitt að selja félagslegt íbúðarhúsnæði. Ársfundurinn vekur athygli á að 85 til 90% af öllum félagslegum eignaríbúðum ganga eðlilega kaupum og sölum og hafa reynst aðgengilegur íbúðarkostur. Af um 10 þús. eignaríbúðum hefur sveitarfélögunum reynst erfitt að ráðstafa 500 íbúðum en orsakir þess má fyrst og fremst rekja til ófullnægjandi atvinnuframboðs á viðkomandi stöðum.``

Þetta er nú dómurinn frá landssamtökum húsnæðisnefnda sem í eiga sæti fulltrúar sveitarfélaganna um allt land, og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar. Þeir leggja ekki til þá leið sem hæstv. félmrh. er að fara, að slá af alla félagslega aðstoð í húsnæðismálum á Íslandi. Þeir leggja til ákveðnar breytingar og þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til og finna má t.d. hjá BSRB og ASÍ og Verkamannasambandinu tel ég að eigi að skoða en ekki að fara þá leið sem hæstv. félmrh. leggur til.

Það er staðreynd, herra forseti, að þetta kerfi hefur í megindráttum reynst vel en á því eru hins vegar gallar sem þarf að laga sem snúa að miklu leyti að framkvæmdinni á félagslega kerfinu, en það er líka nauðsynlegt að einfalda kerfið og fara í átak til að efla leigumarkaðinn en ekki að rústa kerfið, herra forseti. Og fullyrðingar í greinargerð ráðherra um að félagslega kerfið bjóði upp á lítinn sveigjanleika eru rangar og hafa ekki við nein rök að styðjast. Það er einmitt mikill sveigjanleiki í þessu kerfi en gallinn er sá að sveitarfélögin mörg hver hafa ekki nýtt sér þann sveigjanleika sem er í því kerfi, sérstaklega ekki í kaupleigukerfinu sem býður upp á að fólk geti byrjað á að leigja og kaupa svo íbúðina þegar hagur vænkast og sveitarfélögin áttu að lána þessum íbúum, ef þeir keyptu kaupleiguíbúðir, það sem vantar upp á 100%, eða 10% til allt að 15 árum og fæst þeirra hafa gert það. Þannig hefur sveigjanleiki kerfisins ekki verið nýttur. Og því er ég að tala um að það sé kannski fyrst og fremst framkvæmdinni sem sé ábótavant. Það er auðvitað sorglegt, en staðreynd samt, að þótt flest sveitarfélögin hafi staðið sig vel í uppbyggingu félagslega kerfisins, þá eru til nokkur sveitarfélög úti á landi sem hafa ekki haft hag láglaunafólks í huga, heldur hafa verið að byggja meira en þörf krefur til að halda uppi verktakaiðnaðinum á staðnum. Og eigum við nú að rústa allt félagslega kerfið, sem staðið hefur hér í 70 ár, vegna þess að 32 íbúðir hafa staðið auðar lengur en eitt ár og af því að nokkur sveitarfélög hafa ekki hagað sér skynsamlega að því er varðar uppbyggingu félagslega kerfisins?

Herra forseti. Ég held að hæstv. félmrh. verði að átta sig á því á hvaða leið hann er í þessu efni. Stendur frv. félmrh. undir því sem segir í grg. með frv., að það eigi að þjóna betur tekjulágu fólki og öldruðu? Þetta fullyrðir hæstv. félmrh. í frv. og hann fullyrðir einnig að það sé til nægjanlegt framboð á húsnæði, en fyrir hverja? Fyrir hverja er til nægjanlegt framboð á húsnæði? Er hér til nægjanlegt framboð fyrir láglaunafólk, fyrir þá verst settu, fyrir aldraða, fyrir öryrkja? Nei, það er ekki til. Og hæstv. félmrh. bætir ekki úr því með því frv. sem hér er lagt til heldur er hann að hverfa til fortíðar í húsnæðismálum. Efni frv. er því langt frá því markmiði sem hæstv. ráðherra telur sig vera að framfylgja í húsnæðismálum. Þetta er, herra forseti, hreint rothögg fyrir lægst launaða fólkið og harkalegasti skellur sem láglaunafólk hefur fengið frá stjórnvöldum svo áratugum skiptir. Það er því argasta öfugmæli sem segir í frv. að verið sé að tryggja sérstaklega og betur en nú er gert hag láglaunafólks, þegar hundruð fjölskyldna á ári hverju, verði þetta frv. að lögum, verða skildar eftir án nokkurs öryggis í húsnæðismálum. Án nokkurs öryggis, herra forseti, í húsnæðismálum.

Ég ætla að fara yfir efni þessa frv. Full ástæða er til að nýta hér allan þann ræðutíma sem maður hefur þó að hæstv. ráðherra hafi getað bunað út úr sér efni þessa frv. á 20 mínútum eða hálftíma, þar sem hann er að rústa félagslega kerfið á Íslandi.

Flýting vaxtabóta. Það er jákvætt. En það er reyndar ekki mikið meira að finna í frv. sem er jákvætt. Það er mjög jákvætt. Ég styð það. Félagsleg lán. Það virkar mjög fagurlega að fólk getur nú farið út á almenna markaðinn og valið sér íbúð, en er það svo? Er það svo í reynd, herra forseti, að fólk, sem þarf á félagslegri aðstoð að halda, geti nú farið út á almennan markað, valið sér íbúð og fengið til þess félagsleg lán? Ég er ekki á móti félagslegum lánum og er alveg tilbúin að skoða þau og þá kosti sem ASÍ setur fram í því efni, en útfærsla ráðherra að því er varðar þessi félagslegu lán gengur ekki upp.

Síðan komum við að húsbréfakerfinu. Ég minnist þess að ekki eru mörg ár síðan ég deildi hart við framsóknarmenn sem börðust hvað hatrammast gegn húsbréfakerfinu á þingi. Nú er húsbréfakerfið það besta sem til er. Framsóknarmenn sjá nú ekki sólina fyrir húsbréfakerfinu. Það er meira að segja svo gott í þeirra huga að það er hægt að fella alla félagslega aðstoð við láglaunafólk undir húsbréfakerfið og veita öllum húsbréfalán. Það á að leysa vandann fyrir láglaunafólk. En húsbréfakerfið var ekki sniðið að því að mæta þörfum láglaunafólks og þeirra sem verst standa. Þannig að hæstv. núverandi félmrh. þykir húsbréfakerfið greinilega enn betra en mér hefur fundist. Og þeir ætluðu að koma í veg fyrir að 86-kerfið yrði lagt af og hömuðust í marga mánuði gegn húsbréfakerfinu. En nú leysir það vanda láglaunafólks líka.

Förum nú yfir það, herra forseti, hverjar eru afleiðingar frv. fyrir láglaunafólk. Það er kannski rétt, áður en ég fer í það, að skoða aðeins hverju raunverulega er verið að breyta. Það er verið að markaðsvæða félagslega íbúðakerfið og örugglega stefnt í einkavæðingu á því ef sjálfstæðismenn fá að ráða eins og þeir hafa fengið að ráða hingað til í húsnæðismálum og það vekur athygli að ýmis ákvæði hlutafélagalaganna eru tekin upp varðandi starfrækslu sjóðsins. Félmrh. á einn að skipa fimm manna stjórn Íbúðalánasjóðsins. Hann á einn að skipa það sem kallað er matsnefnd, að mig minnir. Hann á að skipa þriggja manna undirbúningnefnd til þess að leggja af lánasjóðina og matsnefnd til þess að meta skuldir Húsnæðisstofnunar. Hann á einn að skipa varasjóð. Hann á einn að ráða öllu í þessu efni. Eins og ég segi bera ákvæði frv. þess merki að verið er að einkavæða og stefna í einkavæðingu á íbúðalánakerfinu. Auðvitað ber þessi nýi Íbúðalánasjóður líka einkenni bankastofnunar, enda tiltekið að hann eigi að standa undir sér með eigin tekjum og vöxtum án ríkisframlaga.

Öllu starfsfólki Húsnæðisstofnunar verður væntanlega sagt upp og það sem er nokkuð sérkennilegt, herra forseti, þegar verið er að breyta um rekstrarform á ríkisstofnunum hér á Alþingi, t.d. með hlutafélagavæðingu, er yfirleitt ákvæði í frv. um það að starfsfólk eigi að hafa forgang til starfa. Nú segir hæstv. félmrh. hér: Ég ætla að beina því til þessa nýja framkvæmdastjóra að hann sjái til þess að eitthvað af þessu fólki verði nú ráðið. --- Það er ekki nægjanlegt, herra forseti. Auðvitað verða að koma skýr ákvæði um það inn í frv. sjálft, ef þessi löggjöf nær á annað borð fram að ganga, sem auðvitað er ekki víst, vegna þess að eitt skal hæstv. ráðherra vita: Hann kemur þessu frv. ekki léttilega hér í gegnum þingið. Ég er tilbúin að standa til sumars í þessum ræðustól til að koma í veg fyrir að þessi áform gegn láglaunafólki og lægst launaða fólkinu á Íslandi nái fram að ganga.

Það er náttúrlega ljóst að frv. er sniðið að þörfum nokkurra sveitarfélaga sem hafa ekki hagað sér skynsamlega í húsnæðismálum, þó að flest sveitarfélög hafi gert það. Það eru nánast allar skyldur teknar af sveitarfélögunum, eins og kaupskylda, forkaupsréttur, 3,5% óendurkræft framlag af heildarbyggingarkostnaði, 10% lán til Byggingarsjóðs verkamanna af hverri eignaríbúð og ef sveitarfélag þarf að selja íbúð á lægra verði en innkaupsverði virðast þeir vera tryggðir í gegnum þennan varasjóð en ef eigandi félagslegrar íbúðar selur á almennum markaði ber hann sjálfur ábyrgð á hugsanlegu tapi. Það er ekkert verið að hugsa um láglaunafólk í þessu frv. Ekki nokkurn skapaðan hlut, herra forseti.

[13:00]

Ef ég fer síðan í afleiðingar þessa frv. fyrir láglaunafólkið sýnist mér blasa við að fjölda fólks sem hefur fengið aðstoð í gegnum félagslega íbúðalánakerfið verði hreinlega úthýst. Og af hverju dreg ég þá ályktun, herra forseti? Það eru þúsund fjölskyldur sem árlega hafa fengið fyrirgreiðslu gegnum félagslega kerfið í endursöluíbúðum og í nýjum íbúðum. Þar af hafa í gegnum árin um 200--250 fengið 100% lán þótt þeir séu eitthvað færri núna í tíð núv. ráðherra. Greiðslumatið í félagslega kerfinu er miklu rýmra. Þar er miðað við að greiðslubyrðin fari ekki yfir 28% af tekjum en í húsbréfakerfinu er miðað við að greiðslubyrðin verði mest 18% af tekjum. Ef þetta gengur eftir, ef greiðslumatinu verður ekki breytt, ef þeir sem fá núna íbúðir í félagslega kerfinu þurfa að ganga undir sömu skilmála um greiðslumat og aðrir í húsbréfakerfinu þá er verið að setja á götuna, herra forseti, 600 fjölskyldur á hverju einasta ári.

Ég hef heyrt það og ég spyr ráðherra um að það hvort það eigi að fara að koma á neyslustaðli þar sem gert er ráð fyrir lágmarksframfærsluþörf hvers umsækjanda. Gæti það hugsanlega leitt til þess að það yrðu enn fleiri heldur en þessar 600 fjölskyldur á hverju ári sem yrðu á götunni? Ég spyr ráðherrann um þennan neyslustaðal vegna þess að margir óttast að hann muni enn þrengja þann hóp sem fær fyrirgreiðslu í þessu nýja kerfi ráðherrans.

Hvað eigum við nú að gera við þetta fólk, þessar nokkur hundruð fjölskyldur sem verða á götunni á hverju ári? Leiguíbúðir. Leiguíbúðir, sagði hæstv. félmrh., og undirstrikaði hvað eftir annað hér í ræðustólnum skyldu sveitarfélaganna varðandi leiguíbúðir.

Hvernig lítur þetta nú út? Það kemur fram í þessu frv. að veita eigi niðurgreidd lán til samtals 50 íbúða á árunum 1999 og 2000. 50 íbúðir til þess að mæta þörfum kannski 1.200 og þaðan af fleiri fjölskyldna á þessu tímabili. 50 íbúðir.

Hvað býður ráðherrann svo upp á? Jú. Hann gerir ráð fyrir því að semja við sveitarfélögin um framhaldið. Hvenær á þeim samningum að ljúka? Áður en þetta frv. verður að lögum, þannig að við vitum hvað við erum að samþykkja? Þannig að við vitum hvað hægt er að gera við það fólk sem verður núna úthýst úr félagslega kerfinu. Nei, aldeilis ekki. Fyrir árslok 2000 eiga þeir samningar að liggja fyrir. Fyrir árslok 2000 og meðan höfum við til ráðstöfunar 50 leiguíbúðir fyrir þetta fólk.

Ég spyr ráðherrann: Hvað ætlar hann að gera við félagasamtök sem hafa treyst á þetta félagslega íbúðakerfi? Námsmenn, samtök fatlaðra, samtök aldraðra sem hafa getað byggt leiguíbúðir gegnum þetta félagslega kerfi. Hvað á að gera við þessa hópa? Eiga þeir að fá hlutdeild í íbúðunum 50 sem þessar 1.200 fjölskyldur eiga að komast inn í? Hvað þýðir það fyrir fatlaða? Einmitt þessi kostur hefur orðið til þess að fatlaðir hafa getað farið út af sambýlum og stofnunum inn í félagslegar íbúðir. Erum við að hverfa hér líka aftur til fortíðar í málefnum fatlaðra? Er það til viðbótar öllu öðru sem hér er boðað af hæstv. félmrh.?

Húsaleigubætur, segir ráðherrann. Við vitum ekki hvaða afleiðingar þær breytingar, sem hér voru gerðar á húsaleigubótalöggjöfinni, muni hafa sem voru settar þannig fram að það mætti hækka húsaleigu upp í kostnaðarverð en síðan ætti að bæta allt gegnum húsaleigubótakerfið. Við sýndum fram á það fyrir jólin aftur og aftur að fólk, sem er í leiguíbúðum og hefur fengið niðurgreiðslu þar, þyrfti með húsaleigubótunum, ef ekkert annað kæmi í staðinn, að taka á sig kannski 10--15 þús. kr. á mánuði. Það er verið að skoða þetta núna hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur. Við vitum ekki niðurstöðuna. Þessu á öllu að vísa á sveitarfélögin sem geta fengið lán til 50 íbúða næstu tvö árin.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann er sammála þessu. Er þetta rétt eða er það komið frá fjmrn. að það verði bara lánað til 50 íbúða á árinu 1999 og árinu 2000? Er þetta samkomulag sem var gert við hæstv. félmrh. eða er þetta bara fyrirskipun sem hann hefur tekið við frá fjmrn. eins og í mörgu öðru í þessu frv. sem hér er til umræðu? Mér kæmi það ekki á óvart, herra forseti, þó þetta væri fyrirskipun frá hæstv. fjmrh. sem hæstv. félmrh. tekur góða og gilda eins og hann tekur hér upp stefnu Sjálfstfl. í húsnæðismálum um að leggja af félagslega aðstoð og einkavæða félagslega íbúðakerfið.

Hvaða áhrif hefur þessi breyting á fasteignamarkaðinn? Hvaða áhrif hefur þessi breyting á greiðslubyrðina? Við vitum ekki enn um áhrifin á fasteignamarkaðinn. Hún getur orðið veruleg fyrir nýja kaupendur 2--4 herbergja íbúða en þeir hafa verið um 60--70% þeirra sem hafa fengið fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu. Eftirspurnin eykst örugglega. Og því skulum við líka halda til haga að það er staðfest bæði af Ríkisendurskoðun og Húsnæðisstofnun að nýjar íbúðir í félagslega kerfinu hér á höfuðborgarsvæðinu eru 10% dýrari en á almennum markaði. Þarf þetta fólk sem nú kemur inn á hinn almenna markað að taka á sig þessa 10% hækkun fyrir utan skilyrði um að það geti líka lagt fram 10% af útborguninni?

Ráðherra fullyrðir að 100% lánið hafi reynst svo illa að það eigi að leggja þau af. Hverjar eru staðreyndir í því? Staðreyndin er sú um það sem er kallað stórfelld vanskil að af 600 lánum sem eru í gangi, 100% lánum, eru vanskilin aðeins 17% þannig að 83% þeirra sem hafa fengið 100% lán hafa vissulega getað notið þess. Þetta á nú að leggja af með tilstyrk Framsfl.

Við skulum aðeins líta á greiðslubyrðina, herra forseti. Hæstv. ráðherra fullyrðir að greiðslubyrðin verði heldur léttari í nýja kerfinu, fyrir þá sem á annað borð komast inn í kerfið. En liggur þetta mál svo? Hæstv. ráðherra, sem skildi eftir hálftíma af sínum ræðutíma, vék ekki einu orði að þeim stórfellda kostnaðarauka sem verið er að setja á fólk í hinu nýja kerfi. Hann fór ekki yfir ýmsan kostnað sem þetta fólk verður að taka á sig. Það hefur verið reiknað út miðað við einstætt foreldri sem kaupir íbúð upp á 5,5 millj. að kostnaðurinn í núverandi kerfi, þinglýsingargjöld, lántökugjöld, sölulaun o.fl., er 56 þús. kr., beinn kostnaður. Hann verður fyrir þessa fjölskyldu 134.850 kr. í nýja kerfinu en í núverandi kerfi eru það 56 þús. Og þó að greiðslubyrðin sé í einhverjum tilvikum sem ráðherrann nefndi 1--2 þús. kr. léttari í nýja kerfinu, þá á hæstv. ráðherra að halda sannleikanum til haga. Við erum hér að tvöfalda til þrefalda þann beina kostnað sem fólk verður fyrir þegar það kaupir íbúð í nýju kerfi ráðherrans og þá hefur ekki verið tekið tillit til þess að sveitarfélögin hætta að greiða 3,5% sem hefur lækkað íbúðaverðið þannig að fólk hefur ekki þurft að borga nema 96,5%. Nú er það tekið af þannig að það eykur greiðslubyrðina einnig. Það er ekki tekið með í útreikninga ráðherrans. Og það er heldur ekki tekið með í útreikninga ráðherrans, sem eru vissulega peningar sem fólk þarf að taka úr sínum vasa, ef íbúðirnar sem það þarf að kaupa eru 10% dýrari. Öllu þessu er stungið undir stólinn og ekki rætt hér einu orði sem mun hafa veruleg áhrif á þá greiðslubyrði sem þetta fólk verður að bera.

Málið liggur einfaldlega þannig að þeir sem komast yfirleitt inn í þetta nýja kerfi ráðherrans þurfa að borga meira, greiðslubyrði þeirra verður þyngri hvernig sem á málið er litið og síðan eru hundruð fjölskyldna skildar eftir á götunni. Þarf nokkurn að undra, herra forseti, að ég þurfi að tala um þetta mál til sumars ef með þarf?

Síðan er það vaxtabótakerfið sem nú á að taka við allri félagslegri aðstoð undir stjórn fjmrh. 150 millj. kr. Eiga þær að nægja í þetta, herra forseti? Ég hef ekki séð það. Niðurgreiðslan á félagslegum íbúðum kostaði 838 millj. á árinu 1996. Hér eru 150 millj. sem á að bæta í vaxtabótakerfið til þess að sjá um allar niðurgreiðslurnar. Og hvernig fer með niðurgreiðslurnar hjá þeim sem eru í núverandi kerfi? Halda þeir þeirri niðurgreiðslu sem þar er fyrir eða verða þeir líka settir inn í vaxtabótakerfið? Ég bið ráðherrann um svar við því.

Hér er auðvitað um pólitíska skömmtun að ræða vegna þess að fjöldi viðbótarlána verður takmarkaður á hverju ári allt eftir því hve mikið verður veitt af viðbótarlánum. Það veit enginn. Ég spyr ráðherrann: Hvað áætlar hann að verði veitt mörg viðbótarlán? 100 eða 200? Segjum að þau verði 200. Svo koma 400 manns, allir jafnsettir og eiga aðgang að þessu viðbótarláni. Hver á að velja þetta fólk? Það á að taka fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar út úr húsnæðisnefndunum. Þar verða pólitískir fulltrúar. Þarna er verið að koma á ákveðnu skömmtunarkerfi, herra forseti. Svo er þetta allt undir einhverjum hatti, að allir geti bara farið út á almenna markaðinn og valið sér íbúð eins og þeir vilja. Hér er verið að taka upp nýtt, miðstýrt skömmtunarkerfi.

Svo veltir maður fyrir sér þessu valfrelsi vegna þess að sveitarfélögin geta skilyrt viðbótarlán til einstaklinga því að þeir kaupi þær íbúðir sem sveitarfélögin fá í endursölu. Komi íbúi í einhverju sveitarfélagi og vilji fara út á markaðinn og velja sér íbúð, þá getur fulltrúi sveitarfélaga sagt: Við erum hér með endursöluíbúð. Þú verður að taka hana, annars færðu ekki viðbótarlánið. Þetta er valfrelsið sem við ætlum að bjóða upp á. Þetta er gulrótin sem verið er að veifa framan í fólk til þess að hæstv. félmrh. geti selt þetta kerfi. Þetta er mesta blekking sem ég hef séð lengi hér í þingsölum, herra forseti.

Húsnæðisnefndir þurfa að samþykkja þessar íbúðir. Hvernig verður eftirlitið? Það verður vafalaust þungt og flókið í vöfum vegna þess að þeir sem fara út á hinn almenna markað og finna 2--3 íbúðir sem þeir vilja gjarnan kaupa, einhverja af þessum íbúðum, þá verður sennilega eftirlitsfulltrúi að fara á eftir þeim og samþykkja hvort þessi íbúð uppfyllir gæði og kröfur sem gerðar eru til hennar. Og hvað ef íbúðin þarf viðhald? Á að lána fyrir viðhaldinu líka? Hefur ráðherrann hugsað fyrir því?

Ég ætla að víkja að þessum varasjóði. Sveitarfélögin eiga að greiða í hann 5% af væntanlegu viðbótarláninu. Ég spyr ráðherrann um það. Ef eitthvert sveitarfélag greiðir ekki þessi 5% af viðbótarláninu í varasjóðinn, þá fá íbúar þess sveitarfélags ekki viðbótarlán? Það er nauðsynlegt að hann svari því. Ef einhver sveitarfélög ætla ekki að greiða þetta viðbótarlán vegna þess að það gangi ekki út af fjárhagsáætlun, það kemur einhvers staðar hér fram, og geti ekki eitthvert árið eða ætli kannski alls ekki að greiða þetta 5% viðbótarlán, er það þá svo að íbúar þess sveitarfélags fá ekki viðbótarlán? Er það svo?

Síðan virðist sjóðurinn eiga að hafa það verkefni að niðurgreiða eldri lán Byggingarsjóðs verkamanna ef markaðsverð eignar reynist lægra en uppreiknað veðlán sjóðsins. Með öðrum orðum, það á að leysa sveitarfélögin sem misnotað hafa félagslega kerfið úr snörunni. Sumir hafa áætlað að það kosti 2 milljarða. Á þessi varasjóður að standa undir því og þar með þau mörgu sveitarfélög sem hafa staðið sig vel varðandi uppbyggingu félagslega kerfisins, eiga þær greiðslur sem þau sveitarfélög inna af hendi í þennan sjóð að fara til þess að greiða skuldir sveitarfélaga sem hafa staðið sig illa? Síðan hefur ráðherrann það í hendi sér samkvæmt þessu lagaákvæði að hækka framlagið þannig að Reykjavík, Hafnarfjörður eða Kópavogur sem hafa staðið sig vel þurfa að fara að greiða niður skuldirnar í Bolungarvík. Er þetta svo, herra forseti? Við þurfum auðvitað að skoða það hvort þetta er meiningin með breytingunni.

Spurningin er um þá sem eru í núverandi kerfi. Er það svo að sveitarfélag geti hafnað forkaupsrétti? Það er talað um að sveitarfélögin geti breytt tímanum varðandi forkaupsréttinn í núverandi kerfi. Ég spyr um það vegna þess að það er mikilvægt. Getur verið að sveitarfélag geti hafnað forkaupsrétti á íbúðum þeirra sem eru í núverandi kerfi og vilja selja sína íbúð á markaði? Það er auðvitað alvarlegt ef svo er því að þessir íbúar hafa farið inn í þetta kerfi á ákveðnum forsendum um að sveitarfélögin innleysi til sín íbúðir þeirra. Á þeim getur hvílt kannski 7 millj. kr. lán. Hér er kannski um 3 millj. kr. íbúð að ræða og ef sveitarfélögin hafna forkaupsrétti, sitja þá íbúarnir uppi með þessa íbúð? Ég er ekki að fullyrða þetta. Ég er að spyrja af því að þetta er mikilvægt atriði.

[13:15]

Síðan spyr ég um eitt, vegna þess að ákvæði til bráðabirgða VI er verulega skrýtið. Er það virkilega svo að hægt verði að ógilda þegar gerða samninga, a.m.k. er varðar þá sem fengið hafa úthlutað íbúð á byggingarstigi en ekki hefur verið afhent? Samkvæmt frv. á að gera þeim grein fyrir breyttu ástandi, ég held það sé á bls. 17 í frv. sem er full ástæða til þess að skoða, en þar segir: ,,Slíkum aðilum skal jafnframt gefinn kostur á því að hætta við kaup óski þeir þess.`` Þurfa þeir að fá nýtt greiðslumat sem þegar hafa gert samning um íbúð en hafa ekki fengið íbúðina afhenta af því hún er á byggingarstigi? Er það svo að hægt sé að ógilda þessa samninga?

Hérna stendur: ,,öllum þeim sem fengið hafa loforð eða úthlutun íbúðar á byggingarstigi eða annars konar íbúðar samkvæmt eldra kerfi og ljóst er að ekki verður tilbúin til afhendingar og/eða uppgjörs fyrr en eftir gildistöku laga þessara. Slíkum aðilum skal jafnframt gefinn kostur á því að hætta við kaup óski þeir þess.`` Það á að tilkynna þessum aðilum breytt ástand. Ég spyr sérstaklega um þetta vegna þess að það er auðvitað alvarlegt ef það er svo.

Ég spyr aftur um starfsöryggi fólks í Húsnæðisstofnun. Er ráðherrann tilbúinn til þess, ef þetta frv. nær yfirleitt fram að ganga, sem mig hryllir við, að setja ákvæði inn í frv. um forgang þessa fólks til starfa? Það er allsérkennilegt ákvæði hér varðandi opinbera starfsmenn, sem er full ástæða til að lesa en það er um hæfniskröfur framkvæmdastjóra yfir þessum nýja banka ráðherrans. Hér stendur:

,,Greinin gerir ekki ríkari hæfniskröfur til framkvæmdastjóra en almennt eru gerðar til ríkisstarfsmanna. Gera verður þó ráð fyrir því að framkvæmdastjóri hafi þá viðbótarþekkingu og reynslu sem stjórn Íbúðalánasjóðs telur nauðsynlega að framkvæmdastjóri hafi til þess að geta gegnt starfinu.``

Er það bara gefið hér fyrir fram að ríkisstarfsmenn eða opinberir starfsmenn hafi ekki þá hæfniskröfu sem gera á til framkvæmdastjórans í þessum nýja banka? (SvG: Það á að vera framsóknarmaður ...) Framsóknarmaður? Ja, það skyldi þó nú ekki vera að allar þessir nefndir og sjóðir og ráð sem félmrh. er einráður um hvernig skipa á, að það verði allt saman framsóknarmenn. Ekki bætir það frv., herra forseti, ef það er raunin.

En hvað á að gera, herra forseti, til þess að bæta núverandi kerfi? Ég held að það eigi að skoða af fullri alvöru þær tillögur sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram. Ég held að það eigi að einfalda kerfið og ég held að það væri til bóta ef hér væri eitt kerfi, kaupleigukerfi, með 90% lánshlutfalli og ég tel að möguleikinn á 10% viðbótarláni eigi að vera til staðar. En hann þarf þá að vera til lengri tíma en þriggja ára. Ég held að lánið mundi gagnast að fullu ef það væri til 15 ára.

Vaxtabætur tel ég rétt að hafa með sama hætti og ráðherra leggur til, að þetta verði samtímagreiðslur. Og ég held að kaupendur eigi að hafa val um leigu eða kaup fyrstu árin og að afborgunarhlutinn í húsaleigu nýtist leigjanda sem greiðsla þegar leiga breytist í kaup. Þetta hefur verið lagt til af ýmsum aðilum sem hafa verið að skoða þetta kerfi.

Ég held líka að það þurfi að gera átak á leigumarkaðnum og það á að gera í samráði sveitarfélaga, verkalýshreyfinga og jafnvel lífeyrissjóða þannig að það sé gert átak til að fjölga leiguíbúðum og efla leigumarkaðinn. Og ég held að við komumst ekkert af með færri en nokkur hundruð leiguíbúðir á hverju ári. Það er auðvitað hægt að einfalda þetta kerfi og koma til móts t.d. við sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar en það á ekki að fara þá leið sem hæstv. ráðherra boðar. Íhaldið getur vissulega fagnað yfir því hér í þingsölum að hafa knésett Framsfl. og fengið þá til að flytja inn í þingsali stefnu sína um einkavæðingu félagslegra íbúða og að slá af félagslega aðstoð til láglaunafólks. En það verður barist hart gegn því, herra forseti, eins lengi og þarf hér á þingi til að koma í veg fyrir að láglaunafólkið og þeir verst settu verði settir hér á kaldan klaka eins og allt stefnir í með þessu frv. félmrh.