Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 13:25:03 (4432)

1998-03-06 13:25:03# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[13:25]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. svaraði því ekki hvernig fólki, láglaunafólki, hefur gengið í félagslega kerfinu. Það þekki ég af eigin raun af störfum mínum sem sveitarstjóri. Það er kannski dálítill munur á því hvort við erum að vinna í félmrn., hvort við erum að vinna með reglur og lög eða hvort við erum með fólkinu sem er að kaupa sér íbúðir eða selja íbúðir, við skynjum þetta á allt --- ég ímynda mér á allt annan hátt.

Ég er alveg klár á því að full ástæða er til að stokka upp það kerfi sem er nú við lýði, það er full ástæða til þess. Ég fer á mjög marga fundi í mínu kjördæmi, á hverjum einasta þeirra spyrja sveitarstjórnarmenn, þá spyr hinn almenni borgari: Ætlið þið ekki að breyta þessu félagslega kerfi? Þess vegna segi ég það að ég held að þau spor sem við erum að taka hér séu til góðs og ég er alveg tilbúinn að hlusta á, eins og sjálfsagt allir framsóknarmenn og allir stjórnarþingmenn, við erum tilbúin til að hlusta á allar góðar hugmyndir, allar góðar ábendingar um breytingu. En ég hef ekki heyrt þær ábendingar enn hjá hv. þm.