Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 13:22:58 (4431)

1998-03-06 13:22:58# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[13:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar hér um varnarræðu. Það veitir nú ekki af því að halda hér uppi vörn fyrir láglaunafólkið þegar þetta er að skella yfir. Ekki hefur láglaunafólkið skjól hjá framsóknarmönnum, það er alveg ljóst. Ég veit að þessi hv. þm. vill vel en ég er sannfærð um að hann hefur ekki kynnt sér áhrif og afleiðingar af þessu frv.

Hv. þm. talar um óraunhæft verð, þungan bagga á sveitarfélögunum og mikla greiðslubyrði fyrir láglaunafólk. Það er verið að tvöfalda eða þrefalda þann kostnað sem fólk hefur bara við það að komast inn í íbúðina. Það er verið að taka 3,5% framlag af sveitarfélögunum, sem fer þá beint á fólkið sjálft. Þyngir það ekki greiðslubyrðina? Það er verið að halda þannig á málum að sveitarfélögin um allt land þurfa á næstu tveim árum kannski að byggja 1.200 leiguíbúðir. Heldur hv. þm. að það verði minni baggi á sveitarfélögunum en í núverandi kerfi?

Og ef hv. þm. þekkir ekki sveigjanleikann í þessu kerfi, ja þá skil ég ekki hvað hann er að fara vegna þess að hann er mikill, en hann hefur ekki verið nýttur. Ég hvet nú hv. þm. til að skoða málið betur.

Ég sagði ekki, og ég undirstrika það, að það sé allt í lagi í þessu kerfi. Ég sagði hverju þyrfti að breyta. Ég sagði að það ætti að skoða tillögur verkalýðshreyfingarinnar. Og ég skora á hv. þm. að leggja okkur í stjórnarandstöðunni lið með því að þetta frv. verði ekki afgreitt núna heldur verði það unnið í samráði við verkalýðshreyfinguna í sumar og lagt fram á nýjan leik í haust þannig að tryggt sé að láglaunafólk og þeir verst settu verði tryggðir, sem þetta frv. gerir ekki ráð fyrir vegna þess að það er verið að úthýsa hundruðum fjölskyldna sem hafa átt skjól í félagslega kerfinu.